Formaður Prestafélagsins boðaði Ríkissjónvarpið til messu í Hafnarfjarðarkirkju (29.08.2010). Öllu verr hafði hinsvegar tekist til við boðun sóknarbarna til guðsþjónustunnar. Kirkjubekkirnir voru flestir auðir. Molaskrifara þótt það einkennilega til orða tekið hjá formanninum í útvarpsfréttum, að kirkjan yrði að hlusta gaumgæfilega á úrsagnir fólks úr þjóðkirkjunni og að kirkjan yrði að hlusta gaumgæfilega á að þetta skuli vera eina úrræðið…. Séra Hjálmar Jónsson gerði biskupsmálin líka að umræðuefni í prédikun í Dómkirkjunni, þennan sama sunnudag, en hann kallaði sjónvarpsmenn ekki á vettvang.
Kappakstursfréttamaður Ríkissjónvarps sagði að keppanda hefði verið gert að sæta refsingar. Rétt hefði verið að segja , — sæta refsingu. Menn geta hinsvegar verið dæmdir til refsingar.
Í annað skipti á skömmum tíma hefur Molaskrifari heyrt Ásgerði Jónu Flosadóttur umsjónarmann langdreginna auglýsinga ferðaskrifstofunnar Iceland Express segja efnislega í Útvarpi Sögu: Þátturinn Á ferð og flugi með Iceland Express er nú lokið. Vandað málfar er ekki hin sterka hlið þeirra í Útvarpi Sögu.
Í fréttum af rannsókn morðsins í Hafnarfirði hafa fjölmiðlar tönnlast á orðinu skófar. Það orð er Molaskrifara ekki þjált eða þekkilegt. Eðlilegra væri að tala um fótspor eða spor. Að vísu yrkir Guttormur J. Guttormsson í hinu stórbrotna kvæði sínu Sandy Bar:
Það var seint á sumarkveldi ,
sundrað loft af gný og eldi,
regn í steypistraumum felldi,
stöðuvatn varð hvert mitt far.
Fengur er að vikulegum pistlum, Tungutaki, í Sunnudagsmogga um íslenska tungu. Gísli Sigurðsson, rannsóknarprófessor við Árnastofnun skrifaði Tungutakspistil í Sunnudagsmogga 29. ágúst og ber þar meðal annars í bætifláka fyrir málfarsráðunaut Ríkisútvarps, sem hvatt hefur til umburðarlyndis gagnvart því sem við sumir viljum kalla málvillur eða ambögur. Það sjónarmið, að við eigum að láta reka á reiðanum hvað málfar varðar , því málið sé lifandi og verði að fá að þróast, þykir Molaskrifara ekki lofsvert. Auðvitað þróast málið og breytist en það þýðir ekki að við eigum að sætta okkur við að sagt sé að eiga undir vök að verjast eða þegar hér er komið við sögu, svo nefndar séu tvær ambögur af handahófi. Í Noregi hefur umburðarlyndið gengið svo langt að norska er hægt og hægt að breytast í hrærigraut þar sem allt er leyfilegt og ekkert er rangt. Viljum við að sú verði þróunin hér ? Meðan jafnmargir þakka mér þessi Molaskrif og raun ber vitni , verður þeim haldið áfram.
Skildu eftir svar