Óralöng frétt Stöðvar tvö (05.09.2010) um morðið í Hafnarfirði bætti nákvæmlega engu við fyrri fréttir af málinu. Svo eru fjölmiðlar hissa á að hnífur sem leitað er að í drullunni á botni hafnarinnar í Hafnarfirði skuli ekki finnast samstundis. Sennilega er auðveldara að finna saumnál í heystakki.
Jón Baldvin Hannibalsson var skýrmæltur og skörulegur að vanda í endurteknum viðtalsþætti í Útvarpi Sögu á sunnudagsmorgni ( (05.09.2010). Þar sópaði hann til hliðar með einni setningu utanþingsstjórnarbullinu sem veður uppi í þessum fjölmiðli oft á dag. En áfram munu þau hjúin, Arnþrúður og Pétur ,sem stjórna þessar stöð halda áfram að fjasa um utanþingsstjórn,sem sýnir það eitt að þau þekkja ekki til þingræðis eða lýðræðis.
Úr mbl.is (05.09.2010)… þar sem stór jarðskjálfti varð aðfararnótt laugardagsins. Molaskrifara finnst eðlilegra að tala um harðan jarðskjálfta, eða snarpan jarðskjálfta heldur en stóran jarðskjálfta.
Kraftaverk að enginn hafi látið lífið í jarðskjálftunum, sagði visir.is (04.09.2010) um jarðskjálftana á Nýja Sjálandi. Betra hefði verið: Kraftaverk að enginn lét lífið.
Nú (05.09.2010) eru klerkar komnir í hár saman í fjölmiðlum vega biskupsmálsins. Það hlaut að koma að því.
Lottóið á svo mikla peninga,að það hlýtur að geta ráðið sæmilega talandi fólk til að kynna útdráttinn á laugardagskvöldum. Kynningin sl. laugardagskvöld (04.09.2010) var ógóð.
…þegar jörð skreið af stað, hreif með sér hús og bíla og endaði úti í sjó, var sagt í fréttum Ríkissjónvarpsins (04.09.2010). Ekki mjög vel að orði komist, – og heldur ekki þegar sagt var að íþróttafréttamaður væri með smekkfullan pakka. Það er ekki boðlegt orðalag. Ekki var sjáanlegt að íþróttafréttamaður héldi á pakka og ekki veit Molaskrifari hvernig smekkfullur pakki lítur út. Í sama fréttatíma var sagt frá nýrri flugvélategund frá Boeing sem nú er á Keflavíkurflugvelli þar sem flugmenn æfa lendingar í hliðarvindi. Fréttamaður sagði um þessar þotur , að ein þeirra æfði nú flugtak og lendingu... Vélin æfir að sjálfsögðu hvorki eitt né neitt.
Í skjátexta í Ríkissjónvarpinu (05.09.2010) kom við sögu fuglategundin lyngrjúpa. Ekki hefur Molaskrifari heyrt þessarar fuglategundar áður getið áður, en kunnátta hans í dýrafræði er reyndar ekki upp á marga fiska. Lynghænu hefur hann hinsvegar heyrt talað um.
Þá rifjaðist upp að fyrir löngu sátu íslenskir þingmenn að snæðingi í Kaupmannahöfn og biðu heimferðar að loknu Norðurlandaráðsþingi. Flugu þar margar vísur um borð. Meðal rétta var fugl sem hét „moseand“ á máli innfæddra. Eitthvað vafðist fyrir mönnum hvað fugl þessi héti á íslensku, en mest var talað um mosaönd.
Einn úr hópi þessar hagmæltu þingmanna leiðrétti það á leiðinni heim daginn eftir með svofelldri vísu:
„Mosaönd“ er ekki til á okkar máli.
Laumað var með lipru táli
lynghænu í kjaft á Páli.
Skildu eftir svar