«

»

Molar um málfar og miðla 609

Magnað og áhrifamikið Kastljós (20.05.2011). Vel gert, Sigmar og Jóhannes.  Vonandi  hefur margt ungt fólk verið í hópi áhorfenda.  Þennan þátt mætti gjarnan endursýna nokkrum sinnum.

Úr mbl.is (17.05.2011): Maður sem var að reyna að bjarga hundi sínum lifði af um 60 metra fall niður klett í norðausturhluta Bretlands. Undarlegt orðalag að tala um  fall niður klett.  Maðurinn hefur annað hvort  hrapað í fjallshlíð  eða  fram af hömrum.

Björguðu hundruð innflytjenda, segir í fyrirsögn á mbl.is (17.05.2011). Þarna hefði átt að standa: Björguðu hundruðum innflytjenda.

Úr mbl.is (18.05.2011): Þá er lagt til að nýr valmöguleiki komi til þar sem heimilt verði að versla einungis öl, samtals tólf lítra. Sá blaðamaður  mbl.is, sem skrifaði þessa frétt skilur ekki muninn á sögnunum að kaupa og versla. Það er slæmt. Afar slæmt.

Íslenski félagaskiptaglugginn lokaði… sagði íþróttafréttamaður Ríkisútvarps (17.05.2011) Hverju lokaði glugginn? Var ekki glugganum lokað? Annað íþróttagullkorn úr Ríkissjónvarpinu sama dag. Sagt var um erlendan knattspyrnumann, að hann væri nýkominn úr meiðslum.  Væntanlega var átt  við, að hann væri nýbúinn að ná sér eftir meiðsli.

Líklega  var verið að tala  við  fulltrúa  Símans um   Útgáfu Símaskrár (18.05.2011) í endurteknum þætti á  einhverri  útvarpsstöðinni, þegar hlustendum var sagt að  bókin væri gjaldfrjáls !  Hvað varð um hið ágæta orð ókeypis?  Er það annars ekki  dálítið merkilegt að  notað  skuli hálfnakið  vöðvabúnt  til að  auglýsa  Símaskrána? Umfram allt er það kannski hallærislegt, því forsíðumyndin er ljót.

Í fréttum Stöðvar tvö (18.05.2011)  var sagt frá  flugvél,sem lenti á flugvellinum á  Vestmannaeyjum. Það  er svo fast í málinu á  segja í Vestmannaeyjum , að það þarf verulegan skort á máltilfinningu til að taka  svona  til orða.

Nokkrar ambögur gátu sæmilega glöggir hlustendur heyrt í   sjöfréttum Ríkissjónvarps (18.05.2011). Þar var sagt: …. skólanum hefur reglulega verið lokað vegna bardaga  í grenndinni. Ekki mjög vel orðað. Fréttamaður  sagði…. gegn því að fá úthlutaðan kvóta. Betra hefði verið: Gegn því að fá úthlutað kvóta…. Sauðburður stendur nú sem hæst yfir hjá bændum,  sagði fréttaritari.  Þetta hefði annaðhvort átt að vera: Sauðburður stendur nú sem hæst  hjá bændum, eða: Sauðburður stendur nú yfir hjá bændum.  Svo finnst Molaskrifara það orka tvímælis að tala um hjólreiðakeppni sem kappakstur eins og gert  var í þessum fréttatíma.

 Kærar þakkir til þess eða þeirrar sem valdi tónlistina á  Rás eitt milli klukkan sjö og átta í morgun (21.05.2011). Líklega var þar að verki  sá ágæti þulur Sigvaldi Júlíusson. Takk.

Ríkissjónvarpið heldur uppteknum hætti og sýnir okkur barnamyndir  frá Disney á besta tíma á  föstudagskvöldum (20.05.2011) . Ótrúleg dagskrárgerð. Enn hafa útsendingarstjórar Ríkissjónvarpsins ekki lært á klukku. Í gærkveldi (20.05.2011) byrjaði prýðilegur Taggart næstum  tíu mínútum of seint. Rás eitt er óaðfinnanlega stundvís, sama má líklega segja um Rás tvö, en Ríkissjónvarpið heldur áfram að vera óstundvísasta sjónvarpsstöð norðan Alpafjalla. Hversvegna þetta kæruleysi og subbuskap ?

Hvort sem það eru konur, börn, eða menn, heyrði Molaskrifari þingmann segja í ræðustóli Alþingis (19.05.2011). Betra hefði verið að segja: Hvort sem það eru konur,börn eða karlar. Samkvæmt íslenskri málvenju fornri eru konur menn. Sumar konur eiga erfitt með að kyngja því.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>