«

»

Molar um málfar og miðla 400

Í skjóli tjáningarfrelsis  getur útvarpsstjóri Útvarps  Sögu, Arnþrúður Karlsdóttir  farið með lygar, óhróður og dylgjur um Eið Guðnason í athugasemdum við Mola um málfar og  miðla. En hún verður að standa ábyrg orða sinna.  Þegar  Arnþrúður Karlsdóttir hinsvegar  hefur í hótunum við eiginkonu Molaskrifara  eins og  hún gerir  í athugasemdum við Mola  ( Molar 393) er mælirinn fullur , – og skekinn. Hótun  Arnþrúðar Karlsdóttur um að  ryðjast inn á heimili okkar  er alvarlegt mál og líklega  einsdæmi  á blogginu.

  Vinsamleg ábending til umsjónarmanna  Kastljóss Ríkissjónvarpsins: Ekki misbjóða okkur með því að kalla Tómas Guðmundsson textahöfund eins og gert var í kvöld (08.09.2010). Tómas Guðmundsson var eitt  fremsta ljóðskáld liðinnar aldar.  Tómas Guðmundsson samdi ekki  texta  við gullfalleg lög  Sigfúsar  Halldórssonar.  Sigfús samdi gullfalleg  lög  við  mörg  fegurstu  ljóða  Tómasar Guðmundssonar.  Það er reginmunur á þessu.   Ekki kalla  Tómas Guðmundsson textahöfund !

 SKÝRR boðar til ráðstefnu þar sem haldin verður  lykilræða (Auglýsing 07.09.2010). Þarna er greinilega verið að basla  við að  búa til íslenskt heiti á því  sem á  ensku er kallað keynote speech. Hversvegna ekki   aðalræða?  Lykilræða er eiginlega bara  bull.

 Í frétt Ríkissjónvarpsins (07.09.2010) af umræðum á Alþingi um fjárfestingar lífeyrissjóðanna segir  fréttamaður:  og þeir  eigi að gæta hagsmuni hennar.  Rétt væri  að segja: … gæta hagsmuna hennar.

Enska sögnin to seal þýðir  bæði að innsigla og loka vel eða þétta. Íslenska sögnin að innsigla  þýðir að setja innsigli á, loka með innsigli, lakka,  svo vitnað sé Íslenska orðabók. Í Morgunblaðinu (08.09.2010) er fjallað um sultugerð og þar er talað um að innsigla krukkurnar í lokin. Það ætti nú að vera óþarfi á flestum heimilum. Molaskrifari er nýbúinn að  sjóða dýrindis krækiberjahlaup en honum láðist alveg að innsigla krukkurnar. Lét nægja að loka þeim vel.

Velunnari Mola, Molavin, sendi eftirfarandi: „Eyjan.is: „Coleen hefur fyrirgefið honum áður en kynni hans af Jenny Tompson mun vera dropinn sem fyllti mælinn.“ Mér finnst ég sjá það æ oftar að fólk, sem þekkir ekki helstu orðtök notar þau engu að síður, og þá ranglega. Dropinn holar að vísu steininn, en það er kornið, sem fyllir mælinn. –Molavin.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>