Í beinskeyttum bloggpistlum hefur Jónas Kristjánsson oft fjallað um handónýta stjórnsýslu íslenska ríkisins. Jón Baldvin Hannibalsson hnykkti á þessu í ágætu viðtali í Útvarpi Sögu (25.08.2010). Hér kemur lítil saga um hina ónýtu stjórnsýslu. Fimmta nóvember 2009 skrifaði ég mennta- og menningarmálaráðherra Katrínu Jakobsdóttur bréf vegna ólöglegra áfengisauglýsinga í Ríkissjónvarpinu. Leið nú og beið. Ekkert gerðist. Átjánda mars 2010 sendi ég menntamálaráðherra tölvubréf og spurðist fyrir um erindi mitt. Hún svaraði að bragði. Embættismenn höfðu ekki haft burði til að koma bréfinu til hennar. Hún hafði aldrei séð það. Málið lá í skúffu kansellistanna.Sem höfðu greinilega ákveðið að gera ekki neitt.
Skömmu síðar fékk ég bréf frá ráðuneytinu þar sem mér var tjáð að skv. nýlegri lagabreytingu heyrðu málefni Ríkisútvarpsins ohf undir fjármálaráðuneytið. Erindi mitt hefði verið framsent fjármálaráðuneytinu . Menntamálaráðuneytið sendi erindi mitt 26. mars einnig til frú Svanhildar Kaaber formanns stjórnar Ríkisútvarpsins ohf, en hún er þar fulltrúi VG. Var henni sent erindið til „góðfúslegrar fyrirgreiðslu“, eins og það er orðað.
Áfram sat við sama. Ekkert gerðist. Frá formanni stjórnar Ríkisútvarpsins heyrðist hvorki hósti né stuna. Tíunda ágúst skrifaði ég frú Svanhildi Kaaber til að spyrjast fyrir um hvað liði afgreiðslu erindis míns frá fimmta nóvember 2009. Tíu dögum siðar, eða tuttugasta ágúst 2010, fékk ég svo bréf frá einum af yfirmönnum Ríkisútvarpsins um að lögfræðingur Ríkisútvarpsins telji áfengisauglýsingarnar (kallaðar „léttölsauglýsingar”) löglegar og að Ríkisútvarpið reyni eftir megni að leggja rækt við íslenska tungu. Aumt var það plagg. Bæklingur um málstefnu Ríkisútvarpsins fylgdi. Hann hefur sennilega ekki borist fréttastofunni enn. Ég skrifaði formanni stjórnar Ríkisútvarpsins, Svanhildi Kaaber. Hún sá ekki ástæðu til að svara mér, heldur fól undirsáta að svara, seint og um síðir eftir að rekið hafði verið á eftir málinu. Það er sjálfsagt til of mikils mælst að formaður stjórnar Ríkisútvarpsins svari bréfum frá óbreyttum viðskiptavinum stofnunarinnar. Það tók stjórnsýsluna næstum tíu mánuði að afgreiða þetta einfalda erindi.
Ef einföldu málin er afgreidd með þessum hætti í stjórnkerfinu, hvað þá um hin stærri ?
Það er satt sem Jónas Kristjánsson segir og Jón Baldvin tekur undir. Þetta kerfi er ónýtt. Kerfiskerlingar og karlar telja sig yfir það hafin að svara erindum nema með miklum eftirgangsmunum.
Skildu eftir svar