Æviminningar alþýðumanna frá fyrri tíð eru nær undantekningarlaust góður lestur . Margir nutu þeir lítillar sem engrar skólagöngu, en skrifa samt frábæran texta. Í dymbilviku hef ég verið að lesa ,,Kaldur á köflum“, endurminningar Eyjólfs frá Dröngum. Sú bók kom fyrst út haustið 1953, en seldist fljótt upp og var gefin út að nýju 1965. Endurminningarnar skráði Vilhjálmur S. Vilhjálmsson rithöfundur og blaðamaður. Honum náði ég aðeins að kynnast, er ég starfaði á Alþýðublaðinu forðum tíð. VSV segir í formála fyrir annarri útgáfu bókarinnar:,,Eyjólfur Stefánsson var frásagnarglaður og einn besti sögumaður,sem ég hef rætt við. Hann vissi hvað var frásagnarvert og svo var saga hans skipuleg, að ekki þurfti að bæta inn í eða auka við frásagnir hans og varð því bókin til þannig að ég gat frá fyrstu samræðu okkar til hinnar síðustu samið hana eftir hendinni“. Eyjólfur fæddist árið 1868 en lést árið 1959.
Bókin er bráðskemmtileg aflestrar, afbragðs aldarfarslýsing og merkileg heimild um eyjabúskap á Breiðafirði , harða sjósóknara, hetjur og lífsbaráttu íslenskrar alþýðu á ofanverðri nítjándu öld. Líf þessa fólks hefur verið á stundum ótrúlega erfitt, en frásögnin öll hrífur mann með sér. Fátt er betri íslenskukennari en vel skrifaður texti af þessu tagi.
Í fyrrihluta þessarar bókar lærði ég þrjú orð,mér áður ókunn. Þvernorður í merkingunni vestur. Að bátur sé skaðvaltur, þegar hann er svo valtur að hætta stafar af. Þriðja orðið er saurmýri, en merkingu þess hef ég ekki fundið ennþá.
Margt kemur þarna fram um mannleg örlög og mannlega náttúru. Margar ungar stúlkur áttu börn í lausaleik, ,,því erfitt var að verjast bændunum“,segir Eyjólfur. Eiginkonur bændanna sem þetta henti brugðust oft stórmannlega við og ólu þessi börn upp sem sín eigin og sóttu þau jafnvel í fjarlægar sveitir til að tryggja velferð þeirra..
Skemmtileg fannst mér saga Eyjólfs um húsfreyjuna,sem sagði við bónda sinn:,, Það er svo sem í lagi , Jón minn, að þú haldir framhjá mér með vinnukonunum, en láttu mig bara ekki komast því !“
7 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
14/04/2009 at 09:06 (UTC 0)
Hér að ofan á auðvitað að standa , — hallast því að því að skýring…..
Eiður skrifar:
14/04/2009 at 09:03 (UTC 0)
Ekki finn ég setninguna í fljótu bragði, Magnús. Enda fannst mér ekki að af henni mætti ráða um merkingu orðsins. Hallast að því að skýring Sigurðar Hreiðars hér að ofan gæti verið rétt. Á einum stað talar Eyjólfur um ,,fúinn flóa“, gæti verið það sama.
Magnús skrifar:
14/04/2009 at 08:49 (UTC 0)
Saurmýri. Svíns- eða svínamýri? Það væri gaman að fá setninguna sem orðið kemur fyrir í.
Eiður skrifar:
12/04/2009 at 21:24 (UTC 0)
Já, satt er það Sigurður Hreiðar, margar ævisögur eru mikill og góður skemmtilestur. T.d. saga Eldeyjar Hjalta, saga Hákarla Jörundar, og sjálfsævisaga Theódórs Friðrikssonar Í verum. Að ógleymdum séra Árna. Þú minnir mig á að ég þarf að fara að endurlesa Eldklerkinn, en það er víst bara í annað sinn!
Það er líklega rétt Gústaf, að hjá börnum og unglingum hefur bókin orðið undir í samkeppni við sjónvarp,tölvur og tölvuleiki, – því miður. Svo held ég að fréttamenn lesi minna en áður. Mér finnst að skylda ætti þá sem skrifa fréttir til að lesa eina Íslendingasögu árlega. Þá mundi vonandi eitthvað síast inn.
Gústaf Níelsson skrifar:
12/04/2009 at 20:53 (UTC 0)
Ekki hef ég lesið endurminningar Eyjólfs frá Dröngum, en rétt er að fjölmargir alþýðumenn af hans kynslóð og síðar voru snilldarpennar. Tími skrifandi alþýðumanna, svo eftir sé takandi, er brátt liðinn, og er það miður. Þetta stafar sjálfsagt af því að fólk er meira og minna hætt að lesa góðskáldin. Og börnin lesa vart annað en misvel þýddar alþjóðlegar barnabókmenntir, ef þær eru ekki alveg búnar að tapa samkeppninni við misjafnt sjónvarpsefnið, að gæðunum.
Sigurður Hreiðar skrifar:
12/04/2009 at 16:34 (UTC 0)
Sæll Eiður,
þetta geri ég mér líka til skemmtunar, er t.d. að lesa Ævisögu Jóns Steingrímssonar í líklega 50. skipti og alltaf finn ég eitthvað nýtt eða sem ég hafði gleymt.
Saurmýri — ekki þekki ég það orð en dettur í hug að það sé líkt og seyra, votlendi þar sem vatnið á svo sem enga framrás og allt er í kyrrstöðu.
Býður nokkur betur?
Birgir Örn Birgisson skrifar:
11/04/2009 at 23:35 (UTC 0)