Nú er hafin sú tíð, að mikið er um kappakstursmyndir í fréttum og dagskrá sjónvarpsstöðvanna. Þetta efni er algjörlega utan míns áhugasviðs, en mér er ljóst að margir hafa áhuga á þeim kappakstri sem kenndur er við „formúlu“. Það verður hinsvegar að gera þá kröfu til þeirra sem flytja þessar fréttir að þeir tali óbrenglaða íslensku. Í kvöld (03.04.) sagði ,,formúluvitringur“ Stöðvar tvö: „..bronsverðlaunin,sem hefðu fallið Hamilton í té“. Þetta er rugl. Hann hefði getað talað um bronsverðlaunin sem hefðu fallið Hamilton í skaut, eða sem hefðu komið í hlut Hamiltons. Sami fréttamaður sagði, að tiltekinn maður hefði viðurkennt„ að hafa falið sannleikann“. Á góðu máli hefði verið sagt, að maðurinn hefði viðurkennt að hafa sagt ósatt,- logið.
„Mikilvægt að virða grundvallarreglur á umrótatímum“, sagði (04.04.) í fyrirsögn á Vefmogga. Ég staldraði við þetta.Orðið umrót er hvorugkyns, eintöluorð. Það er því rangt að tala um „umrótatíma“. Orðið umbrot sem líka er hvorugkyns er hinsvegar fleirtöluorð. Þessvegna hefði mátt tala um umbrotatíma.
Agnes Bragadóttir blaðamaður er hörkutól og skrif hennar um fjármálahneyksli hafa reynst vönduð og vel grunduð. Hún á hrós skilið fyrir einurð og hefur greinilega gott tengslanet, – hóp fólks sem sýnir henni verðskuldað traust. Það var skemmtilega lýsandi í Silfri Egils (05.04), þegar hún talaði um „ elsku krakkana í Fjármálaeftirlitinu“. Svo hafði ég lúmskt gaman af því þegar hún notaði orðið „frumafrit“. Ég er ekki að gefa í skyn að Agnes hafi ekki verið með traust gögn í höndum, en þetta minnti mig svolítið á sölumanninn í Singapore ,sem vildi selja mér Rolex úr. „It´s a real fake Rolex“, sagði hann. Þetta var sem sé ekta óekta Rolex. Mér fannst þetta svo snjallt hjá honum að ég keypti úrhjallinn sem ég held að hafi kostað 10 dali, – og hætti að ganga áður en dagur var kvöldi kominn.
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Sverrir Einarsson skrifar:
07/04/2009 at 14:30 (UTC 0)
S.H. : Er þá málvillan sem margir nota „Spáðu í því“ að þínu mati rétt mál, bara af því að það eru svo margir sem nota hana og hugsa ekkert um hvort þetta er rétt mál notkun eða ekki.
Íslenskan verður fljótlega afskræmd ef Íslensku kennarar gefast upp á að kenna hana, bara af því það eru svo margir sem tala vitlaust, og seinna þá verður þetta „rétt málfar“ af því að svo margir tala svona……..þetta finnst mér bara endemis bull.
Annars er ég bara hress.
Drullusokki skrifar:
06/04/2009 at 15:35 (UTC 0)
Það er ekkert til sem heitir rétt mál.
S.H. skrifar:
06/04/2009 at 13:50 (UTC 0)
Sæll,
það er gott að tala vandað mál. Tungumál er hins vegar tæki til tjáningar. Þess vegna er ekkert því til fyrirstöðu að menn búi til ný orð jafn óðum eða setji saman orð með óhefðbundnum hætti. Það er ekki orðið sem skiptir máli heldur meiningin.
Íslenska er þannig tungumál að gera verður greinarmun á rituðu og töluðu máli, ritmál getur oft hljómað furðulega eða illa sem talmál og öfugt. Það er líka endalaust hægt að tína til málvillur (strangt til tekið) eða eins og þú oft skrifar um, hefði verið hægt að orða betur. Þannig segir maður stundum setningar sem gætu alveg verið betur sagðar ef maður endurskoðar það. Það skiptir líka máli við hvaða aðstæður hlutirnir eru sagðir, eru þeir sagðir í flýti? Er þetta ræða? Er þetta viðtal? Er pressa á viðkomandi? Og svo mætti lengi telja.
Mér finnst fínt að gagnrýna augljósar vitleysur og beinlínis kolrangt málfar fjölmiðla en að hlusta og líta eftir orðum og setningum alla daga sem betur hefðu mátt fara finnst mér nú furðulega langt gengið, jaðrar við áráttuhegðun.
Ég var því að velta fyrir mér hvort þú engist ekki um af kvölum alla daga og missir svefn því þú kemst ekki gegnum einn einasta dag án þess að heyra setningu sem hefði mátt vera betur orðuð eða heyra algenga málvillu? Sumar eru reyndar svo útbreiddar að spyrja má hvort það séu nokkuð málvillur lengur, margir ísl.fræðingar eru á þvi að við ákveðna útbreiðslu villu, beri að líta á hana sem gilt málfar.
Takk fyrir.
Birgir Örn Birgisson skrifar:
06/04/2009 at 09:18 (UTC 0)
Já ég tók eftir þessu líka ,,frumafrit“.
Skondið 🙂