Í fréttum Ríkissjónvarps (29.07.2011) var sagt að formaður Stjórnlagaráðs hefði í dag afhent forseta Íslands frumvarp til nýrrar stjórnarskrár. Í fréttinni sást að það var forseti Alþingis sem tók við plagginu. Forseti Íslands kom ekkert við sögu. Ekki heyrði Molaskrifari að þetta mishermi væri leiðrétt í fréttatímanum. Á vef Ríkissjónvarpsins var hljóðið hinsvegar þurrkað út í upphafi fréttarinnar þar sem villan var. Þetta eru svolítið undarleg vinnubrögð.
Dagskrárauglýsing í Ríkissjónvarpinu um Rás tvö á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum (29.07.2011) er líka áfengisauglýsing (Tuborg). Stjórnendur Ríkisútvarpsins telja sig ekki þurfa að fara að lögum. Hversvegna taka yfirmenn stofnunarinnar í stjórnkerfinu ekki í taumana? Hversvegna eru linnulaus lögbrot látin viðgangast?
Úr mbl.is (27.07.2011): Fjöldi þeirra, sem saknað er … hefur lækkað úr 5 í 1 að sögn norsku sjónvarpsstöðvarinnar, Fjöldi lækkar ekki , tölur lækka. Hér hefði til dæmis mátt segja. Færri er nú saknað en áður var talið … Að auki hefði átt að skrifa tölurnar með bókstöfum, ekki tölustöfum. Um töluorð og tölustafi geta fréttamenn lesið sér til í prýðilegri Handbók um íslensku (2011) bls. 243-248. Þeirri bók verða gerð skil á þessum vettvangi síðar.
Þágufallssýkin herjar á dv.is: Þrátt fyrir að hafa verið sviptur þessum 192 milljónum ætti Baldri ekki að muna um þær því samkvæmt útreikningum … ætti Baldur ekki að muna um þær, ætti að standa hér.
Leitt er að heyra fréttamenn flaska á einföldum grundvallaratriðum eins og fréttamaður Stöðvar tvö gerði (29.07.2011) er fjallað var um aðstoð við sveltandi fólk í Sómalíu. Fréttamaðurinn talaði um fé sem sent hefði verið úr neyðarsjóð stofnunarinnar (Rauða krossins). Úr neyðarsjóði, hefði hann betur sagt.
Valur Höskuldsson sendi eftirfarandi og þakkaði umfjöllun Mola um móðurmálið: ,,Á forsíðu tímaritsins Nýs lífs stendur með stóru letri ,,stelpur fíla líka Burger og Bjór” þá vitum við að Nýtt líf fílar ekki vandað mál.
Í DV á vefnum er sagt frá óðalshúsi í eigu Íslendinga í Danmörku er virðist ekki skorta fé eftir hrunið. Og er þar sagt að húsið sé 3.835 m2 að stærð. Og skoðaði ég þá betur stækkaða mynd af húsinu, og sá bara snoturt lítið sveitasetur er gæti verið um 300 – 400 m2. Þannig að ég athugaði fréttina betur á danska vefnum og þar stendur að húsið sé á 3.835 m2 Grunden og Grunden er lóðin sem húsið stendur á … en ekki stærð hússins. Þetta er því mjög léleg fréttamennska að rugla saman stærð húss og lóðar. Í mörgum fréttum frá Noregi síðustu daga hefur í textavarpinu ítrekað verið sagt að fjöldamorðin hafi verið ,,alþjóðlegur harmleikur” , og er ég ekki sáttur við það orðalag , því þetta var bara þjóðlegur harmleikur í Noregi. Oft finnst manni að fréttamenn á Ríkisútvarpinu þekki hvorki né skilji móðurmálið og noti bara hin og þessi orð er þeir ,,halda” vera rétt mál.
Þannig er með orðin þrjú .. æpa,hrópa,öskra og notaði fréttamaður orðið æpa svona : Æpandi óréttlæti í stað þess að segja hrópandi óréttlæti. Nóg í bili.” Molaskrifari þakkar sendinguna.
Egill sendir eftirfarandi úr bloggi konu sem kallar sig Tobbu Marínós og skrifar á DV-bloggið: Ég er farin að tríta mig á Tene í tilefni þess að þriðja barnið er fætt ! Bubbi og Monni sjá um heimilið og ég verð með nokkra dólga í Eyjum og á öðrum tjaldsvæðum til að ríporta all the gossip þegar ég kem heim – so behave people ! Gleðilega verslunarmannahelgi! Luv Tobba. – Molaskrifara varð orðfall. Þetta er hrognamál.
