«

»

Molar um málfar XLIII

Betur fór en á horfðist (04.04.), þegar fiskiskip varð vélarvana skammt frá landi undan Krísuvíkurbjargi. Bæði Vefvísir og Stöð tvö töluðu um að skipið hefði orðið „aflvana“. Ekki kann ég við það orðalag , þótt ekki sé það beinlínis rangt. Á Vefvísi var talað um að búið væri að „koma afli í vél skipsins“. Það er fáránlegt orðalag um að tekist hafi að gangsetja vél skipsins eða koma vél skipsins í gang að nýju. Einhversstaðar var líka sagt „eftir að slokknaði á vélinni“. Það finnst mér klaufalegt orðalag. Frétt RÚV sjónvarps af þessum hremmingum , sem lyktaði þá farsællega, var best orðuð.

Í fréttum Stöðvar tvö (04.04) var talað um „alla höfuðstóla húsnæðislána“. Þar hefði átt að tala um höfuðstól allra húsnæðislána. Líka var þar í texta talað um „3 eða 4 skilríki“. Skilríki er fleirtöluorð rétt eins og verðlaun. Þessvegna hefði átt að tala um þrenn eða fern skilríki.

Hvað finnst mönnum um orðatiltækið „að brúa fjárlagagatið“ ? Væntanlega skilja allir hvað átt er við . Betur hefði ég kunnað því að talað væri um að loka fjárlagagatinu. Við tölum um að brúa bil. Stoppa í gat eða loka gati. Man ekki betur en æviminningar Halldórs E. Sigurðssonar, annað bindið, heiti „Bilin á að brúa“ og er þar vísað til byggingar Borgarfjarðarbrúar. Gárungarnir sneru út úr þessu og sögðu „Brúin á að bila“ , en vonandi bilar sú góða brú og mikla samgöngubót aldrei

Bæði RÚV , Stöð tvö og Bylgjan hafa á að skipa fólki sem er prýðilega góðir þulir, lesarar í fréttum og fréttatengdum þáttum. Það skiptir höfuðmáli fyrir áheyrendur að þetta fólk hafi skýran framburð, þægilega rödd og kunni að lesa á „réttum“ hraða. Það á ekki að velja fólk til að lesa fréttir eða fara með texta ,sem er óþægilega skrækróma eða mjóróma. Samt er það gert.

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Hafliði Vilhelmsson skrifar:

    Alltaf þegar sagt er frá því að skip hafi orðið vélarvana er mín fyrsta hugsun: hvert fór vélin?

    Kannski er þetta í lagi, hver segir að tungumáli sé skylt að vera rökrétt? En nægir ekki að segja að vélin sé biluð, hafi stöðvast eða eitthvað í þá áttina?

    Annaðhvort fer málfar manna versnandi eða maður er farinn að höggva betur eftir ambögunum eftir því sem maður eldist og ergist.

    Hvenær skyldu menn til dæmis hætta að kalla skipverja áhafnarmeðlimi (sem er líklega „þýðing“ úr Crew members)

  2. Eiður skrifar:

     Auðvitað er  ekkert að því  að segja  að bátur sé  með  bilaða vél.Fínt.Gangsetja  vél   og  koma  vél í gang, líka fínt. 

  3. corvus corax skrifar:

    Er ekki nógu fínt að segja að vélin hafi bilað? Að búið sé að gera við vélina? Að tekist hafi að koma vélinni í gang? Allt þetta þótti vel við hæfi í minni sveit og alls ekki fátækleg málnotkun.

  4. Stefán Vilhjálmsson skrifar:

    Ég man ekki betur en fræðingar hafi löngum fundið að orðinu „vélarvana“ því vissulega er vélin enn í skipinu þótt biluð sé. Ég hjó því eftir „aflvana“ á Stöð tvö og þótti framför. Hitt er rétt athugað að eftir að drepst (ekki slokknar) á vél er hún sett í gang (en ekki „komið afli í“ hana). Með góðri kveðju. StV.

  5. Eiður skrifar:

    Hárrétt, Sverrir. Fyrrverandi   formaður   fjárveitinganefndar, sem  nú heitir  fjárlaganefnd, þekkir þetta orðatiltæki    mæta vel. En nú veit  enginn lengur  hvað það merkir að  stoppa í gat , enda allir löngu hættir að  stoppa í sokka, – þeim er bara hent.

  6. Sverrir Einarsson skrifar:

    Var ekki hér áður fyrr talað um að stoppa í fjárlaga gatið, ég man ekki betur. þá kom auðvitað að því að farið var að snúa út úr því orðalagi. Svona í svipuðum dúr og þegar Geir Hallgrímsson leit eitthvað „mjög alvarlegum augum“ og setti í brúnirnar. (eða er það að „setja í brýrnar) sbr. þungur á brún………hvað veit ég sem kann ekkert í Íslensku.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>