«

»

Molar um málfar og miðla 385

Það var vel orðað, þegar sagt var í fréttum Ríkisútvarpsins (20.08.2010) að fyrrverandi forstjóri Actavis hefði verið að bera víurnar í  fjölmarga starfsmenn Actavis, – reyna að fá þá til starfa fyrir sig. Á vef Stofnunar Árna Magnússonar er þetta orðatiltæki skýrt svona: „Orðasambandið er að bera víurnar í einhvern eða eitthvað. Vía er egg maðkaflugunnar í fiski eða kjöti. Orðasambandið, sem þekkt er frá þessari öld, er þannig hugsað að einhver hafi ágirnd á einhverju, vilji leggja eitthvað undir sig eins og flugurnar gera þegar þær verpa í kjöt eða fisk“.  Sá sem skrifaði þessa frétt fær  prik fyrir fínt orðalag.

   Sá sem  skrifaði frétt er flutt var í  morgunfréttum Ríkisútvarpsins (21.08.2010) og sagði, – þegar kjörstaðir í Ástralíu verða opnaðir, fær líka  prik. Fyrir  að segja  verða opnaðir, en ekki þegar kjörstaðir opna  eins og alltof margir  fjölmiðlungar taka til orða.

  Fyrst Molaskrifari er nú á þeim slóðum (sjaldförnu, mundu sumir líklega segja !) að hrósa fjölmiðlamönnum. lætur hann ekki hjá líða að hrósa Vísnahorni Péturs Blöndals í Morgunblaðinu. Ómissandi við upphaf dags.

Íslensk stjórnvöld höfðu vanrækt  að fullgilda ekki (samning). Þannig komst þáttastjórnandi í Útvarpi Sögu að orði (20.08.2010). Ekki mjög rökrétt hugsun. Í stíl við annað þeim bænum.

 Í Fréttabréfi Garðabæjar , 20. ágúst segir: Góð aðsókn hefur verið í Hönnunarsafn Íslands… Venja er að tala um góða aðsókn einhverju ekki í  eitthvað.

Lengi hefur Molaskrifari látið skjáauglýsingu um gullkaup fara í taugarnar á sér. Á  skjánum segir eitthvað á þessa leið: Ég, Magnús Steinþórsson gullsmíðameistari , er að kaupa  gull, gullpeninga og gullskartgripi o.sv.frv.  Þessi auglýsing   er stundum birt með  tíufréttum Ríkissjónvarpsins og  alveg er Molaskrifari handviss um, að þá er þessi Magnús ekki að kaupa gull.  Hér ætti auðvitað að standa: Ég, Magnús Steinþórsson, gullsmiður, kaupi gull, — ekki er  að kaupa gull.  Reyndar er þetta rétt í  þulartexta  með auglýsingunni. En það er til marks  um  málblindu þeirra, sem  stýra  birtingu sjónvarpsauglýsinga   Ríkissjónvarpsins, að þessu skuli kastað framan í okkur áhorfendur  kvöld eftir kvöld.

Visir.is (20.08.2010): Hnífurinn var beittur á annarri hliðinni og með bakka á hinni, eins og lögregla orðar það. Eins og lögregla orðar það ,segir vefmiðillinn visir.is . Jónas Hallgrímsson orti í frægasta ástarljóð íslenskra bókmennta: „Háa skilur hnetti himingeimur, blað skilur bakka og egg; en anda, sem unnast, fær aldregi eilífð að skilið.“ … blað skilur bakka og egg,“ – orðsins snilld í hæstum hæðum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>