Ekki ólíklegt, að hún hafi rekið á land….. sagði viðmælandi fréttastofu,sem rætt var við um hvalreka norður á Skaga. Þessi villa verður æ algengari. Hér hefði verið rétt að segja: Ekki er ólíklegt að hana (steypireyðina) hafi rekið á land …
Að vanda blakti fáni menningar og málvöndunar við hún í morgunþætti Rásar tvö í Ríkisútvarpinu í morgun, föstudag (27.08.2010). Þá ræddu stjórnendur við hana Gróu sína á Leiti,sem flytur vikulegt slúður (að þeirra eigin sögn) frá Hollywood. Þarna var hlustendum sagt frá konu ,sem hafði orðið ólétt með ágætum dreng og einhverjum sem hafði gengið í gegnum efnameðferð. Þar fyrir utan sagði konan hédddna ,hédddna og náttlega oftar en tölu verður á komið. Umsjónarmenn Rásar tvö hafa greinilega ekki fengið í hendur bæklinginn um málstefnu Ríkisútvarpsins, né heldur hefur hann borist vestur að Kyrrahafi. Og svo voru hlustendur kvaddir með : Bæ !
Hádegisfréttatími Bylgjunnar einkum þó fyrrihlutinn,(24.08.2010) var hafsjór af ambögum. Nokkur dæmi: .. og óskorðaður foringi jafnaldra sinna í prestastétt. Þarna hefði fréttamaður átt að segja.. óskoraður foringi. Það er ekkert til sem heitir óskorðaður foringi. Það er bara rugl. … hafi átt rætur sínar í vina- og kunningjahóp Ólafs. Hér hefði átt að segja … í vina- og kunningjahópi Ólafs. …barst alþjóðadeild lögreglunnar hér á landi upplýsingar.. Hefði átt að að vera: … bárust alþjóðadeild lögreglunnar hér á landi upplýsingar… Lögregla hefur ekki viljað svara því til hvort tengsl séu milli.. Í þessu setningarbroti er orðinu til ofaukið. Lögregla hefur ekki viljað svara því…. Talsvert af upplýsingum og ábendingum frá almenningi hafa borist… Ætti að vera : Talsvert af upplýsingum og ábendingum hefur borist frá almenningi.
Morðinginn ófundinn í níu daga, sagði í undarlegri fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (25.08.2010)
Móðir barns eða barna í Vesturbæjarskóla ,sem rætt var við í fréttum Ríkissjónvarps (26.08.2010) sagði um skúra, sem settir hafa verið niður á skólalóðinni, að þeir væru morknir. Morkinn þýðir úldinn, rotinn eða maltur. Myndirnar sem sýndar voru með fréttinni báru með sér að það sem sást af undirstöðum skúranna var grautfúið eða feyskið. Viður fúnar, en berg getur morknað af völdum jarðhita og handrit geta morknað í hillum, segir íslensk orðabók.
Úr mbl.is (26.08.2010): Í gærkvöldi var greint frá því á mbl.is að talsverð seinkun varð á flugi flugfélagsins Astraeus til og frá Bretlandi í júnímánuði, samkvæmt nýrri skýrslu frá flugmálastjórn þar í landi, CAA. Astreus rekur flugvélarnar sem fljúga undir merki Iceland Express. Þetta staðfestir það sem hér hefur áður verið sagt. Iceland Express er ekki flugfélag heldur ferðaskrifstofa. Það er því rangt, þegar fjölmiðlar tala um flugfélagið Iceland Express.
Skildu eftir svar