Í hádegisfréttum RÚV á föstudaginn langa var sagt því að flytja ætti stytta útgáfu Jóhannesarpassíu Bachs í einni af kirkjum Reykjavíkur. Í fréttinni var sagt, að þetta væri í fyrsta skipti,sem þessi stytta útgáfa væri flutt í heild sinni. Með öðrum orðum, í fyrsta skipti sem stytta útgáfan væri flutt óstytt. Eitthvað fannst mér bogið við þetta orðalag.
Eftir guðsþjónustu í Skálholtsdómkirkju að kveldi skírdags var Getsemanestund þar sem presturinn las kafla Píslarsögunnar um bæn Jesú í Getsemane. Ekkki heyrði ég betur en presturinn læsi: ,,áður en haninn galar tvisvar muntu afneita mér þrisvar“. Þetta þótti mér gott. Því í nýju Biblíuþýðingunni stendur hani. Þarflaus breyting og ekki til bóta. Frekar en svo margt annað sem breytt hefur verið í nýrri þýðingu. Vinur minn Jón G. Friðjónsson prófessor vakti athygli mína á þessu fyrir nokkru. Því hlustaði ég grannt í gærkveldi.
Nokkur málblóm úr sjónvarpsþætti RÚV (08.04.) með frambjóðendum úr ,,Kraganum“:
,, Það eru allar blikur á lofti um það“. Það sem frambjóðandinn líklega átti við var að allt benti til að … Þegar talað er um að blikur séu á lofti er átt við að sjá megi teikn um að eitthvað miður gott sé í aðsigi.
,,Við höfum komið fram með kerfislægar tillögur“, sagði þingmaður,sem venjulega er skýrmæltur og skorinorður. Ég spyr, kannski eins og kjáni, hvað í ósköpunum eru ,,kerfislægar tillögur“? Þetta er auðvitað bara kerfiskarla bull, sem hefur enga merkingu.
Í umræðum á Alþingi ( 07.04.) var sagt : ,,… á rætur sínar að rekja í því…“ Rétt er að segja, að eitthvað eigi rætur (sínar) að rekja til einhvers.
Í fréttatíima Stöðvar 2 (07.04.) var sagt: ,,… sem olli því að gjaldeyrir er ekki að skila sér til landsins“.Sem olli því að gjaldeyrir skilar sér ekki til landsins.
Á blaðamannafundi Seðlabankans um stýrivaxtalækkun sagði talsmaður bankans: ,,..hvaða áhrif þær ákvarðanir eru að hafa…“. Eða … hvaða áhrif þær ákvarðanir hafa. Nútíðarnafnháttarsýkin er komin í Seðlabankann.
Lana Kolbrún Eddudóttir spyr:
Hvað segir þú um málfarið í þessari setningu, úr frétt á ruv.is í kvöld kl.
20:40 ?
„Kaupendum að íbúðum við Lindargötuturninn í Skuggahverfinu hefur verið
boðið íbúðir í nálægum byggingum. ”
Þetta er enn eitt dæmið um, að sá sem skrifar er búinn að gleyma hvaðan hann fór, þegar komið er fram í miðja setningu. Það er ekki heil brú í þessari setningu.
Við Kára Emil vil ég segja þetta:
Kærar þakkir ,Kári Emil, fyrir ágætar og réttmætar athugasemdir við greinarmerkjasetningu. Þetta er hálfgerður subbuskapur hjá mér.Það skal fúslega viðurkennt. Þess sér stað, að ég kann ekki fingasetningu. Skrifa með tveimur fingrum. Er enda stúdent úr MR, þar sem við, illu heilli, lærðum ekki vélritun og skemmtum okkur við að kalla Verzlunarskólann Vélritunarskólann ! Betur hefði ég lært vélritun, segi ég núna. Lengi notaði ég sem afsökun, að tvennt ætti maður að forðast í lífinu, – að læra vélritun – vegna þess að þá yrði maður alltaf látinn vélrita fyrir aðra. Hitt væri að fara aldrei inn í eldhús á frönskum veitingastað, vegna þess, að þá mundi maður missa matarlyst um langa hríð.
En hvað er til ráða með gæsalappirnar, því þetta skrifa ég á fartölvu sem ekki hefur talnalyklaborð?
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Brynjólfur Ólason skrifar:
13/04/2009 at 14:35 (UTC 0)
Ef þú skrifar á nýja WORD-inn (útg. 2007) ætti að duga að hafa íslensku fyrir tungumál textans sem þú slærð inn, en þá má nota SHIFT-2 fyrir gæsalappir, bæði í byrjun setningar og í lok hennar. Ef tungumálið er íslenska birtast gæsalappir að íslenskum hætti.
Ómar Ragnarsson skrifar:
11/04/2009 at 12:55 (UTC 0)
Í gær dundu við fréttir af því hvernig furðulegust fyrirbæri geta opnað eitthvað sem aldrei er sagt frá hvað er. Fjöll og svæði um allt land opnuðu eitthvað, en ekki sagt frá því hvernig þessi fjöll eða landslagsfyrirbæri gátu opnað nokkurn skapaðan hlut.
Í hádegisfréttum útvarpsins í dag brá síðan svo við að sagt var að ákveðin svæði yrðu opnuð hér og þar. Var þar með leyst úr gátu gærdagsins, hvað þetta snerti.
Eiður skrifar:
11/04/2009 at 10:39 (UTC 0)
Öldungis rétt, Gunnar. Þakka ábendinguna.
Gunnar Jónsson skrifar:
11/04/2009 at 10:16 (UTC 0)
Takk fyrir skemmtilega pistla. Í ljósi efnisins er þó rétt að vera leiðinlegur og benda á tvöfalda neitun varðandi franska eldhúsið „…forðast í lífinu … að fara aldrei inn í…“
Þá er rétt að fram komi að athugasemdakassinn meinar mér að skrifa íslenskar gæsalappir, sem tölvan mín annars ræður við.