«

»

Molar um málfar og miðla 408

Fyrir stundu lyftu knattspyrnukonur Vals 100. titli félagsins. Svona tekur rithöfundur  til orða á bloggsíðu sinni. Molaskrifari hefur  aldrei heyrt  þetta orðalag, en giskar á að rithöfundurinn  eigi  við að knattspyrnukonurnar hafi fært  félagi sínu hundraðasta titilinn.

Þess ber að geta  sem vel er gert. Heimildamyndin um Sesselju Sigmundsdóttur  á  Síóheimum ,sem Ríkissjónvarpið  sýndi 19.09.2010  var  vönduð og vel gerð. Merk kona , merkur staður, Sólheimasamfélagið er einstakt og  hefur staðið af  sér  allar árásir misviturra stjórnmálamanna.

 Að sögn Fréttablaðsins (20.09.2010)er útvarpsstjóri   Útvarps Sögu búinn að reka Sigurð G. Tómasson. Og gerði það með því að senda honum smáskilaboð í farsíma! Einkar smekklegt.  Molaskrifari er ekki alltaf sammála  Sigurði ,en hann er fyrsta flokks útvarpsmaður,sem  afgreiðir þá sem  í beinni útsendingu eru með  dónaskap með festu og fullri kurteisi.  Vonandi verður  einhver önnur stöð til þess að tryggja sér   starfskrafta  Sigurðar .G og  ná til  sín þeim stóra hópi hlustenda,sem kann að meta hann.

Molavin, sendi Molum eftirfarandi: „reynslan af samstarfi við ríkisstjórnina sé slíkt…“ sagði fréttamanneskja Stöðvar 2 í kvöld. Reynslan sé slík. Frumlag – umsögn – andlag.

Það líður ekki sá fréttatími að mistökum af þessu tagi sé ekki útvarpað. Ég leyfi mér að ganga út frá því að ekki sé ráðið fólk til starfa nema það kunni undirstöðu málfræðinnar, svo þetta hlýtur að mega rekja til almennar óvandvirkni; þegar fréttafólk skrifar fréttir með hraði og les ekki texta sinn yfir áður en hann er sendur áfram. í öllu daglegu hjali um ráðherraábyrgð væri kannski ekki úr vegi að fara að ræða ritstjóraábyrgð á fjölmiðlum.

Íslensk orðabók á að vera til á vinnuborði hvers fréttamanns og gott safn uppsláttarrita um málnotkun á hverri ritstjórn. Það væri líka brýnt að kenna notkun viðtengingarháttar. Hann virðist horfinn úr fréttamáli. “

Nýlega sýndu margar  sjónvarpsstöðvar óperuna Rígólettó í beinni útsendingu  frá Mantova  á Ítalíu. Þetta  var  eiginlega ekki   venjuleg óperuuppfærsla  heldur    kvikmynd í beinni útsendingu þar sem notaðar voru 35 myndavélar.  Sagt var að  148 lönd  ættu  aðild að  útsendingunni. Ekki bólar  á þessu meistaraverki  í Ríkissjónvarpinu  en þar fóru þau   Placido  Domingo  og Julia Novikova  á kostum undir stjórn  Zubin Mehta. Í kvöld   (19.09.2010) er fyrsta  sinfónía  Mahlers á dagskrá  NRK2. Hversvegna sinnir  Ríkissjónvarpið  okkar ekki sígildri tónlist?  Rígólettó verður  hinsvegar  frumsýnd í Íslensku óperunni í næsta mánuði. Það er tilhlökkunarefni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>