Það er alvarlegt áfall fyrir trúverðugleika Morgunblaðsins,sem fréttamiðils, að uppsláttur blaðsins (31.01.2011) um að blaðamaður DV hafi stöðu grunaðs manns í tilteknu málu skuli hafa verið uppspuni. Það tekur langan tíma fyrir fjölmiðla að endurvinna traust, þegar þeir bregðast trausti lesenda sinna.
Merkilegt fréttamat hjá Fréttastofu Ríkisútvarpsins, að það skuli vera fréttaefni, að tiltekinn blaðamaður segi sig úr Sjálfstæðisflokknum (02.02.2011). Hvað ef verkamaður hefði sagt sig úr flokknum? Hefði útvarpi allra landsmanna þótt það fréttnæmt?
Mjög var það ofmælt hjá Fréttastofu Stöðvar tvö (02.02.2011) að kalla leirinn ,sem Árni Johnsen fór með á Alþingi, kvæði.
Í sexfréttum Ríkisútvarps (02.02.2011) var svo tekið til orða að hækkun hefði þurft að vera hærri. Eðlilegra hefði verið að segja, að hækkun hefði þurft að vera meiri. Í sama fréttatíma var rætt um raunvexti og sagt: Þar sem vextir á innlánsreikningum geta borið neikvæða raunvexti. Betra hefði verið að segja: Þar sem raunvextir á innlánsreikningum geta verið neikvæðir.
Undarlegur er myndatexti á baksíðu Morgunblaðsins (02.02.2011). Þar segir Gamla mjólkurbúið sem stendur fyrir aftan Jóhann á myndinni hér að ofan, var reist af Thor Jensen, þegar hann átti Korpúlfsstaði. Jóhann var fjögurra ára gamall þegar hafið var að byggja húsið. Við þennan texta er eftirfarandi að athuga frá sjónarhóli Molaskrifara. Korpúlfsstaðir voru ekki mjólkurbú heldur kúabú, eitt það fullkomnasta í Norðurálfu þar sem að vísu var mjólkurvinnsla (sem Framsóknarmönnum tókst að drepa á sínum tíma) Kjánalegt er að segja að húsið standi fyrir aftan Jóhann. Húsið er í baksýn, Jóhann stendur fyrir framan húsið. Húsið var reist af Thor Jensen. Óþörf þolmynd. Thor Jensen reisti húsið. Thor Jensen keypti kotið Korpúlfsstaði. Tugir vinnufólks og vélar breyttu melum í iðgræn tún . Thor Jensen reisti þar stærsta bú landsins og jafnvel þótt víðar væri leitað. Í síðustu setningunni segir : … þegar hafið var að byggja húsið. Betra: … þegar bygging hússins hófst. Ekki mjög gott.
Það var góð tilbreyting hjá Ríkissjónvarpinu að tilkynna fyrirfram við hvern yrði rætt í Þætti Þórhalls Gunnarssonar Í návígi (01.02.2011). Þetta hefur oft verið nefnt í Molum. Það er engin ástæða til að halda því leyndu fyrir áhorfendum við hvern á að ræða og greina ekki frá því fyrr en þátturinn hefst. Vonandi verður framhald á.
Skildu eftir svar