Æ oftar les maður og heyrir talað um að hafa gaman, sem er hráþýðing úr ensku to have fun. Þetta er ágætt á ensku en ekki á íslensku. Síðast rakst ég á þetta í tölvupósti frá þeim ágætu samtökum Sterkara Ísland. Ísland verður ekki sterkara með því skemma móðurmálið. Síður en svo.
Morgunútvarpsmaður í Ríkisútvarpi tók svo til orða (16.09.2010) að tillagan var sópuð út af borðinu. Betur hefði Molaskrifara hugnast að heyra manninn segja : … tillögunni var sópað út af borðinu.
Prýðilegt er orðið leiktíð, sem íþróttafréttamenn nota nú í vaxandi mæli yfir það sem áður var kallað leiktímabil (e.season). Hrós fyrir það.
Í fréttum Stöðvar tvö (15.09.2010) var vitnað í margnefnt bréf Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og sagt: … þetta hafi hún fattað, þegar hún las….Molaskrifari hefur ekki séð umrætt bréf, en trúir því ekki að óreyndu að þar hafi verið tekið þannig til orða. Nokkru síðar í sömu frétt , sagði fréttamaður: …Þingmenn Samfylkingar,sem fréttastofan hefur rætt við í dag, staðfesta að öllum ráðherrunum fjórum,sem meirihluti Atla-nefndarinnar leggur til að verði ákærðir vegna vanrækslu í aðdraganda bankahrunsins fái að koma fyrir þingflokkinn og skýra mál sitt. Enn eitt dæmi um að fréttamaður veit ekkert hvaðan hann fór, þegar kemur að því að setja punktinn aftan við setninguna. Öllum ráðherrunum …. fái að koma fyrir þingflokkinn !
Athyglisverð og ágætlega fram sett var frétt Ríkissjónvarpsins (15.09.2010) Hvað varð um 40 milljarðana í Luxemborg? Fréttin snerist að hluta fjárglæframanninn mikla Pálma Haraldsson eiganda Fengs ,sem á ferðaskrifstofuna Iceland Express. Iceland Express er ekki flugfélag, á ekki eina einustu flugvél og hefur ekki einn einasta flugmann í vinnu. Molaskrifari er hissa á að fólk skuli láta sig hafa það að ferðast með þessari ferðaskrifstofu sé horft til þess sem þar býr að baki.
Skildu eftir svar