«

»

Molar um málfar og miðla 383

Ungum blaðamanni var einu sinni ráðlagt að lesa á hverju ári  einhverja af Íslendingasögunum, ef hann vildi  taka framförum í  stíl og málnotkun. Í nokkur ár tókst að standa við þetta. Þetta  hollráð má  að skaðlausu endurtaka  og beina  til  ungs fólks sem nú fæst við skriftir í fjölmiðlum. Vaxi ungum fjölmiðlungum þetta í augum,  þá þurfa þetta ekki endilega að vera gullaldarbókmenntirnar heldur bara góðir  textar nútímahöfunda.

  Þá dettur Molaskrifara í hug að benda á  Góða dátann Svejk, eftir Jaroslav  Hasek (1883-1923)  sem hiklaust er  ein af perlum heimsbókmentanna. Þýðing Karls  Ísfelds  er hrein snilld (segi helst ekki lengur tær snilld eftir  að bankamaðurinn, höfundur Icesave, eyðilagði það orðtak). Þetta er dásamlegur texti. Konfekt (eins og góðvinur Molaskrifara segir um fína texta) orðgnóttin sjaldgæf og valdið á  tungunni traust. Ef ungu fólki vex í  augum að lesa  bókina þá er til  á 12 hljómdiskum upplestur  Gísla Halldórssonar leikara á þýðingu Karls, samtals  sextán klukkustundir. Hljóðbókaklúbburinn gaf út 1995 og á heiður skilinn  fyrir það. Lestur  Gísla  er listaverk. Magnað listaverk. Það er dauður maður,  sem Gíslí  hrífur ekki með sér  á flug og hjá Molaskrifara er skammt milli skellihlátra undir  þeirri stórkostlegu skemmtan sem það er að upplifa   Góða dátann Svejk  með Gísla Halldórssyni. 

Það er eins gott að hafa skriðstillinn við stjórnvölinn, þegar hlustað er á  Gísla lesa  Svejk í bíl  á leið  austur í sveitir.

Kjarnyrtur txti Karls Ísfelds  er  öndvegiskennari, – þeim sem vilja læra.

 Úr mbl.is (18.08.2010): Eldurinn logaði glatt í spýtuhrúgu á 2. hæð hússins þegar slökkvilið kom að. Hér hefði átt að tala um spýtnahrúgu  ekki spýtuhrúgu.

 Úr mbl.is (18.08.2010): Slökkviliðs- og sjúkrabíll eru nú á leið upp í Heiðmörk, en tilkynning barst um að heyrst hefði í mögulegu bílslysi. Alltaf heyrir maður eitthvað nýtt! Þetta orðalag hefur Molaskrifari aldrei heyrt áður.

 Blaðamaður á visir.is  skrifar (18.06.2010):Olía lak úr bílnum sem velti og var óttast að hún læki í vatnið. Bíllinn sem velti! Þetta er eiginlega  verra en smábarnamál.   Þið þurfið að bæta ykkur, Vísismenn.  Eftirfarandi er úr mbl.is  sama dag: http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/08/18/olvun_i_heidmork/

  Úr dv.is (19.08.2010):Þeim langar að ferðast um heiminn og meðal staða sem þeim langar að fara til eru Aqaba í Jórdaníu, Kúveit, Búdapest, Marseille, Silkeborg og Baden-Baden svo einhverjir séu nefndir. Þeim langar….  Það var og.  Tuskaðu þágufallssjúklingana til, Reynir ritstjóri. Þeim langar er tvítekið  í þessari stuttu setningu !

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>