«

»

Molar um málfar og miðla 605

Úr sófanum heima fylgdist Molaskrifari með  opnunarhátíð Hörpu í beinni útsendingu frá upphafi til enda. Það var í senn stórkostleg og ógleymanleg upplifun, þótt ekki  höfðaði  allt, sem þar var flutt,   til  tónlistarsmekks  skrifara, – enda   enginn vegur að gera kröfu um slíkt.  Allt  var gott og margt frábært. Helst hefði mátt missa sín hálfgert Evróvisjónatriði Memfismafíunnar. Það kunni Molaskrifari ekki að meta.  En öðrum hefur sjálfsagt fundist það bera af !

  Það er ekki heiglum hent að stjórna útsendingu svona flókinnar  dagskrár. Þrátt fyrir smávægilega hnökra verður ekki annað sagt en upptökustjórinn, Helgi Jóhannesson hafi komist  afburða vel  frá   mjög  erfiðu verki. Takk fyrir það. Gaman  var að fá  svolitla upprifjun á byggingarsögu Hörpu, en skrítið var að sjá  alla  sitja sem fastast  meðan  Víkingur Heiðar  lék þjóðsönginn í hálfbyggðu húsinu !  Í heildina  mjög gott.

  Þær stöllur,sem kynntu  og ræddu við  fólk voru glæsilegar svo sem hæfði tilefninu. Því miður  er það stundum svo að  fréttafólk sýnir  viðburðum og viðstöddum  ekki tilhlýðilega kurteisi í klæðaburði. Svo var sannarlega ekki að þessu sinni. Hrós fyrir það.

Opnunarhátíðin  varð lengri en ætlað var í dagskrá.  Um það bil 40 mínútum lengri.  Lítið  við því að segja. Ríkissjónvarpið  hefði þó átt að biðjast  afsökunar á  seinkuninni og tilkynna  hana  á skjánum. Óskiljanlegur, en bara venjulegur dónaskapur að gera það  ekki.  Í kjölfar þessarar  góðu dagskrár kom svo þessi venjulega ameríska  þriðja flokks  dellumynd,sem  Ríkissjónvarpið hellir  yfir  þjóðina á hverju  einasta laugardagskvöldi. Eina breytingin var sú að nú var þetta sýnt á föstudagskvöldi ! Efni af þessu  tagi á að sýna síðdegis, ef  Ríkissjónvarpið á annað borð  telur það  sýningarhæft. Líklega er Ríkissjónvarpið  eina  nauðungaráskriftarstöðin,sem sýnir barnaefni klukkan ellefu  á  föstudagskvöldum. Seinkun  dagskrárinnar  olli því að snillingurinn Barnaby, sem er úrvalssjónvarpsefni, komst ekki á skjáinn  fyrr en undir miðnætti og  hafa því áreiðanlega margir  farið á mis við  þann góða mann.

Morgunblaðið ver kvótakerfið og  kvótagreifa með kjafti og klóm í leiðara (13.05.22011). Það er ofur eðlilegt.  Útgáfa blaðsins hvílir á  kvótakerfinu. Það er rekstrargrundvöllur  Moggans.

Í auglýsingu á baksíðu Fréttablaðsins (1133.05.2011) um íslenskt grænmeti segir: … sem rækta plómutómata allt árið um kring… Hér hefði  dugað að segja  árið um kring, eða allt  árið. Ekki allt árið um kring.

Úr mbl.is (13.05.2011): Lögregla höfuðborgarsvæðisins telur líklegt að tvítuga stúlkan, sem ungur karlmaður kom með látna að Landspítalanum í gærkvöldi, hafi verið ráðinn bani í Heiðmörk,..  Einföld atriði vefjast fyrir mönnum á mbl.is. Einhver  er ekki ráðinn bani. Einhverjum er ráðinn bani. Þessvegna ætti að standa hér:  … telur líklegt að  tvítugu stúlkunni…. hafi verið ráðinn bani. 

Fyrir nokkrum dögum heyrði Molaskrifari ávæning af samtali útvarpsstjóra Útvarps Sögu við  tvo lögmenn frá   fyrirtæki,sem annað hvort  heitir Lagarök eða  Lagakrókar. Man ekki hvort heldur er. Í viðtalinu var þrástagast á því að byggingarkostnaður tónlistarhússins Hörpu væri orðinn 37 milljarðar króna. Um þetta  var lengi  fjasað.  Allir vita að  Harpa var dýr. Molaskrifari minnist þess að hafa heyrt  töluna  27 milljarða. Ekki 37 milljarða. Þessir tveir lögmenn og útvarpsstjórinn vissu greinilega ekki mikið um málið.  En það er nú þannig  með  suma  fjölmiðla, að þetta þarf ekki að vera svo nákvæmt. Tíu milljarðar til  eða  frá  skipta ekki svo miklu máli.

12 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Má vera að ýmsum finnist þetta orka tvímælis. Mér finnst það samt skásti kosturinn.

