Mikið er á stundum metnaðarleysið í Kastljósi Ríkissjónvarpsins. Kallaður var á skjáinn í kvöld (13.08.2010) nýráðinn aðstoðarmaður formaður Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur svo sem enga stöðu í samfélaginu, nema sem flokkshestur í Valhöll. Hafði enda lítið að segja, nema þá helst, hérna, hérna í næstum hverri setningu. Bjóðið okkur eitthvað betra á föstudagskvöldum en menn sem tala um Magmadílinn og segja að eitthvað meiki ekki sens. Þið gerið kröfur til okkar um að borga nefskatt. Við gerum líka kröfur til ykkar.
Úr fréttum Stöðvar tvö (11.08.2010): ….enn vantar styrktarfélaginu níu milljónir króna… Hvað á að gera við þágufallssjúka fréttamenn? Leggja þá inn á sjúkrahús þar sem þeim er kennd íslenska? Rúmin þar yrðu fljót að fyllast.
Velunnari benti Molaskrifara á frétt í dv.is, sem hefði verið fádæma illa skrifuð. Hann sendi tengil við fréttina, sem þá var búið að lagfæra talsvert. Góð er hún ekki: http://www.dv.is/frettir/2010/8/12/octopus-akureyri-paul-allen-og-felagar-kafa/
Talsmenn þjóðkirkjunnar eru þögulir sem gröfin um kynferðisbrot innan kirkjunnar. Talsmaður ráðs eða nefndar ,sem fjallar um þau efni neitar að gefa fjölmiðlum upplýsingar og biskupinn kemur í viðtal og segist ekkert vita. Ætlar íslenska þjóðkirkjan að falla í sömu gryfju og kaþólska kirkjan ?
Talsmaður Stígamóta talaði í fréttum Stöðvar tvö (12.08.2010) um að hylma yfir um. Hér hefði nægt að segja hylma yfir, – leyna. Í sama fréttatíma sagði fréttamaður …. fræðsluherferð líkt og þá sem samtök hennar hafi í undirbúningi, sé því mikilvæg. Klúður.
Úr visir.is (12.08.2010): Að auki reyndist bíllinn vera ótryggður og þá voru ákvæði um skoðun heldur ekki fyrir hendi. Hvað eru ákvæði um skoðun? Var bíllinn ekki bara óskoðaður , eins og sagt er?
Það er eins gott að játa ósigur, þegar ljóst er að orrusta hefur tapast. Molaskrifari lærði það á sínum tíma að verð væri eintöluorð. Gott verð ,ekki góð verð. Notkun fleirtölunnar er orðin svo útbreidd að hún heyrist nú orðið oftar en eintalan. Í sexfréttum Ríkisútvarpsins (13.08.2010) var viðtal við kvótakóng úr Vestmannaeyjum ,sem aðeins kunni að nota orðið verð í fleirtölu. Þannig er nú það. Hann var mjög ánægður með verðin sem hann var að fá fyrir ferskan fisk sem fluttur var til útlanda, — eða þannig !
Skildu eftir svar