Mikið var gott að heyra fréttamann Ríkisútvarpsins segja í sexfréttum (28.08.2010) að framkvæmdastjóri Orkubús Vestfjarða væri klumsa yfir verðhækkunum Orkuveitu Reykjavíkur. Vel að orði komist. Að verða klumsa er að verða orðlaus, alveg gáttaður, eiga ekki til orð, verða kjaftstopp.
Þegar hér er komið við sögu, sagði fréttamaður Stöðvar tvö (29.08.2010). Smáorðinu við er hér ofaukið.Þetta er ekki ný ambaga. Þegar hér er komið sögu , hefði fréttamaður átt að segja. Að koma við sögu er að eiga aðild að, eiga þátt í.
Sá sem samdi eftirfarandi fyrirsögn á visir.is hefur vandað sig fullmikið: Þrenn útköll vegna elda í matarpottum. Hér ætti að segja: Þrjú útköll vegna elds í matarpottum. Raunar er Molaskrifara til efs að eldur hafi verið í pottunum. Þeir hafa gleymst á eldavél og það sem í þeim var brunnið við og af orðið reykur. Því var slökkvilið kallað til.
Hvað segir málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins um slúðurpistlana ,sem morgunþáttur Rásar tvö hellir yfir hlustendur á hverjum föstudagsmorgni ? Þessir pistlar eru morandi í málvillum og efnið fyrir neðan það sem boðlegt getur kallast.
… áður en sýningunni líkur.(mbl.is 29.08.2010). Áður en sýningunni lýkur, hefði þetta átt að vera.
Vakin er athygli á einstaklega illa skrifaðri frétt í dv. is. Eins og áður hefur verið sagt í Molum , þá á fólk,sem svona skrifar ekki að ganga laust í námunda við nettengdar tölvur. Hér er fréttin: http://www.dv.is/frettir/2010/8/29/eldgos-skytur-skelki-i-bringu/ Fyrirsögnin er út úr kú. Eldgos skýtur skelki í bringu íbúa. Orðið skelkur er karlkynsorð og þýðir ótti, uggur eða hræðsla. Skelkur beygist: skelkur, skelk,skelk,skelks.
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (29.08.2010) var sagt frá lækkun skulda Orkuveitu Reykjavíkur, ….vegna styrkingu krónunnar, sagði fréttamaður. Þessi ambaga hefur heyrst áður. Fréttamaður hefði átt að segja: … vegna styrkingar krónunnar, — vegna einhvers..
Skildu eftir svar