«

»

Molar um málfar og miðla 407

Er þetta mikill eða lítill fjöldi?  Svona spurði fréttamaður Stöðvar tvö (18.09.2010).   Vonandi er það lítill fjöldi fréttamanna,sem orðar spurningar   svona.

 Góður Tungutakspistill í  Lesbók Mogga(19.09.2010) . Höfundur er Baldur Hafstað.

Í fréttum Ríkisútvarps  (18.09.2010) var talað um að kjörstaðir opnuðu (hvað ?). Í  fréttum Ríkissjónvarpsins  (16.09.2010) var sagt: Hér í safninu opnar sýningin…Við  tónlistarhúsið Hörpu  í Reykjavík  stendur að það opni á næsta ári. Í  fréttum Ríkissjónvarps (18.09.2010) var hinsvegar réttilega talað um, að kjörstaðir yrðu opnaðir. Sama í morgunfréttum á sunnudagsmorgni.

 Í veðurfréttum var  (17.09.2010)  talað  um skúr á stöku stað ! Það var og.

 Í Ríkisútvarpinu (16.09.2010) var talað um ganga  frá lagasetningum.  Ekki  finnst Molaskrifara  þetta  vel að orði komist.

Laug að hún bæri barn undir belti, er góð fyrirsögn á visir.is (17.09.2010). 

Gaf Mæðrastyrksnefnd 200 vettlinga, segir í fyrirsögn (17.09.2010) segir í fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins.  Réttilega er  hinsvegar í fréttinni talað um 200 vettlingapör. Enn eitt dæmið um  alvarlegan skort á máltilfinningu í Efstaleiti.   En  þar  á bæ er sjálfsagt allt í lagi að taka  svona  til orða,  því  alræmt  er  umburðarlyndi málfarsráðunautar. 

Prýðilegt innslag var í  fréttum Ríkissjónvarpsins (18.09.2010)  um Geysisslysið á Vatnajökli  fyrir  sextíu árum. Molaskrifari man vel fagnaðarbylgjuna,sem fór um  bæinn, þegar fréttin barst  eins og eldur í sinu. Þess hefði  þó mátt geta í  að það var Kristján Júlíusson loftskeytamaður á varðskipinu  Ægi,sem  var út af  Austurlandi,sem heyrði   dauft neyðarkall  af Vatnajökli.  26.september  verða  fjörutíu ár liðin frá því að Fokker F-27  flugvél Flugfélags Íslands fórst á Knúknum í Mykinesi  í Færeyjum. Átta létu lífið, sjö Færeyingar og einn Íslendingur.

Dapurlegt  er að þurfa aftur og aftur að hlusta  á að eitthvað sé  samkvæmt lögreglu, eins og  sagt var  í fréttum Ríkissjónvarps 17.09.2010.

  Lottóið á  næga peninga. Gæti þessvegna látið lesa yfir  textana  sem látnir eru dynja á okkur.   Þeir sem þar stjórna eru líklega ekki  miklir áhugamenn um málvernd.  Annars  væri ekki sagt við okkur: Um að gera  að spila með ! Það fengum  við  sjónvarpsáhorfendur að heyra 18.09.2010.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>