300 tonna byggðakvóti fýsir, segir í fyrirsögn á mbl.is (18.01.2011). Molaskrifari þykist vita, að átt sé við, að 300 tonna byggðakvóti freisti eða sé freistandi, en aldrei hefur hann heyrt eða séð sögnina að fýsa notaða með þessum hætti. Algengast er: Mig fýsir, – mig langar.
Orðið tafarlaust kom fyrir í frétt í Ríkissjónvarpinu (17.01.2011) Fjallað var um þá sem brjóta af sér í umferðinni vegna elliglapa eða öldrunarsjúkdóma. Lögreglu skorti heimild til að svipa slíka ökumenn ökuskírteini tafarlaust. Ekki er Molaskrifari alveg sáttur við þessa notkun orðsins tafarlaust. Betra hefði verið að segja umsvifalaust , eða að svipta viðkomandi ökuskírteininu á staðnum. Í sama fréttatíma var einnig talað um að lögreglan hefði þurft að skarast í leikinn. Átti auðvitað að vera skerast í leikinn.
Í fréttum Stöðvar tvö (17.01.2011) var talað um að senda köld skilaboð. Málvenja er að tala um að senda einhverjum kaldar kveðjur, vondar fréttir eða sýna e-m ókurteisi. Í sama fréttatíma var sagt að á einhverju hefðu orðið verulegir brestir. Brestir geta komið í samstarf , ef það breytist til verri vegar. Misbrestur getur verið á einhverju, skortur er á einhverju eða eitthvað er gallað.
Málfari i morgunútvarp Rásar tvö fer lítið fram. Í gær (17.01.2011) var þar sagt , að Berlusconi væri undir rannsókn! Þann sama dag var flutt menningarframlag Ríkisútvarps, leikaraslúður vestan frá Kyrrahafsströnd Bandaríkjanna . Enskuslettur voru nánast í hverri setningu. Ambögurnar skorti ekki heldur: Margar tískur í gangi. Það þorir varla enginn. Nýtt innslag af sama tagi var boðað næsta föstudag. Líklega á þetta verða einskonar Daglegt mál á Rás tvö. Rúsínan í pylsuendanum var þegar sagt var frá bestu erlendu kvikmyndinni á Golden Globehátíðinni: … eða Heven eins og hún heitir á dönsku! Myndin heitir Hævnen, hefndin. Ekki hvarflaði að umsjónarmönnum að lelðrétta ruglið. Í inngangi var fluttur langur pistill á ensku. Það er þvert á málstefnu Ríkisútvarpsins. Rétt er líka að gefnu tilefni að árétta að Golden Globe verðlaunin eru ekki kennd við gullinn knött, heldur gullinn hnött. Því eru lítil takmörk sett hvað Ríkisútvarpið telur okkur hlustendum boðlegt. Svo er líka til bóta (18.01.2011) að fara rétt með nöfn þeirra, sem fram koma í morgunþættinum.
Hér hefur nokkrum sinnum verið vikið að óþolandi óstundvísi í dagskrá Ríkissjónvarpsins. Haldið verður áfram að nefna þetta þangað til stjórnendur dagskrár í Ríkisútvarpinu eru búnir að læra á klukku. Þeir gætu farið í skóla á Rás eitt. Alvöru sjónvarpsstöðvar leggja metnað í að halda sig við auglýsta dagskrártíma. Ágætur þáttur um Þóru Einarsdóttur söngkonu hófst til dæmis ekki á réttum tíma á sunnudagskvöld (16.01.2011). Einkum vegna auglýsinga frá Ríkissjónvarpinu. Það eru aumir stjórnendur ,sem ekki geta lagfært þetta. Óstundvísi af þessu tagi er óvirðing við hlustendur.
Skildu eftir svar