Sjaldgæft er að steypireyð reki á land, var sagt í fréttum Stöðvar tvö (26.08.2010). Steypireyður er kvenkynsorð og beygist: nf. steypireyður, þf.steypireyði, þgf. steypireyði, ef. steypireyðar.
Breskir fjölmiðlar hafa gert því skóna, að…. var prýðilega sagt í tíu fréttum Ríkissjónvarps (26.08.2010). Að gera einhverju skóna er að gera ráð fyrir einhverju eða búast við einhverju. Sjá t.d. Mergur málsins eftir dr. Jón G. Friðjónsson bls. 767
Molavin sendi eftirfarandi (26.08.2010): Á vef Ríkisútvarpsins segir í frétt ma..: „Flokksskrifstofa danska jafnaðarmannaflokksins í Frederiksberg var rýmd að hluta í morgun…“
Ég hef búið á Friðriksbergi, sem er sjálfstætt bæjarfélag, umlukið Kaupmannahöfn. Hið vinsæla danslag „Det var på Frederiksberg, det var i Maj
jeg fik en pige kær, og det var dig“ staðfestir að Danir segja ekki „í“ Friðriksbergi heldur „á“. Enn ein ábendingin um brýna þörf á uppsláttarritum og notkun þeirra á fréttastofum“.
Gott er að eiga hauk í horni, Molavin.
Molaskrifari hafði leyft sér að vona að það væri liðin tíð að starfsmenn Ríkisútvarpsins notuðu aðstöðu sína til að hampa persónulegum áhugamálum sínum eins og purkunarlaust var gert hér á árum áður. Ýmsir, sem nú eru á efri árum, muna til dæmis hvernig Ríkisútvarpið var misnotað, þegar verið var að mótmæla fyrirhugaðri húsbyggingu Seðlabankans norðan Arnarhóls.
Morgunþáttur Rásar eitt, Vítt og breitt, sem alla jafna er með besta efni Ríkisútvarpsins, var nýlega eins og hann lagði sig, helgaður gömlu Laxárdeilumáli (26.08.2010). Jafnframt var einum starfsmanni Ríkisútvarpsins send sérstök afmæliskveðja og flutt í heild ávarp sem sá hinn sami hafði flutt daginn áður norður við Laxá. Sá starfsmaður,sem hér um ræðir, er alls góðs maklegur, en Ríkisútvarpið á ekki að misnota með þessum hætti. Samkvæmt þessu ættu allir starfsmenn Ríkisútvarpsins að fá sérstakar kveðjur og umfjöllun í dagskrá, þegar þeir eiga afmæli. Hér á ekki að gera mannamun
Starfsmönnum þjóðarútvarpsins hættir á stundum til að gleyma því að Ríkisútvarpið er ohf ,opinbert hlutafélag, ekki ehf,einkahlutafélag.
Skildu eftir svar