«

»

Molar um málfar XLIV

 Ríkisútvarpið hefur skyldum að gegna umfram aðra  fjölmiðla. Það er  lögum  samkvæmt og  að auki leggur  skylduáskriftin, nefskatturinn ,  þessari mætu menningarstofnun   alveg sérstakar skyldur á herðar.

Það er misbrestur á því hjá RÚV , að fólk sé sett til þeirra verka, sem það best kann. Góðir tónlistarmenn eru til dæmis ekki sjálfkrafa allra manna heppilegastir til að kynna tónlist fyrir hlustendum þótt þeir flytji hana öðrum betur. Í morgun (07.06.) var flutt tónlist sem mér var mjög að skapi, en kynningarnar voru RÚV ekki samboðnar. Dæmi: „Hann syngur nú Sprettur“. Fyrsti ráðherra Íslands hét ekki Hannes „Hafsteinn“. Svo var sagt: „..eigum við ekki að heyra eitt lag með sjálfum faðir Chicagoblúsins“. Ég hef ekkert á móti orðinu „blús“, alls ekkert en hitt var öllu verra. Þá fellur mér heldur ekki, – mín sérviska kannski , að nafn hins ágæta söngvara Kristins Hallssonar sé borið fram „Haalson“.

Í fasteignaauglýsingu í Fréttablaðinu (06.04) stóð:„ Heimili fasteignasala er með til sölu fimm herbergja…“ Fljótt á litið sýndist mér að þarna væri verið að selja heimili fasteignasala. Svo var auðvitað ekki, en líklega hefði verið betra að segja: „ Fasteignasalan Heimili er með fimm herbergja íbúð til sölu …“

Misjafnt er hve þingmenn gera sér far um að vanda mál sitt í ræðustóli Alþingis. Fór að hugsa um þetta ,er ég heyrði þingmann tala um „ að heyra hennar sjónarmið inn í þetta mál“. Margir ræðuskörungar hafa átt sæti á Alþingi í áranna rás. Gunnar Thoroddsen var einn þeirra. Aldrei heyrði maður misfellu í máli hans, þótt hann talaði blaðlaust. Sama hygg ég að hafi gilt um Bjarna Benediktsson og raunar ýmsa fleiri. Þeir töluðu ekki um að taka mál „almennilegum vettlingatökum“. Né heldur hefðu þeir sagt eins og Sjálfstæðisþingmaður sagði í morgun (07.04) , „ þá hafði mig hlakkað til…“.

Rétt eftir að ég kom á þing hafði ég í ræðustóli notað orðið skoðanaskipti um það að skipta um skoðun en ekki um það að skiptast á skoðunum eins og algengast er. Á leiðinni út úr þingsalnum í fundarlok , sagði Gunnar Thoroddsen við mig:„ Það var gaman að heyra þetta orð skoðanaskipti notað í sinni upphaflegu merkingu“. Þetta fannst mér mikið hrós. Svona er maður nú hégómlegur.

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Egill skrifar:

    Langaði að þakka fyrir pistlana þína um málfar. Mikil þörf er á nú þegar jafnvel Mogginn (MBL) er að verða illlesanlegur sökum stafsetninga og málfarsvillna.

    Þakkir

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>