Í Fréttablaðinu (29.10.2010) segir: Guðni tók þessum ávirðingum óstinnt upp og kvaðst… Þarna hefði verið rétt að segja: Guðni tók þessar ávirðingar óstinnt upp… Málvenja er að tala um að taka eitthvað óstinnt upp ekki að taka einhverju óstinnt upp. . Það hefði hinsvegar mátt segja að Guðni hefði tekið þessum ávirðingum illa.
… og dugar metangasið sem þar fellur til sem eldsneyti á fleiri þúsundir bíla. Morgunblaðið (28.10.2010) Af hverju fleiri þúsundir? Nægt hefði að segja á þúsundir bíla. Fleiri þúsundir segir okkur ekki nokkurn skapaðan hlut. Fleiri en hvað?
Hin tvö málin hafi átt sér stað… var sagt í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (28.10.2010). Mál eiga sér ekki stað. Frekar er þetta óvandað orðalag.
Úr mbl.is (28.0.2010): Sómölsk kona sem var fundin sek um …… verður gert að dvelja á réttargæsludeild. Hér skortir samræmi. Rétt hefði verið að skrifa: Sómalskri konu sem fundin var sek um …. verður gert að dveljast á réttargæsludeild.
Í hádegisútvarpi (28.10.2010) var tvílesin tilkynning, sem var eitthvað á þessa leið: Málþing,sem halda átti , er frestað. Í tilkynningatímanum fyrir sexfréttir las þulur þessa sömu tilkynningu rangt orðaða, en leiðrétti svo textann og sagði réttilega: Málþingi,sem halda átti er frestað. Hrós fyrir það.
Sannarlega var athyglisvert að heyra einn af forvígismönnum fótboltans segja í sjónvarpi (29.10.2010) , að fótbolti á Íslandi snúist bara um peninga. Óvenjulega hreinskilin ummæli. Rétt er svo, að við höfum í huga að þessum peningafótbolta er meðal annars haldið uppi með fé sem almenningur greiðir fyrir Lottómiða. Það er hinsvegar ekki haft hátt um það í auglýsingum Lottósins. Þar er mest talað um Öryrkjabandalagið.
Enn eitt dæmið um makalaus dagskrárgerð sjónvarps ríkisins var að endursýna gamla ameríska mynd að loknu Útsvari á besta tíma á föstudagskvöldi en sýna svo hinn vinsæla Barnaby fyrst klukkan ellefu um kvöldið. Þess var getið í prentaðri dagskrá í blöðunum að verið væri að endursýna myndina. Þess var ekki getið þegar þulur kynnti myndina í sjónvarpinu. Þannig er hægt að ljúga að okkur með þögninni.
Hún ristir ekki djúpt þekkingin á umfjöllunarefninu, þegar menn halda að línuveiðar séu handfæraveiðar. Það heldur lögfræðingurinn Pétur Gunnlaugsson, sem hefur hæst allra í Útvarpi Sögu.
Skildu eftir svar