«

»

Molar um málfar XLI

 

Fyrirtæki heitir  Andersen & Lauth. Heitið á  sér  sjálfsagt sögulegar skýringar. Í heilsíðuauglýsingu í Fréttablaðinu (03.04) stendur  Anderson & Lauth – Established  1934. Af hverju  ekki   stofnað  1934?  Hversvegna  tala ensku  við íslenska lesendur ?

 Í  hádegisfréttum (03.04) sagði íþróttafréttamaður RÚV  frá  sænskum knattspyrnuþjálfara,sem  rekinn hafði  verið úr  starfi í Mexíkó. (,,Venjarinn sakkaður“ , hefðu  Færeyingar sagt) Fréttamaðurinn sagði, að  ekki  væri  búið  að finna  staðgengil hans.  Staðgengill er  sá  sem  gegnir  störfum í  stað einhvers   tímabundið,  eða er   fulltrúi einhvers.  Hér    hefði  fréttamaður  átt að  segja  að  ekki  væri  búið að  finna eftirmann  brottrekna þjálfarans.

„Landsfundafargið breytti litlu sem engu“, skrifaði stórbloggari( 03.04.). Sjálfsagt er þetta fljótfærni, því farg þýðir þungi, eða e-ð sem notað er til að þrýsta e-u niður, fergja. En kannski hefur þungu fargi verið létt af ýmsum að loknum landsfundum um liðna helgi. Líklega hefur skrifari ætlað að nota orðið fargan, sem þýðir í mínum huga vandaræðagangur eða vesen. Fargan var orð ,sem móðir mín heitin, notaði oft. Líklega hefði hún sagt um ástandið á Alþingi þessa dagana: „ Það er nú meira farganið“!

Þetta mátti lesa á Vefvísi (02.04.) „Lögreglan á Suðurnesjum leitar enn af 21 árs gömlum Belga sem handtekinn var….“ Forsetningin af  var tvínotuð,  bæði í fyrirsögn og í fréttinni. Hér  er  því um  að ræða einbeittan  brotavilja, –  og    djúpstæða fákunnáttu.  Menn leita    einhverjum eða einhverju   ekki  af einhverjum eða einhverju.

Í dag (03.04.)var svo tekið til orða í einhverjum fjölmiðlinum (man ekki með vissu hver átti í hlut) , að þetta væru líklega „um tíu einstaklingar“. Það er ekkert til sem heitir „um tíu einstaklingar“. Annaðhvort eru einstaklingarnir tíu eða ekki. Þeir geta til dæmis hreint ekki verið tíu og hálfur“.

Það er skynsamleg ákvörðun hjá  Stöð tvö  að eyða ekki  tugum milljóna í kosningasjónvarp þótt RÚV   hafi lýst  þeirri ætlan  sinni. Það er enginn að gera  kröfur  um    tugmilljóna  kosningasjónvarp  hjá  RÚV bæði í hljóðvarpi og sjónvarpi. Það þarf ekki að kosta  svo miklu  til að birta   tölur og  vangaveltur um pólitíkina. Það telur  gamall  fréttamaður með nokkur kosningasjónvarpskvöld að baki sig  vita. RÚV verður að draga  saman  seglin eins og  aðrir. Fréttir um  niðurskurð ofurlauna þar á bæ hafa hinsvegar alveg farið fram hjá mér.

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Þorvaldur Sigurðsson skrifar:

    „Það er enginn að gera kröfur um tugmilljóna kosningasjónvarp…“

    Svo bregðast krosstré sem önnur. 

  2. Sigurður Hreiðar skrifar:

    Um þetta síðasta, kosningasjónvarp. Fyrir utan gagnsleysi þess er þetta dæmalaust leiðinlegt sjónvarpsefni. Jafnvel reyndum sjónvarpsjöxlum og áhorfanlegum svona almennt séð tekst ekki að gera þetta áhugavert og skemmtilegt. — Kannski á ekki allt sjónvarpsefni að vera skemmtilegt, en fyrr má nú rota en dauðrota.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>