«

»

Molar um málfar og miðla 405

Molaskrifara var brugðið, er hann las Tungutakspistilinn í  Lesbók  sunnudagsmogga (12.09.2010). Þar segir Gísli  Sigurðsson prófessor  við Árnastofnun: „Misskilningurinn er sá að halda að málfræðin sé rétt en málið vitlaust. Almenna reglan er sú að ef fullþroska málhafar beygja orð með tilteknum hætti, tala til dæmis um „vísira“ á klukkum og hringja í „læknira“ ( í stað þess að tala um „vísa“ og „lækna“ er rétt að skrá það í málfræðina sem viðurkennda beygingarmynd.“ Með öðrum orðum allar vitleysur sem vella út úr „fullþroska málhöfum“ (aldrei fyrr heyrt talað um fullþroska málhafa) verða réttar um leið og þær eru  sagðar. Það er sem sagt  ekkert rétt og ekkert rangt. Þetta er kjarni hinnar alræmdu reiðareksstefnu.

 Til mótvægis  við orð  prófessorsins við Árnastofnun leyfir Molaskrifari sér að vitna í orð  snillingsins Helga Hálfdanarsonar: (Skætingur og skynsamleg orð,  bls 21, Reykjavík 1985) „ Heyrt hef ég þó undan því kvartað , að í Háskóla Íslands komi komi æ fleiri málleysingjar á íslenzku; og skyldi engan undra, svo sem í pottinn er búið.

Nú kann margur að spyrja: Hvernig getur það átt sér stað, að móðurmálið lendi í þeim mun meiri óhirðu sem háborg íslenzkra fræða teygir turna sína hærra til lofts ?. Hverjum gefur betri sýn til allra átta en þeim, sem þar halda vörð? Og hverjum stæði nær að hlutast til um afdrif þjóðtungunnar en þeim,  sem eru henni handgengnir öðrum fremur ? Eða  eru það ef til vill fílabeinsturnar, sem hæst rísa?  Eru þeir, sem þar starfa , svo bergnumdir  af fræðum sínum að þeir gleymi sjálfu lífi íslenzkrar tungu? “    Greinin sem þetta er tekið úr birtist upphaflega í Morgunblaðinu 13. október 1974.. Molaskrifari bætir því við, að það skyldi  þó  aldrei vera rétt sem Helgi segir.

Að lokum vitnar Molaskrifari í orð prófessorsins og reiðareksmannsins í Árnastofnun, en hann talar um „ungan aðila„, þegar hann endursegir sögu,sem eitt sinn var sögð hér í Molum. Þá hljóta líka að vera til „gamlir aðilar“ og „miðaldra aðilar“. Molaskrifara finnst það ekki gott mál að tala um unga aðila en það   fellur þó líklega vel að umburðarlyndinu í Efstaleiti og  skoðunum reiðareksmanna  í Háskóla Íslands. Kannski ætti  að breyta um nafn á Árnastofnun og kalla hana Árnasofnun ?

 Ef við viljum að íslensk tunga líði undir lok  þá  er  réttast að  reiðareksmennirnir  taki  völdin. Þá  getur hver  skrifað og talað eins og  honum sýnist. Ekkert er þá lengur rétt og  ekkert  rangt. Þá er reyndar rétt að muna,  að glatist tungan, þá glatast þjóðin.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>