«

»

Molar um málfar og miðla 586

 

Sennilega er Ríkissjónvarpið óstundvísasta sjónvarpsstöð norðan Alpafjalla. Tvö kvöld í röð hafa  tíufréttir ekki hafist á auglýstum tíma. Þetta hefur margsinnis  verið að umtalsefni hér.  Í fyrrakvöld (13.04.2011) bað Bogi Ágústsson  áhorfendur afsökunar á seinkuninni.  Í gærkveldi (14.03.2011) hófust  tíufréttir  klukkan átta mínútur yfir tíu. Enginn bað okkur afsökunar.  Það er  einfalt  mál að tilkynna fréttaseinkun með skjáborða. Það gera  alvörusjónvarpsstöðvar. Í Efstaleitinu  virðist enginn  áhugi á því að sýna okkur áhorfendum  kurteisi. Við skiptum ekki máli.

Það var gaman að hlusta á fjórar konur ræða pólitíkina í Kastljósi (14.04.2011). Katrín Jakobsdóttir kom vel fyrir að vanda, Siv  var  hreinskilin, en  varaformaður Sjálfstæðisflokksins   átti erfitt með að komast upp úr  gömlu hjólförunum. En ósköp er þetta sífellda þjóðstjórnartal  sumra  fjölmiðlamanna  þreytandi. Þjóðstjórn er  svona  stríðstímafyrirbæri.

Í  auglýsingum Ríkissjónvarps  er talað um að heppinn viðskiptavinur  sé   dreginn út  vikulega.  Molaskrifari teldi sig ákaflega óheppinn,  ef hann væri dreginn út.

Nefnifallsjúklingurinn gengur enn  laus um lyklaborðin á mbl.is. Þetta er frá í dag (14.04.2011): Einn af fjórum kjarnaofnum í tékknesku kjarnorkuveri var lokað í dag eftir að bilun kom upp í honum.  Hér ætti að standa :  Einum af fjórum …. Það er einhver bilun komin upp hjá mbl.is.

Fréttamaður  Ríkissjónvarps  talaði (14.04.2011) um hin ýmsu veðurbrigði. Molaskrifari kannast  ekki við orðið veðurbrigði. Orðið veðrabrigði þýðir hinsvegar  breytingu á veðri. Talað er um snögg veðrabrigði, þegar veður breytist skyndilega. Líklega  hefur fréttamaður átt við  óstöðugt veðurfar undanfarna daga,  eða  breytilegt veður.

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Glúmur skrifar:

    Á strætisvögnum blasir við auglýsingin:
    „Settu andrúmsloftið í forgang.“

    Nafnorðasýki þeirra sem eru betri í ensku en íslensku.

    Þeir sem víkja fyrir strætisvögnum láta þá njóta forgangs.

  2. Glúmur skrifar:

    Stöð 2 – sjónv. – sagði í fréttum í gær að fleiri „strokkar“ (skýstr.) væru á leiðinni til Florída.
    Á báðum stöðvunum varð mönnum skrafdrjúgt um „grannmeti“ sama kvöld.

    Þettar eru framburðarbreytingar sem hljótast af styttingu sérhljóða á 1. atkvæði og mun fækka orðum í málinu um tveggja stafa prósentutölu verði ekki brugðist við.

  3. Eiður skrifar:

    Í pistlinum hér að ofan á að sjálfsögðu að standa: … verið gert að umtalsefni….

  4. Hjalti Þórðarson skrifar:

    Þakka þér Eiður, ég saknaði pistla þinna en var hættur að fara á Eyjuna eftir eigedaskiptin.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>