«

»

Molar um málfar og miðla 388

 Það var prýðilega að orði komist á mbl.is (24.08.2010) þegar sagt var , að fellibylurinn Danielle sæki í sig veðrið.

  Kvenkynsnafnorðið  stígandiþýðir  að eitthvað magnast  eða hækkar eftir því sem á líður, – jöfn áhersluaukning,segir íslensk orðabók. Þetta orð  vefst  á stundum fyrir   fjölmiðlamönnum.  Í fréttum Stöðvar tvö (24.08.2010) var sagt frá  fjölgun úrsagna úr  þjóðkirkjunni.  Fréttamaður sagði:  Hefur orðið vart við stíganda.Þetta er ekki rétt. Stígandi beygist:  nf. stígandi, þf. stígandi, þgf. stígandi,ef.  stígandi. Fréttamaður hefði getað  sagt: Úrsögnum úr þjóðkirkjunni hefur  fjölgað undanfarna  daga.Orðið stíogandi  fer ekki vel í þessu samhengi að mati Molaskrifara.  E.t.v hefði mátt segja: Stígandi hefur  verið í úrsögnum úr þjóðkirkjunni undanfarna daga.

 Enn skal hér vikið stuttlega að Útvarpi Sögu. Aðfaranótt þriðjudags (23.08.2010) heyrði Molaskrifari   síðari hluta þáttar, sem líklega hafði fyrst verið  fluttur að morgni föstudagsins, eða laugardagsins næsta á undan. Ekki var þess getið í þáttarlok hverjir  þar hefðu komið fram. Ekki  heyrði Molaskrifari betur  en að það versta  úr Hrafnaþingi ÍNN hefði verið  dregið að hljóðnema  Útvarps  Sögu. Molaskrifari giskar á, að þarna  hafi verið á ferðinni þáttur  verðbréfamiðlarans  og  fjármálasnillingsins alkunna, Guðmundar Franklíns Jónssonar. Það er þó  reyndar aðeins ágiskun. Bandaríska  Fox sjónvarpsstöðin er  eins og biblíulestur í sunnudagskóla miðað við það sem þarna var á borð  borið fyrir  hlustendur,sem áttu sér einskis ills von.

Þarna var talað berum orðum um að reka ætti alþingismenn út og skipa utanþingsstjórn eða „neyðarstjórn“ eins og það var kallað. Allt átti þetta að gerast í nafni lýðræðis. Það átti sem sé að koma á lýðræði með einræði ! Halda stjórnendur þessa fjölmiðils, að allir hlustendur séu fífl ? Víst er að suma má sæma þeirri nafnbót, en ekki alla eins og þarna virtist lagt til grundvallar.

   Það er hættulegt, þegar sami ósannindavaðallinn er endurtekinn á hverjum degi og  oft á dag. Þá fara auðtrúa sálir  að trúa því að sannleikur sé á ferð. Stjórnendur Útvarps Sögu eru hér að leika ljótan leik, – ekki bara ljótan heldur og  óheiðarlegan. Einræði hefur áður verið komið á nafni  lýðræðis. Sagan geymir ófagrar  sögur af því. Er það það, sem þetta lið vill?

  Skylt er að geta þess að stundum er bitastætt efni í Útvarpi Sögu, ekki síst í morgunþáttum Markúsar. Hann ræddi í morgun (25.08.2010) við Jón Baldvin. Jón Baldvin  talar mannamál  og greining hans á  pólitísku stöðunni var skýr, — að vanda.

  Í pólitík er   stundum talað um vanheilagt bandalag. Það er íslenskun á enska  orðtækinu unholy alliance.   Vanheilagt bandalag hefur nú myndast milli Morgunblaðsins og Jóns Bjarnasonar landbúnaðarráðherra.

Af fréttavef Ríkisútvarpsins (23.08.2010):  Mynd merkt Þorvaldi Skúlasyni hefur tvívegis verið skilað til gallerísins vegna grunsemda um að það sé falsað.   Hér finnst  Molaskrifara að ætti að standa: Mynd merktri  Þorvaldi Skúlasyni….   Það er annars svolítið sérkennileg vinnuregla hjá Ríkisútvarpinu að  birta  ekki morgunfréttirnar, sem  fluttar eru klukkan  fimm og sex á morgnana á netinu. Hvað veldur? Varla getur það verið kostnaður.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>