  2. Aðalsteinn skrifar:

    Sælir.
    Af og til dett ég inn á síðuna hjá þér og hef yfirleitt gaman af.
    Eitt stakk þó svolítið í augu við að lesa þennan pistil, það er þegar þú skrifaðir „hálfgert Evróvisjónatriði Memfismafíunnar“. Mér finnst afskaplega bagalegt þegar verið er að hálfþýða orð. Annað hvort eiga menn, að mínu áliti, að segja eurovision eða þá að nota ambögur eins og evrósýn (sem er að vísu slæmur kostur).

  3. Lúðvík Júlíusson skrifar:

    Ólafur, það er nú svo að það er ríkisábyrgð á framkvæmdunum vegna Hörpu sem gerir það að verkum að lánsfé leitar frekar í það verkefni en í einkageirann. Það gerir það einfaldlega að verkum að framboð á lánsfé dregst saman og vextir hækka. Það hlýtur að vera fagnaðarefni fyrir þá sem finnast vextir hafa verið of lágir hingað til.

    Ávinningurinn af Hörpu verður að bera saman við þann ávinning sem landið hefði annars fengið af meiri veltu og atvinnu í einkageiranum, jafnvel í úflutningsstarfsemi og ferðaþjónustu.

    Vonandi verður það skoðað á næstu árum.

  4. G skrifar:

    Ég er krati eins og þú Eiður.Og ég kann að meta skrif þín yfirleitt. Fannst líka helv. gaman að horfa á tónleikana í gær (í sjónvarpinu). En er sammála því að þarna var boðið elítunni. Afhverju var ekki hægt að draga svona 50% af gestunum úr þjóðskrá þannig að þjóðin gæti verið sátt. Í lagi að bjóða einhverjum Björgúlfum líka – mín vegna – en einhverjir af okkur Jónunum hefðu gjarnan mátt vera þarna líka.

  5. Ólafur Sveinsson skrifar:

    Svo spáir enginn í arðinn?

  6. Ólafur Sveinsson skrifar:

    Lúðvík.
    Þessar 27 milljarðar ver’ða greiddir upp upp með 900 milljóna framlagi Ríkis og Borgar næstu 35 árin. Eins of vonir standa til og ábendingar vísa á, þá á rekstur að standa undir sér. Fullbókað til 2015? Eftir að hafa greint hyskið á myndum, sem mætti í gær, þá setur í mann hroll. Ég byrjaði að safna á opinberan söfnunarreikning fyrir 20 árum, þeirri von að tónlistarhús mundi rísa í framtíðinni. þessi sjóður varð aldrei stór, en hún varð þó til staðar þegar hafist var handa.

  7. Lúðvík Júlíusson skrifar:

    varðandi kostnað vegna Hörpu þá eru þær tölur sem ég hef heyrt 27 milljarðar fyrir húsið og 6 milljarðar fyrir frágang lóðar og gatnagerð. Svo má ekki gleyma hinum árlega milljarði sem Harpa fær á hverju ári frá Reykjavíkurborg og ríkinu.

  8. Eiður skrifar:

    Sá hana svona útundan mér og dró þá ályktun, – í fljótfærni að þetta væri sama ameríska ruslið og Ríkissjónvarpið sífellt hellir yfir okkur á besta sýningartíma um helgar. Aðalgagnrýnin var á sýningartímann,sem var fáránlegur.
    Varðandi útsendinguna úr Hörpu þá dettur mér alltaf sparisjóðurinn Byr og bullið um fjárhagslega heilsu í hug, þegar ég sé Pál Óskar á skjánum. Hann eyðilagði sig á því að selja sig í auglýsingar.

  9. Axel skrifar:

    Enn og aftur dæmir Eiður kvikmyndir án þess að horfa á þær. Myndin var augljóslega bresk og hefur fengið ágætis dóma. En vissulega var hún full seint á dagskrá. Varðandi tónlistarflutningin stóðu flestir sig vel að mínum dómi – fyrir utan Dikta þar sem söngurinn var hreinlega slakur.

  10. Ólafur Sveinsson skrifar:

    Íþróttir m.m.
    Það sýnir metnaðarleysi RÚV, að árið 2011, er aðeins ein rás til ráðstöfunar.
    Er til skammar. Meðferð og metnaðarleysi útvarpssjóra á fréttastofunni, er einnig til skammar.

  11. Eiður skrifar:

    Hugarheimur barnsins er á sínum stað. Tíminn fyrir barnaefni er ekki klukkan ellefu á föstudagskvöldum. Þá eiga börn að vera farin að sofa.

  12. Ólafur Sveinsson skrifar:

    „Í kjölfar þessarar góðu dagskrár kom svo þessi venjulega ameríska þriðja flokks dellumynd,sem Ríkissjónvarpið hellir yfir þjóðina á hverju einasta laugardagskvöldi.“ Í fyrsta lagi. Myndin var ensk. Öðru lagi. Hvar er hugarheimur barnsins, hjá þér Skeggjagötu strákur?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>