«

»

Molar um málfar og miðla 395

 Kanasjónvarpið hefur hafið útsendingar að nýju. Ekki frá  Keflavík heldur úr  Efstaleitinu í Reykjavík og kallar sig Ríkissjónvarp. Á dagskrá að loknum fréttum fimmtudagskvöldið 2. september  voru:  Bræður og  systur, bandarísk þáttaröð ,þáttur númer 69 af 85. Þá tók við  Réttur er settur  bandarísk þáttaröð, tíundi þáttur af tíu. Svo kom Nýgræðingur , bandarísk þáttaröð, þáttur númer  160 af 169. Þá komu fréttir og veður. Svo  tók við enn ein bandarísk  þáttaröð, Sporlaust, annar þáttur af tuttugu og fjórum.  Klukkan rúmlega ellefu  var svo endursýndur    norskur þáttur.

  Lungann úr kvöldinu ,  eða   frá klukkan rétt upp úr átta  fram til klukkan  ellefu var hið andlega  fóður ,sem þjóðinni var boðið upp á úr   menningarmiðstöð þjóðarinnar í Efstaleitinu fjórar bandarískar þáttaraðir! Það er  engu líkara en  dagskrárstjórar Ríkissjónvarpsins  hafi   farið í búð í Ameríku og keypt stóran brúsa af sápulegi. Svo sitja þeir við sendana  og  blása þaðan  bandarískum  sápukúlum yfir þjóðina kvöld eftir kvöld eftir  kvöld.  Góður vinur Molaskrifara segir hinsvegar að  dagskrárstjórar  Ríkissjónvarpsins kaupi ameríska kílóvöru fyrir slikk  í gámum, óséða  og helli yfir okkur.  

 Þessi samsetning dagskrár í þjóðarsjónvarpinu okkar réttlætir það að skipt sé  um alla þá  starfsmenn sem koma að því að raða saman dagskrá  og finna  til þeirra starfa hæfara fólk.

 Nú spyr Molaskrifari: Hvenær hefðu þeir Pétur Guðfinnsson,seinna útvarpsstjóri , Jón  Þórarinsson, dagskrárstjóri  og Emil Björnsson og  dagskrárstjóri og fréttastjóri  hér á árum áður  sett saman  slíka dagskrá. Svarið er einfalt. Aldrei. Þeir hefðu aldrei  boðið þjóðinni upp á  þvílík ósköp.
 Molaskrifari heyrði upphafið á síðdegisútvarpi  Útvarps Sögu (02.09.2010) þar sem rætt var við  einn eftirlætis viðmælandann , þingmann Sjálfstæðisflokksins, Tryggva Þór Herbertsson. Hann hefur örugglega verið spurður um skýrsluna ,sem hann og bandarískur  hagfræðiprófessor,vinur hans, sktrifuðu og fengi milljónir fyrir  um það hve íslenska efnahagskerfið væri stálslegið, ef ekki gullslegið, og   stæði frábærlega vel.  Þau skötuhjú Útvarps Sögu gleymdu   því örugglega að Tryggvi Þór hefði  skrifaða þessa dæmalausu  og arfavitlausu  skýrslu.

  Enn  er verið að fjalla um það er  fyrirtæki lét  starfsmenn sína losa seyru í eða við þjóðgarðinn á Þingvöllum.  Visir. is fjallaði um þetta (01.09.2010). Þar var sagt:  Sýslumaðurinn á Selfossi hefur fallist á að Holræsa- og stífluþjónusta Suðurlands greiði 200 þúsund krónur í sekt fyrir að leka seyruvökva úr rotþróm út í umhverfið á vatnsverndarsvæði á Þingvöllum.  Fyrirtækið lak ekki vökva. Slíkt orðalag er bara bull. Þetta orðalag var meira að segja notað í tvígang:  Fram hefur komið í fréttum Stöðvar 2 að þetta var líklega ekki í fyrsta sinn sem fyrirtækið lak seyruvökva út í umhverfið. Starfsmenn fyrirtækisins losuðu seyru úr  tankbíl í námunda við borholur þaðan sem neysluvatn kemur.  Það er glæpsamlegt athæfi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>