Í Fréttablaðinu (27.07.2011) er smáfrétt um að fólk hafi kvartað til Neytendastofu vegna svokallaðra tax-free daga Hagkaupa (sem oft hafa verið nefndir hér). Hagkaup þykist veita afslátt sem nemur virðisaukaskattsprósentunni, 25,5% , en afslátturinn reyndist aðeins vera 20,32%. Neytendastofa gerir athugasemd við þetta, en gerir hinsvegar enga athugasemd við það Hagkaup ljúgi því að neytendum, að fyrirtækið afnemi virðisaukaskattinn. Það getur ekkert fyrirtæki afnumið virðisaukaskattinn.
Undarlega lítil hugsun er að baki þessum skrifum á mbl.is (27.07.2011): Málamiðlun til að ná samkomulagi um hækkun skuldaþaks ríkissjóðs Bandaríkjanna er bæði „nauðsynlegt og mögulegt“ að mati … Um þetta þarf ekki að hafa mörg orð.
Í fréttatíma Stöðvar tvö (27.07.2011) var talað um þjóðhátíðina í Eyjum. Þar var sagt að samgöngur væru að seljast upp og svo ætti að gangsetja mannvirki! Það var ekki fréttamaður,sem svona undarlega tók til orða, heldur heimamaður í Eyjum.
Í fréttatíma Ríkissjónvarpsins (27.07.2011) var sagt : … þannig tókst að bjarga lífum ekki færri en 40 ungmenna. Þarna hefði verið betra að segja: … þannig tókst að bjarga lífi að minnsta kosti 40 ungmenna.
Ekki jók þátturinn Andri á flandri hróður Ríkissjónvarpsins í kvöld (29.07.2011).
8 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Egill skrifar:
31/07/2011 at 17:23 (UTC 0)
Ég er sammála Franz, ég skemmti mér yfir félögunum Andra og Tómasi. En það stakk mig að typpasafnið skuli vera kallað „Reðasafn“. Skv. beygingu íslensks nútímamáls http://bin.arnastofnun.is/leit.php?q=reður segir að reður í eignarfalli ft. sé: „reðra“. Ætti safnið því ekki að heita: „Hið íslenska reðrasafn“?
Eiður skrifar:
30/07/2011 at 19:48 (UTC 0)
Mát!
Þorvaldur Sigurðsson skrifar:
30/07/2011 at 19:31 (UTC 0)
Málið snerist m.a. um hvort rökrétt væri að segja: „Þúsundir manna misstu heimili sín“ og taldi ég að þar sem fæstir ættu nema eitt heimili væri erfitt að bjarga mörgum heimilum á mann og því eðlilegra að segja „Þúsundir manna misstu heimili sitt“. Það er nákvæmlega sambærilegt við að bjarga lífum eða lífi margra manna.
Eiður skrifar:
30/07/2011 at 16:56 (UTC 0)
Já, en ekki er þetta nú alveg sambærilegt, minnir mig.
Þorvaldur Sigurðsson skrifar:
30/07/2011 at 15:41 (UTC 0)
„Í fréttatíma Ríkissjónvarpsins (27.07.2011) var sagt : … þannig tókst að bjarga lífum ekki færri en 40 ungmenna. Þarna hefði verið betra að segja: … þannig tókst að bjarga lífi að minnsta kosti 40 ungmenna.“
Það gleður mitt gamla hjarta að sjá þetta. Þarna fer málvitund mín og Eiðs saman og ánægjuríkt að sjá að eitthvað virðist hann hafa slakað til, sbr. samræður okkar fyrir nokkrum vikum.
Gísli skrifar:
30/07/2011 at 05:00 (UTC 0)
Ef vara kostar 1000 kr. fyrir VSK kostar hún 1255 með VSK. Ef varan er lækkuð niður í 1000 kr. samsvarar það því að virðisaukaskatturinn sé afnuminn. En þetta er engu að síður aðeins 20,32% lækkun. Ég held ekki að þetta sé spurning um að Hagkaup sé að snuða neytendur, heldur að neytendur kunni ekki prósentureikning. Ef vara er hækkuð um 25,5% og svo lækkuð aftur um 25,5% kemur ekki sama tala út. Þetta ættu allir að vita. Hitt er svo annað mál að það er asnalegt af fyrirtækinu að nota ensku þegar þessi afsláttur er auglýstur.
Eiður skrifar:
29/07/2011 at 23:58 (UTC 0)
Nei, ég er greinilrega ekki í því sem þú kallar markhópinn. Mér finnst þetta í senn ófyndið og hallærislegt.
Franz Gunnarsson skrifar:
29/07/2011 at 23:50 (UTC 0)
„Ekki jók þátturinn Andri á flandri hróður Ríkissjónvarpsins í kvöld (29.07.2011).“
Andri á flandri er með því skemmtilegra sem Ríkissjónvarpið hefur látið framleiða í áraraðir. Þú ert sennilega ekki í markhópnum og því ekki hress með þáttinn.
Kveðja
Franz