Í ruslpóstinum sem kom inn um lúguna hjá Molaskrifara á mánudagsmorgni var pési frá fyrirtæki sem nefnist Íslenska hamborgarafabrikkan. Aðalgreinin á forsíðu hefst á þessum orðum: ,,Hamborgarafabrikkan hefur frá upphafi tekið afstöðu með Íslandi og öllu sem íslenskt er.” Þetta væri nú svo sem allt í lagi ef fyrirsögnin þvert yfir forsíðuna væri ekki: Móðurmálið,,rúlar” . Svo er orðið fabrikka reyndar engin gullaldaríslenska.
Svei mér þá, ef Ingólfur Bjarni var ekki á undan BBC One sjónvarpinu með jarðskjálftafréttina að vestan í sexfréttum Ríkisútvarpsins (23.08.2011). Prik fyrir það.
Molavin sendi: ,,Flugdólgur hótaði að stinga flugstjóranna, segir í fyrirsögn á visir.is í dag, þriðjudag (23.08.2011) og er ekki innsláttarvilla, því þetta er ritað svona þrisvar í fréttinni. Fyrir utan þá staðreynd að einungis er einn flugstjóri í hverri vél, þá er það lágmarkskrafa, sem verður seint of oft borin fram, að fréttamenn kunni að rita móðurmálið. Orðið ,,flugstjóri´´ er í eignarfalli fleirtölu m. greini *flugstjórana* – með einu n-i.”
Í fréttum um liðna helgi var sagt að loknum útitónleikum á Arnarhóli hefði hafist hefðbundið skemmtanahald í miðbænum. Kannski hefði átt að segja hefðbundið helgarfyllerí sem breytir miðborginni í einskonar vitleysingavígvöll þar sem enginn er í raun óhultur, fólk hendir rusli þar sem það stendur og margir skemmta sér við að abbast upp á ókunnugt fólk.
Bjarni Sigtryggsson sendi eftirfarandi: ,, Sæll. Í framhaldi af fyrri sendingu (Molar 692) , þá er hér dæmi um „eftir-áráttuna“: „Karlmaður lést eftir að hann féll 60 metra til jarðar eftir að hafa reynt að fara úr flugvél yfir í þyrlu…“ Af dv.is.
Ég býst við því að hann hafi látizt er hann féll til jarðar.” – Molaskrifari þakkar sendinguna.
Glöggur Molalesandi sendi eftirfarandi (22.08.2011): Hvers heimtar Guð af okkur? Flutt 22. ágúst 2011 í Keldnakirkju. Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. Hvers heimtar Guð af okkur? Þetta er tekið orðrétt af vefnum tru.is. Sendandi bætti við: Þessir ungu prestar !. Ja, hérna.
Páll Svansson sendi Molum eftirfarandi: ,,Í frétt á vísi.is þann 19. ágúst síðastliðinn er greint frá því þegar fjölmargir ökumenn héldu frá Smáratorgi í Kópavogi til Reykjavíkur. Niðurlag fréttarinnar er þó eitthvað skrýtið;
„Keyrt verður á löglegum hraða alla leið til að sýna þar með gott fordæmi, og fólk eigi að taka mark á takmörkuðum hámarkshraða.“
Hvað er takmarkaður hámarkshraði?
http://visir.is/fjoldi-okumanna-minnast-eythors-darra/article/2011110818768
Önnur frétt á sama miðli um hákarlaárásir við strendur Seychelleseyja er líklega skólabókardæmi um hvernig sumum erlendum fréttum er snúið yfir á íslensku og útkoman verður hrærigrautur. Orðin ein og sér eru jú íslensk en málfarið líkist ekki íslensku. Dæmi:
„Heimamenn á Seychelles eyjum telja að sami hákarlinn hafi verið að baki báðum þeim árásum sem dregið hafa tvo menn til dauða á eyjunum í þessum mánuði.“
Standa hákarlar yfirleitt að baki einhverju? Þegar eitthvað dregur menn til dauða tekur það í mínum skilningi lengur en örfáar mínútur!
Fréttin heldur áfram:
„Yfirvöld Seychelles eyja vinna nú að því að finna hákarlinn, sem talið er að beri ábyrgð á báðum árásunum. Samkvæmt sérfræðingi sem Sky fréttastofan ræddi við í dag er hákarl sem hefur bragðað mannablóð eða tapað ótta sínum við menn, afar líklegur til að ráðast aftur á manneskjur.“
Hákarl ber ábyrgð? Tapað ótta sínum? Margar fleiri ambögur er að finna í þessari frétt, svo sem fyrirsögnin sjálf – hér er tengillinn:
http://visir.is/telja-ad-sami-hakarlinn-hafi-verid-ad-baki-badum-arasum/article/2011110819050” – Kærar þakkir , Páll.
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Kristian Guttesen skrifar:
27/08/2011 at 21:36 (UTC 0)
„Orðið ,,flugstjóri´´ er í eignarfalli fleirtölu m. greini *flugstjórana* – með einu n-i.”
Þetta er ekki rétt. Hins vegar er það með einu n-i í þolfalli fleirtölu m. greini, sem er ef til vill það sem Molavin vildi sagt hafa.