Ríkissjónvarpið á að gera ríkar kröfur til fréttamanna um vandað málfar. Sami fréttamaður sagði í kvöldfréttum (05.09.2010) að Gunnar Rúnar hefði játað morð og að Reykjanesbær hefði afhjúpað styttu. Hvort tveggja er rangt, að mati Molaskrifara. dv.is sagði hinsvegar réttilega sama dag: Gunnar Rúnar Sigurþórsson hefur játað á sig morðið á Hannesi Þór Helgasyni. Í sama fréttatíma sagði íþróttafréttamaður: … átti í engum vandræðum með. Betra hefði verið: … átti ekki í vandræðum með , eða átti ekki í neinum vandræðum með.
Hildur segir allt, er enskuleg stríðsletursfyrirsögn á forsíðu DV (05.09.2010) Í íslenskum málheimi er þetta ófullburða setning.
Bjarni Sigtryggsson sendi eftirfarandi: „Á Bylgjunni hljómar nú auglýsing um nýja kvikmynd – í „þrídí“ eins og sagt er. Er íslenzka orðið *þrívídd* ekki boðlegt lengur?“ Molaskrifari bætir við, að í DV eða Fréttablaðinu var smáauglýsing þar sem hvolpar voru boðnir til sölu ,liturinn var sagður black og tan. Móðurmálið á í vök að verjast.
Tvennt hnaut Molaskrifari um við lestur DV á mánudagsmorgni (06.09.2010): Það hefur ekkert annað væntanlega vakið fyrir honum…. Hér á að standa : … vakað fyrir honum. Hitt var: Bréf sem þeir sendu Guðmundi nýlega var einnig komið í hendur annarra þingmanna Framsóknarflokksins. Hér ætti að standa: Bréfi, sem þeir sendu Guðmundi nýlega var einnig komið í hendur ….
Svo er tekið til orða á visir.is (05.09.2010): Hreppsnefnd Grímsnes- og Grafningshrepps íhugar að láta að framkvæma sýnatöku á stöðum þar sem bílar frá Holræsa- og stífluþjónustunni hafa vanið komur sínar. Vafasamt er , að ekki sé meira sagt , að taka svo til orða að bílar venji komur sínar á tiltekna staði. Betra væri að tala um staði þar sem bílar fyrirtækisins hafi oft haft viðkomu , eða staði þar sem oft hafi sést til bíla frá fyrirtækinu.
Slúðurþáttur morgunútvarps Rásar tvö er er marks um hugsunarhátt þeirra sem ráða efni þessa morgunþáttar. Þetta slúður er oftast morandi í málvillum ( skrítin lykt lagði úr bílnum!) og Ríkisútvarpinu til skammar. Leitisgróan vestra hlýtur að eiga valdamikla vini í Efstaleitinu.
Á laugardagskvöldið var (04.09.2010) sýndu fjölmargar sjónvarpsstöðvar , þeirra á meðal NRK 2, fyrsta þátt Rigoletto Verdis í beinni útsendingu frá Mantova. Sagt var að 148 lönd ættu aðild að þessari útsendingu. Hljómsveitinni stjórnaði Zubin Mehta, Placido Domingo var Rigoletto, Julia Novikova, Gilda og Vittorio Grigola söng hlutverk hertogans af Mantova. Stórkostleg uppfærsla, Molaskrifari horfði á þetta að nýju í kvöld (06.09.2010) í stað þess að horfa á þátt um vampýrur og drauga í boði Ríkissjónvarpsins. Ekki virðist það hafa hvarflað að ráðamönnum Ríkissjónvarps að bjóða Íslendingum upp á þetta í beinni útsendingu á laugardagskvöldið, — enda er enginn fótbolti í Rigoletto
Skildu eftir svar