«

»

Molar um málfar og miðla 567

Morgunblaðið  birti fyrst fjölmiðla (26.03.2011) frétt  um  tilraun til að smygla til landsins  miklu magni  eiturlyfja. Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins sama dag var sagt frá þessu  og þess getið í framhjáhlaupi, að komið hefði fram í Morgunblaðinu, að fólkið sem að  smyglinu stóð væri íslenskt. Þetta var ómerkilegt hjá  fréttastofu Ríkisútvarpsins. Ríkisútvarpið hefði átt  unna Morgunblaðinu þess að láta þess getið að Morgunblaðið hefði verið fyrst til að segja frá þessu.

Í fréttinni um smygltilraunina las fréttamaður Ríkisútvarpsins hikstalaust: Yfirtollvörðurinn á Keflavíkurflugvelli segir  fundinn einn sá stærsta….. Glöggir  fréttamenn sem  hlusta á eigin lestur eiga að heyra  þegar þeir láta sv ona ambögur sér um munn fara. Yfirtollvörðurinn sagði fundinn einn  þann stærsta…, eða: Yfirtollvörðurinn sagði að fundurinn væri einn sá stærsti…

Molaskrifari veltir því fyrir sér hvort hægt sé að tala um lýðheilsu fólks, eins og viðmælandi  fréttastofu Ríkisútvarpsins gerði (25.03.2011)

Það er alvarleg ásökun, þegar formaður  Bændasamtakanna heldur því fram í fréttum Ríkisútvarpsins (25.03.2011) að skýrsla  Ríkisendurskoðunar um  samskipti  ríkisvalds og hagsmunasamtaka  bænda, sé pólitískt  plagg. Einhver hlýtur  að bregðast við.

Molaskrifari er orðinn leiður á að hlusta á  eilífar fréttir af heilsufari íþróttamanna í ýmsum greinum  og endalausar  romsur um ráðningar  þjálfara innanlands og utan.  Varla getur verið  að meirihluti þjóðarinnar lifi og hrærist  með þessum málum. Getur ekki  hin fjölmenna íþróttadeild  Ríkisútvarpsins bara haldið þessu fyrir sig?

Framkvæmd losun annarra hafta verður svo ákveðin  ….  sagði fréttamaður Stöðvar tvö (25.03.2011) Hér hefði   átt að segja:  Afnám annarra hafta verður  svo ákveðið…. Í  sama fréttatíma var rætt við  Norðmann, sem var vel mæltur á íslensku, – talaði  mjög  góða  íslensku. Þú talar  alveg svakalega fína íslensku, sagði fréttamaður. Molaskrifara fannst ekkert svakalegt við  góða íslenskukunnáttu Norðmannsins. En þetta þykir nú líklega  vera nöldur !

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>