Í bæklingnum Málstefna Ríkisútvarpsins (ódagsett útgáfa) eru taldar upp ýmsar orðabækur og handbækur,sem útvarps- og sjónvarpsmönnum geta gagnast í daglegum störfum. Þar er sleppt ágætri bók Marðar Árnasonar, Orðkrókum, Þáttum um íslensku -ambögur, orðfimi og dagleg álitamál. (Uglan, Íslenski kiljuklúbburinn 1991) Sú bók ætti reyndar að vera skyldulesning á fréttastofunni og öðrum ritstjórnum fjölmiðla..
Það er heldur leiðinlegt að vera sífellt að tuða um það sama, en sömu ambögurnar koma aftur og aftur fyrir augu okkar og eyru. Í fréttum Stöðvar tvö (31.08.2010) þrástagaðist ágætur og þrautreyndur fréttamaður á því að hann væri staddur við stjórnarráðið. Hann stóð við stjórnarráðshúsið. Á skjánum, þegar þessi frétt var flutt var hinsvegar réttilega sagt ,-stjórnarráðshúsið, hvíta húsið við Lækjartorg,sem einu sinni var tukthús. Stjórnarráðið er samheiti á öllum stjórnardeildum eða ráðuneytum.
Innanum ruslið, ósannindavaðalinn og óhróðurinn í Útvarpi Sögu leynist, þrátt fyrir allt einn og einn ágætur þáttur. Þannig heyrði Molaskrifari nýlega prýðilegt viðtal Önnu Kristine Magnúsdóttur við Sigríði Guðmarsdóttur sóknarprest í Guðríðarkirkju. Um það var ekkert nema gott að segja. En firnaslæmur var pistill Baldurs Ágústssonar fyrrum forsetaframbjóðanda ( endurfluttur 31.08.2010). Hann talaði gegn aðildarumsókn Íslands að ESB og lét í veðri vaka, að ESB væri að stofna her og ýjaði að því að stórráðið, sem hann svo kallaði kynni að ákveða að ESB setti upp eldflaugaskotpalla á Íslandi. Hann sagði líka ,að okkur kæmu vandamál umheimsins ekkert við. Við ættum bara að hugsa um okkar og okkur. Pistillinn í heild var sjálfhverf þjóðremburomsa, sem lauk með því að sungið var lagið Íslandi allt. Sannkallað heimsýnarsjónarmið. Engin heimssýn á ferðinni þar. Því fleiri talsmenn af þessu tagi,sem láta í sér heyra, því betra fyrir þá, sem vilja að aðildarumsókn að ESB nái fram að ganga.
Hinn orðvari og kurteisi útvarpsstjóri Útvarps Sögu, Arnþrúður Karlsdóttir talaði ekki fallega um fréttamenn Ríkisútvarps og sjónvarps hér á árum áður, einkum á upphafsárum sjónvarpsins. Sagði eitthvað í þá veru, að allir vissu hvernig menn þetta hefðu verið og kallaði okkur flokkshunda. Sjálf starfaði hin Framsóknarflokksbundna Arnþrúður fyrir Ríkisútvarpið á sínum tíma, var dagskrárgerðarmaður á Rás tvö, muni Molaskrifari rétt. Hún var líka kunn í stéttinni fyrir að vera í góðu vinfengi við forystu Framsóknarflokksins. Hún hefur þá væntanlega samkvæmt eigin orðavali og skilgreiningu verið flokks—- eitthvað , — ekki satt ?
Skildu eftir svar