Allt ætlaði um koll að keyra í bókstaflegri merkingu , sagði íþróttafréttamaður í Ríkissjónvarpinu (17.11.2010). Þetta fannst Molaskrifara einkennilegt orðalag. Af hverju í bókstaflegri merkingu ? Nægt hefði að segja að allt hefði ætlað um koll að keyra.
Í sjónvarpsauglýsingu er talað um bestu gæði. Það þýðir að gæði séu góð en slíkt orðalag er út í hött.
Þegar einn af forsprökkum samtaka,sem Jónas Kristjánsson kennir við óráðssíu, segist vera maður orða sinna , er það aulaþýðingu úr ensku. Á góðu máli væri sagt: Ég stend við það sem ég segi, eða ég er orðheldinn maður.
Rannsóknin var leidd af... var sagt í fréttum Ríkisútvarpsins (17.11.2010). Betra hefði verið: Rannsókninni stjórnuðu …
Slettur vaða upp í auglýsingum. Í Morgunblaðinu (18.11.2010) auglýsir fyrirtæki sem kallar sig Sport-outlet 50% afslátt af öllum watershorts og bikiníum frá Speedo. Ekki er þetta til fyrirmyndar.
Oft er farið rangt með orðtök,sem eru föst í málinu. Í Útvarpi Sögu var nýlega sagt: Þá fannst mér kasta steininum. Það sem maðurinn vildi sagt hafa var: Þá fannst mér steininn taka úr, þá fannst mér keyra úr hófi. Eða þá fannst mér kasta tólfunum.
Það fór lítið fyrir Íslandi í Íslandi í dag á Stöð tvö, (17.11.2010). Þá var birt breskt viðtal við breskan prins og unnustu hans. Huggulegasta fólk í alla staði, en tengist Íslandi ekki með neinum hætti. Glöggur hlustandi horfði á þennan þátt og sendi Molum eftirfarandi: „Ekki veit ég hver þýddi viðtalið við prinsinn breska og heitmey hans í „Íslandi í dag“, á Stöð 2 í kvöld, – en sá sem þýddi var illa haldinn af þágufallssýkinni.
Amk. þrisvar sinnum í röð í sama viðtalinu voru setningar þýddar með: „mér langar“ og „henni langar“ , -í fjórðu tilraun tókst held ég að hafa þetta rétt.“ Ljótt er atarna,segir Molaskrifari.
Það er með endemum að heyra suma þáttastjórnendur í Útvarpi Sögu tala eins og alls ekkert hafi verið gert af hálfu stjórnvalda til að leysa vanda skuldsettra fjölskyldna. Þeir sem þannig tala eru heyra ekki vel og sjá ekki vel þegar staðreyndir eiga í hlut. Það hafa alltaf verið nauðungaruppboð á húseignum og bílum. Það hefur alltaf verið til fólk,sem kann ekki fótum sínum forráð í peningamálum. Vissulega hefur þeim fjölgað í hruninu sem eiga í erfiðleikum með að standa í skilum. En að tala eins og ekkert hafi verið gert er á skjön við sannleikann. Með því er verið að segja fólki ósatt. Það er ekki hlutverk fjölmiðla.
Það vekur athygli hvernig reynt er að reyta æruna af nafngreindum frambjóðendum til stjórnlagaþings,sem ekki eru stjórnendum stöðvarinnar að skapi.
Skildu eftir svar