«

»

Molar um málfar XLV

   Venjulegt er að  talað um brim þegar bárur brotna á  ströndum ,  stórbrim þegar  hvasst er og öldurnar háar. Það var þessvegna  svolítið   skrítið á   lesa  í Vefmogga  (07.04) að brim hefði valdið stórtjóni á  grásleppunetum á  30 faðma dýpi. Samkvæmt minni máltilfinningu er  brim upp  við land  ekki úti á sjó.  Hvað  segja menn um það ?

Lesa mátti á Vefdv (07.04): „ …. fréttastjóri Al-Jazeera hefur neitað fyrir það að maðurinn hafi starfað fyrir stöðina.“ Það er ekki rétt til orða tekið að tala um að „neita fyrir eitthvað“. Það er hægt að neita einhverju, þvertaka fyrir eitthvað, hafna einhverju, en ekki „neita fyrir eitthvað“.

Einnig af Vefdv (07.04) „ … þar sem hann sagðist blöskra umræðan í þjóðfélaginu…..“. Þarna hefði til dæmis mátt segja : ..þar sem hann sagði að sér blöskraði umræðan í þjóðfélaginu…“. Mér blöskrar til dæmis framkoma þingmanna þessa dagana.

„Hverjir eru það sem, sem eru að bera ábyrgð á …….“ . Úr þingræðu 07.04. Sóttin hefur borist í Alþinghúsið.

Vegna athugasemdar við þessa pistla hér á dögunum er rétt að lýsa þeirri skoðun skrifara að lygi verður ekki sannleikur, þótt hún sé endurtekin þúsund sinnum. Þannig verður slæmt mál ekki gott mál þótt það sé endurtekið þúsund sinnum. Forseti Alþingis sagði af forsetastóli (07.04): „Háttvirtur þingmaður hefur kveðið sér hljóðs“. Þótt þetta sé sagt þúsund sinnum verður það ekki góð og gild íslenska. Jafnvel reiðareksmenn um þróun málsins ættu að geta viðurkennt það.

9 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Jón Arnkelsson skrifar:

    Orðið brim getur þýtt „þegar alda brotnar á grynningum eða við strönd“.

    Ef aldan er orðin það mikil að hún brotnar á 30 faðma dýpi, þá er það brim samkvæmt mínum málskilningi.

  2. Eiður skrifar:

    Sammála,Gústaf. Hafrót hefði verið besta orðið.

  3. Gústaf Níelsson skrifar:

    Þetta er slungið með brimið, því bæði brimar úti á sjó og á ströndum. Mér sýnist að orðið hafrót hefði verið brúklegast í þessu samhengi.

  4. Eiður skrifar:

    Þakka þér  ,Haukur. Þarna átti  auðvitað að standa: ,,Venjulegt er að talað um brim“. Það er  svona  þegar hugurinn fer fram úr fingrunumþ

  5. Haukur Nikulásson skrifar:

    “ Venjulegt er að  talað um brim“

    Tillögur til úrbóta:

     “ Venjulega er að  talað um brim“

    “ Venjulegt er að  talað um brim“

    Fyrirgefðu mér Eiður, stóðst ekki mátið.

  6. Lana Kolbrún Eddudóttir skrifar:

    Hvað segir þú um málfarið í þessari setningu, úr frétt á ruv.is í kvöld kl. 20:40 ?

    „Kaupendum að íbúðum við Lindargötuturninn í Skuggahverfinu hefur verið boðið íbúðir í nálægum byggingum. ”

  7. Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson) skrifar:

    Eru grásleppunet hugsanlega lögð stutt frá strönd á 30 faðma dýpi?

  8. Sverrir Einarsson skrifar:

    Hefur þingmaðurinn þá hvatt sér hljóðs?

  9. Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson) skrifar:

    Talað er um brim við strönd. Ég er sammála þér í öllum greinum fram að þessu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>