«

»

Molar um málfar og miðla 403

Í fréttum Ríkissjónvarpsins (09.09.2010) var talað um fjármálafyrirtækin,sem hlut áttu í máli. Rétt hefði verið að tala um fyrirtæki,sem hlut áttu að máli. Í sama fréttatíma   Ríkissjónvarpsins var okkur sagt, að íslenska glíman væri samnorrænt sport í grunninn.  Það var og.

Eitt helsta framlag Ríkisútvarpsins okkar til sígildrar tónlistar er að útvarpa  sígildum tónverkum á Rás eitt frá miðnætti til klukkan 06 40 að morgni. Verkin  eru kynnt þannig að á miðnætti er sagt: Nú verða flutt verk efir Beethoven , Bach , Mozart, Haydn og Liszt, — svo eru kannski einhver fleiri höfuðtónskáld nefnd. eiginlega er svona kynning næstum því verri en engin.  Síðan heyrist ekki orð  fyrr en   að morgni þegar sagt er frá síðasta verkinu sem flutt var. Þetta er til skammar. Þetta er eins og að rétta manni landakort með útlínum landanna en án allra   staðaheita.   Aldrei  minnist Molaskrifari þess að hafa heyrt leikin verk  eftir íslensk tónskáld  í næturútvarpi Rásar eitt.  Hvað skyldi valda því ?

  Fjölmiðlar þrástöguðst á, að þingmannanefnd  væri klofin í þrennt (11.09.2010). Molaskrifari hefði sagt að nefndin væri þríklofin, – en svo er margt sinnið sem skinnið.  Því skal til haga haldið að í fréttum  Stöðvar  tvö var ágætlega sagt,  að nefndin hefði þríklofnað.Sama orðalag var reyndar einnig notað í fréttum Ríkissjónvarpsins. Plúsar fyrir það. Sagt var um þessa sömu nefnd í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins : … veruleg spenna er um niðurstöður  nefndarinnar. Molaskrifari hefði orðað þetta á annan veg og  sagt , til dæmis: Margir bíða spenntir eftir niðurstöðum nefndarinnar.

 Margir fjölmiðlungar hafa mesta dálæti á orðinu skilaboð. Auglýsingar eru  til dæmis ekki auglýsingar heldur   skilaboð. Fréttamaður  Ríkissjónvarps spurði  fjármálaráðherra um niðurstöðu þingmannanefndarinnar  og spurði: Hvaða  skilaboð eru þetta út í samfélagið? Sami fréttamaður talaði  einnig um skilaboð til flokksforystunnar.

   Margt stangast á annars horn, sagði stjórnmálaforingi í  fréttum Ríkissjónvarps (11.09.2010).  Eðlilegra hefði verið að mati Molaskrifara að segja : Þar rekur sig hvað á annars horn.

 Molavin í Moskvu er iðinn við að senda  Molum vel þegnar athugasemdir:

,,Mbl: „Námuverkamennirnir 33 sem eru fastir í námugöngum í Chile hefur verið veitt leyfi til að reykja tóbak.“ Þessi stutta málsgrein er síður en svo einsdæmi í fjölmiðlaskrifum í dag. Hún er grátlegt dæmi um það hve margir, sem hafa það ábyrgðarstarf að flytja fréttir, eiga erfitt með að skrifa samsetta frásögn með aukasetningum. 

Eða er fólk að flýta sér svo mikið að það gefur sér ekki tíma til að líta yfir og lesa sín eigin skrif áður en þau fara á Net eða í blað? Ég trúi enn ekki öðru en að blaðamenn kunni að beygja nafnorð. Námuverkamönnunum hefur verið veitt leyfi…

Þrátt fyrir þitt vökula starf á þessum vettvangi, Eiður, þá heyrist lítið frá ábyrgðarmönnum þessara fjölmiðla. Lesa þeir ekki eða hlusta á það, sem þeir eru þó ábyrgir fyrir, bæði gagnvart prentlögum og dómi lesenda og hlustenda? Eða stendur þeim bara á sama?
Með kveðju,
Molavin.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>