«

»

Molar um málfar og miðla 382

„Ekki er kyn þótt keraldið leki, því botninn er suður í Borgarfirði“, áttu Bakkabræður að hafa sagt á sínum tíma. Fréttamaður Stöðvar tvö  sagði (17.08.2010) í fréttum: … eins og  fram hefur  komið í fréttum lak fyrirtækið seyruvökva úr rotþrónum út á vatnsverndarsvæðið á Þingvöllum. Fyrirtækið lak ekki. Starfsmenn fyrirtækisins losuðu  seyru eða seyruvökva úr  rotþróm á  vatnsverndarsvæði,  sem er  auðvitað glæpsamlegt athæfi. En heilbrigðisyfirvöld virðast ætla að taka á þessu með silkihönskum. 

  Í fréttum Ríkissjónvarpsins (17.08.2010) sagði fréttamaður: … þá hafa  fjöldi ábendinga borist frá almenningi. Hér  hefði fréttamaður betur  sagt, — þá hefur fjöldi ábendinga borist frá almenningi. Eða: …þá hafa  fjölmargar ábendingar borist frá almenningi.

  Þeir sem lesa eða  segja fréttir  verða að vera skýrmæltir.  Ríkissjónvarpið sagði  frá  kóramóti (17.08.2010)  sem á vef   Ríkisútvarpsins var reyndar  kallað , 1800 manna kórmót (svo!). Ógerlegt var að  heyra hvort sá  sem flutti okkur fréttina  sagði: … hátíðin lýkur, eða hátíðinni lýkur. Þetta var hálfgert tuldur

Eftirfarandi orðalag af pressan.is  (17.08.2010) er út í hött:… hann er grunaður um aðild við verknaðinn.  Réttara væri: .., hann er grunaður um aðild að verknaðinum.   Talað er um að eiga  aðild að einhverju, ekki aðild  við eitthvað.  

Makalaus er vitleysan sem  vellur upp úr fyrirferðarmestu þáttastjórnendum Útvarps Sögu, útvarpsstjóranum Arnþrúði og Pétri  Gunnlaugssyni. Dag eftir  dag tala skötuhjúin um að hér  þurfi að koma á  utanþingsstjórn og að forseti Íslands  verði að  skerast í leikinn !  Það hefur áður  verið nefnt hér  að svona bull ber vott um hyldjúpa vanþekkingu  á lýðræði, þingræði og stjórnkerfi landsins.  Það versta  við þetta er , að   til er  auðtrúa fólk,sem  trúir þessari vitleysu. Þetta er því ekki aðeins slæmt. Þetta er hættulegt.  Það er nefnilega gömul saga og ný, að sé lygi endurtekin nægilega oft,  fara margir að halda að hún sé heilagur sannleikur.

Þau Arnþrúður og Pétur  tala ævinlega  eins og á Bessastöðum sitji einvaldur,  sem  geti þegar honum svo sýnist vikið löglegri stjórn landsins frá og skipað stjórn að eigin geðþótta. Þau segja að það  væri gert í nafni lýðræðis, ef Ólafur Ragnar  tæki sig  til og skipaði utanþingsstjórn að höfðu ítarlegu samráði við sjálfan sig !

   Ólafur Ragnar hefur að vísu  haft uppi ýmsa einstæða og sérstæða  tilburði í embættistíð  sinni á Bessastöðum. En þetta vald hefur hann ekki . Guði sé lof fyrir það.

 Molaskrifari man ekki betur en Halldór Laxness hafi einhvern tíma sagt, að heimsins mesta lýgi  væri á prenti. En það var fyrir  daga Útvarps Sögu.

 Forgangsröðun stjórnenda Ríkisútvarpsins í Efstaleiti kemur  venjulegu fólki oft undarlega fyrir sjónir. Nú er  þátturinn Orð skulu standa  skorinn við trog, en fastráðnum fótboltafræðingum,sem Ríkisútvarpið svo kallar fjölgað á íþróttadeildinni.  Þátturinn Orð skulu standa  fjallar um  íslenska  tungu. Móðurmálið á ekki alltaf upp á pallborðið í upphæðum Efstaleitisins.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>