«

»

Molar um málfar og miðla 404

50 manna sameiginleg framboð í Heimdall, segir í  fyrirsögn á mbl.is (13.09.2010). Þessa  fyrirsögn skilur Molaskrifari ekki. Meira um Heimdall: Frambjóðendur til stjórnar Heimdalls, segir einnig  sama  dag í mbl. is. Molaskrifari á  því að venjast  að eignarfallið af Heimdallur sé  Heimdallar, en eignarfallið af  dallur, sem merkir  þá  heldur ómerkilegt ílát , sé dalls. Kannski er Heimdallur  bara mjög ómerkilegt ílát.

  Ekki finnst Molaskrifara eðlilegt að tala um að verðhækkanir á fóðri  séu væntanlegar, eins og gert er í mbl.is (13.09.2010). Eðlilegra væri að tala um að verðhækkanir séu í vændum eða að verð á  fóðri muni hækka á næstunni.

Glöggur Molalesandi gaukaði  eftirfarandi athugasemd að  Molum:  “Það er stutt á milli hláturs og gráturs í boltanum,” skrifar Pressan.  Á maður ekki bara að þakka fyrir að ekki var skrifað hláts og gráturs? Jú líklega ber að þakka það. En  reiðareksmenn í málfarsefnum eins og sá sem  skrifaði Tungutakspistil í Mogga  sl. laugardag  telja þetta  áreiðanlega gott og gilt, – það er samkvæmt kenningunni að ef  nógu margir endurtaka  sömu vitleysuna verður hún  rétt  mál að lokum.

 Við höfum  verslað við TM í fleiri  ár, segir í auglýsingu í Ríkissjónvarpinu. Molaskrifara  var kennt  á sínum tíma að  ekki ætti að nota  miðstig  með þessum hætti. Fleiri ár, en hvað ? Rétt  væri að segja: Við höfum verslað  við TM  í mörg ár.  En, við höfum verslað við TM í fleiri ár en  fólkið,sem býr á neðri hæðinni. Kannski er þetta  úreltur lærdómur á  tímum hins  mikla umburðarlyndis ?

Molaskrifari játar hreinskilnislega að honum finnst  meðfylgjandi frétt úr mbl. is (12.09.2010)  vera bull: http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/09/12/islensk_heimili_kynjagreind/  Raunar getur hann  með góðri samvisku bætt því  við, að  tilvitnunin í  fræðimennina,sem kalla sig fræðikonur, er honum að mestu óskiljanleg.

 Þessa skelfilegu setningu er að finna á eyjan.is (13.09.2010): Í bréfi sínu til söfnuðarins skrifaði Jónína að hún væri þakklát þeim safnaðarmeðlimum sem tóku henni vel enda alltaf erfitt þegar foreldrar skilja og gifta sig nýjum maka.  Molaskrifari bendir á að þarna ætti að standa , til safnaðarins, orðið safnaðarmeðlimir er slæmt og  verra  er að  tala um þá sem gifta sig nýjum maka!

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>