«

»

Molar um málfar og miðla 720

Frumskylda blaðamanna er að fara rétt með staðreyndir og nöfn. Í frétt í Fréttablaðinu (22.09.2011) um byggingu svokallaðrar Þorláksbúðar sem Árni Johnsen sem er að láta reisa við vegg dómkirkjunnar í Skálholti er farið rangt með tvö nöfn. Áslaug Guðrún Harðardóttir, dóttir Harðar Bjarnasonar sem teiknaði kirkjuna er kölluð Ágústa. Sigurbjörn Einarsson biskup er kallaður Sveinbjörn. Þetta eru ekki vönduð vinnubrögð. Fréttinni fylgdi hinsvegar prýðileg mynd af moldarhrúgaldinu við kirkjuvegginn í Skálholti.

Lesandi sendi Molum eftirfarandi (20.09.2011):
,,Sú sem þetta sagði var að grínast með orðalag sem margir karlar úr hópi íþróttaþjálfara hafa notað.

„við erum áfram í farþegasætinu“
„þjöppum okkur saman í andlitinu“
„hafa skort á einbeitingaleysi“
„stelpurnar ætla allar saman að leggja árar í bát“

,,Stemmningin er gríðarlega góð, við erum áfram í farþegasætinu og ætlum bara að halda okkur þar. Vonandi getum við fylgt eftir góðum sigri á Noregi og unnið Belgíu og fengið þrjú góð stig,“
Liðið átti góðan leik í 3-1 sigri gegn Noregi á laugardaginn og Margrét Lára var spurð hvort liðið yrði ekki að spila eins og þá til að ná góðum úrslitum á morgun.

,,Það er engin spurning. Ef við náum að halda víddini og spila vel eins og við gerðum í fyrri hálfleik í síðasta leik þá getum við vel unnið Belgíu. En við byrjuðum seinni hálfleikinn á móti Norðmönnum ekki nægilega vel, en þjöppuðum okkur bara vel saman í andlitinu um miðjan seinni hálfleik og þá fóru hlutirnir að gerast aftur og við kláruðum leikinn vel.“

Belgar eru á pappírunum veikari andstæðingur en lið Noregs. En það má þó ekki búast við auðveldri viðureign á morgun.

,,Það þýðir ekkert að hafa einhvern skort á einbeitingaleysi á morgun. Við verðum bara að halda fókus og mæta með jafn mikinn sigurvilja og baráttu í þennan leik eins og við gerðum á laugardaginn.“

Hún sagði að liðið vonaðist eftir góðum stuðningi á morgun.

,,Ekki spurning. Við pressum á fólk að mæta og við stelpurnar ætlar allar saman að leggja árar í bát og reyna að keyra yfir Belgana eins og við náðum með góðum leik á laugardaginn á móti Norðmönnum.“
Molaskrifari þakkar sendinguna.

Egill sendi eftirfarandi (21.09.2011): „Þetta VILL ég að þú gerir fyrir mig“, sagði Andri Freyr Viðarsson á Rás 2 áðan. „Ég vil …“ fyrsta persóna, nefnifall, eintala. Svona lagað á ekki að heyrast í Ríkisútvarpinu!” Það hefur ansi mikið verið slakað málfarskröfum í Efstaleiti. Málstefna Ríkisútvarpsins virðist fremur til skrauts en brúks.

7 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kannski er enn verið að vinna úr umsóknum. Vonandi finna þeir hæfan mann.

  2. Eiður skrifar:

    Hjó eftir þessu líka. Vinnu við háspennulínu hefði þetta átt að vera.

  3. Eiður skrifar:

    Það hélt ég nú reyndar líka.

  4. Jón Sveinsson skrifar:

    Eða þá þetta Eiður, sem er á mbl.is nú í kvöld.
    Þar er haft eftir Vladimir Putin : Norðurskautið er viðkvæm vera.
    Ég sem hélt að verur væru einhver lifandi fyrirbrigði í dýraríkinu !!!!

  5. Jón Sveinsson skrifar:

    Ja hérna hér var einhverntíman sagt. Þetta kom mér í hug þegar tilknningar voru lesnar í RÚV nú í kvöld.
    Er Landsvirkjun búin að ráð a til sín línudansara ?
    Tilkynningin var á þessa leið að rafmagnslaust væri …..Borgarfirði vegna vinnu á háspennulínu. Þeir hljóta að vera hugaðir þeir sem láta sig hafa það að vera á svonu slakri línu !!!!!

  6. Selma Samúelsdóttir skrifar:

    Góðan dag Eiður.
    Þér að segja, er ég orðin hrædd um að évillingarnir séu á hraðri leið með að sigra
    égviljara íslenskunnar. Þakka þér skrifin um málfarið okkar.

  7. Jón Sveinsson skrifar:

    Ég tek heilshugar undir þetta hjá Agli varðandi Ríkisútvarpið. Ef ég man rétt þá var verið að auglýsa eftir málfarsráðunaut hjá þeirri stofnum núna ekki alls fyrir löngu.
    Trúlega hefur enginn fengist í starfið, eða hvað ? Allavega mættu ráðamenn þar taka til hendinni og áminna a.m.k. íþróttafréttamenn (og reyndar fleiri) um að tala rétt og fallegra mál.
    Kveðja til þín Eiður.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>