«

»

Molar um málfar og miðla 379

Svona mætti ná  fram umtalsverðum sparnaði í Rekstri Ríkisútvarpsins OHF,  ætti að vera HFO –  Hlutafélagið okkar.

1.     Leggja niður Rás tvö. Bylgjan og fleiri stöðvar sinna þeim, sem vilja afþreyingarútvarp. 

2. Hætta við tíufréttir í sjónvarpi. Þær  eru hvort sem er  oftast 95% óbreytt efni úr sjöfréttunum.   

3. Minnka framlög til íþróttadeildar um helming.  Þannig  mætti spara mikið fé, en samt  sýna íþróttum sóma. Þeir sem  vilja meiri íþróttir, geta keypt áskrift að íþróttarásum Stöðvar tvö. 

 4.Breyta starfsemi Ríkissjónvarpsins þannig að  meira verði sýnt  af íslensku efni,  fréttatengdir umræðuþættir ,tónlistarþættir, íslenskar kvikmyndir  og endursýnt efni. Sjónvarpið hefur senn starfað í 44 ár. Í fórum þess  er mikið af allskonar  efni sem þolir endursýningu. Þá ætti einnig að  horfa til þess hvernig norrænu stöðvarnar  raða dagskrá saman. Sýna vandaðar heimildarmyndir og  sígildar kvikmyndir. Vanda langtum betur til vals á erlendu efni en nú tíðast. Styðja við bakið á gerð íslenskra kvikmynda og heimildarmynd. Látið Stöð tvö og Skjá einn um  froðuna. 

  Við þurfum menningarlegt sjónvarp, sem sinnir lögboðnu hlutverki sínu. Slíkt  sjónvarp  höfum við Íslendingar ekki um þessar mundir. 

   Fínn Tungutakspistill  Þórðar  Helgasonar í Lesbók Mogga  um helgina. Pistillinn heitir Fjármálið og inntak hans er að hinn fallni aðall  fjármálalífsins þurfi nú að læra  móðurmálið !  

 Úr dv. is (12.08.2010): Lögreglumaður í Minnesotaí Bandaríkjunum varð heldur betur hissa þegar hann mætti á slysstað þar sem bíl hafði verið ekið á skilti. Þannig vildi til að annar ökumannana var drukkin tólf ára stelpa. Annar ökumannana (ökumannanna) ? Þetta hefur greinilega verið bíll gerður  fyrir  tvo ökumenn, eða hvað ?

Ágætu blaðamenn  mbl.is: Ekki lítilsvirða lesendur með því  að tala  við þá á leikskólamáli: Þá var einnig um miðnættið tilkynnt um ökumann við Bræðraborgarstíg, sem var að leggja bifreið í stæði og klessti utan í annan bíl á stæðinu.  (13.08.2010)

Netlaus í tvo sólarhringa fór  Molaskrifari að skoða ambögur,sem hann hafði hripað hjá sér fyrir þremur árum:Mbl.is  05.04.2007

Þá segist hann telja ákveðna hættu á því að atkvæði kjósenda minnstu flokkanna muni detta niður dauð og þannig styrkja stöðu stjórnarflokkanna þvert á fyrirætlanir þessara flokka.Ummæli ungs stjórnmálamanns.  Fyrr  má  nú vera, að  atkvæði  detti  niður  dauð eða  verði  bráðkvödd.  Vissulega er  talað um að  atkvæði  falli  dauð, en   sú  orðnotkun að þau  detti niður  dauð er ekki  lofsverð. 

Blogg. Mbl Afkastamikill bloggari talaði um stóra þjóðsöngvarmálið   í tengslum við  skrumskælingu Spaugstofumanna á þjóðsöngnum. Sami talaði líka um tölvu rímixið  á þjóðsöngnum??????  Líklega  verið að tala um tölvugerða hljóðblöndun  þjóðsöngsins.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>