Í heild var umfjöllun Ríkissjónvarpsins um skýrslu þingmannanefndarinnar góð (11.09.2010). Það var ekki einfalt að gefa skýra mynd af þessu flókna máli í þröngum ramma fréttatímans, en það tókst bærilega.
Hér er sí og æ verið að vísa í sömu ambögurnar í þeirri von, að dropinn holi steininn. Í mbl.is stendur (09.09.2010): Fyrirhugað er að bora þrjú göng niður til mannanna,… Orðið göng er fleirtöluorð. Þess vegna ætti að tala um þrenn göng. Sá sem þessa frétt skrifaði gerði vel í að lesa grein Helga Hálfdanarsonar: Tvær ástúðir í einni buxu.Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. febrúar 1984. Hana er einnig að finna í greinasafni Helga um íslenskt mál, Skynsamlegum orðum og skætingi, bls. 146. (Ljóðhús, Reykjavík, 1985)
Stóriðjan hefur misst eitthvað rafmagn,..segir í frétt á mbl.is (09.09.2010). Öll er fréttin ánalega skrifuð,að ekki sé meira sagt. Sjá:http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/09/09/vidtaekar_rafmagnstruflanir/
Umsjónarmaður morgunþáttarins Vítt og breitt á Rás eitt í Ríkisútvarpinu var á hálum brautum (09.09.2010) þegar hann fyrst í löngu máli auglýsti tónleika Harðar Torfasonar og síðan í enn lengra máli heimsókn „aðgerðasinna“ sem svo var kallaður sem hingað er væntanlegur á vegum ofbeldissamtakanna sem kalla sig „Saving Iceland“. Umsjónarmaður tvítók að hann væri ekki að taka afstöðu í málinu. Ummæli hans öll , lengd þesarar ókeypis auglýsingar og orðaval leyndi þó ekki afstöðu hans og samúð. Ekki frekar en þegar hann helgaði heilan þátt gamalli Laxárdeilu á dögunum. Starfsmenn eiga ekki að komast upp með að misnota Ríkisútvarpið með þessum hætti. Það er ámælisvert. Maður var að vona að misnotkun af þessu tagi væri liðin tíð. Svo er greinilega ekki. Hún blómstrar í Efstaleitinu þar sem hver virðist geta farið sínu fram að að vild, – átölulaust.
Ragnar Eiríksson sendi Molum nokkrar réttmætar ábendingar.Hann segir: „Hlustaði á þátt á rás 1 á RUV þriðjudaginn 7. sept.2010 sem hét
„Sjálfboðaliðar þjóðar“ og finnst ástæða til að benda þér á hann. Þar er
leiðbeinandi að segja ungu fólki til og er hann vægast sagt illa máli
farinn. Það sem verra er, er að ég heyri ekki betur en unga fólkið taki
ambögurnar upp eftir honum.
Viljir þú hlusta á þáttinn, þá er slóðin: : RÁS 1 þriðjudagur 7. sept. 2010
http://dagskra.ruv.is/ras1/4562176/2010/09/07/
Þá má í leiðinni benda á fyrirsögnina „Bora borholur vegna Vaðlaheiðarganga“
af mbl.is 8/9, 2010 og athyglisverða en um leið grunsamlega frétt af
„visir.is“ sem er svona: „Þyrla Landhelgisgæslunnar er á leið í Þorgeirsfirði. Grunur leikur á að
maður hafi fallið af hestbaki og þótti ráðlegt að óska eftir aðstoð
þyrlunnar.
Frekari upplýsingar hafa ekki borist enda er símasambandið slæmt á þeim
slóðum þar sem slysið varð.
Þorgeirsfjörður er fyrir norðan. Nánar tiltekið á skaganum milli Eyjafjarðar
og Skjálfanda.“
Það hlýtur að vera meira en grunur þegar þyrla og 25-30 manna björgunarsveit
eru send af stað og spurning hve margir Þorgeirsfirðirnir eru!
Það er greinilega af nógu að taka fyrir málverndarmenn til að amast við. “
Þakka sendinguna,Ragnar.
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Þorgrímur Gestsson skrifar:
13/09/2010 at 22:08 (UTC 0)
Sæll, Eiður
Það er náttúrlega þín skoðun að Saving Iceland séu ofbeldissamtök. Eftir mínum kynnum af þeim eru þau það ekki en lögreglan beitti þau sjálf í einhverjum tilfellum ofbeldi. Og hvað varðar þáttinn um Laxárdeiluna: Þetta var svo sannarlega stórt fréttamál, sem er fyllilega þess virði að það sé rifjað upp, ekki síst vegna þess að það markaði áreiðanlega ákveðin tímamót í baráttu fyrir vernd náttúrunnar – sem ég vona að þú teljir að eigi rétt á sér! Sjálfur rifjaði ég þetta mál upp eitt sinn í röð þátta um gömul fréttamál, sem ég var með eitt sumar fyrir rúmlega 20 árum.
Mbkv.
Þorgrímur