«

»

Molar um málfar og miðla 726

Myndatökumenn, klipparar og fréttamenn Ríkisjónvarps hefðu verið vel komnir að viðurkenningu fyrir eldfjallafréttamennsku en þar stóðu þeir sig með mikilli prýði. Emmy-heiðurinn féll öðrum í skaut. – Gaman hafði Molaskrifari að heimildarmyndinni í Ríkissjónvarpinu um varðskipið Óðin (27.09.2011). Mynd BBC um hvítabirnina á Svalbarða sem sýnd var kvöldið áður, einnig í Ríkissjónvarpinu var hreint ótrúlega mögnuð. Tæknin engu lík.

Margir pistlahöfundar Ríkisútvarpsins sem dvalist hafa erlendis áratugum saman eru svo vel máli farnir að til fyrirmyndar er. Nefni þar fremstan í flokki Kristin R. Ólafsson í Madrid. Gísli Kristjánsson í Osló og Sigrún Davíðsdóttur í London standa líka fyrir sínu. Þessvegna skýtur skökku við að Ríkisútvarpið skuli á hverjum föstudagsmorgni hella yfir hlustendur Rásar tvö ambögugraut vestan frá Kyrrahafi frá pistlahöfundi sem ekki er talandi svo við hæfi sé í útvarpi.

Á mbl. is (28.09.2011) birtist dásamleg frétt um það sem blaðið kallaði þjóðhnappa Pippu Middleton. Þetta var ekki innsláttarvilla eða ritvilla því orðið þjóðhnappar var tví- eða þrítekið í fréttinni áður en hún var leiðrétt og var bæði í myndatexta og meginmáli. Þeir eru góðir Moggamenn. Rétt er til skýringar að geta þess að orðið þjóhnappur þýðir rasskinn. Þjóðhnappar er athyglisverðasta nýyrði sem Molaskrifari hefur lengi séð. Upphaf fréttarinnar á mbl.is: Sú var tíðin að konur flykktust til lýtalækna og vildu fá þjóðhnappa eins og Jennifer Lopez eða Kim Kardashian. Nú hefur hinsvegar orðið mikil breyting á og vinsælustu þjóðhnapparnir vestanhafs tilheyra engri annarri en Pippu Middleton.

Úr frétt á mbl.is (27.09.2011): Hvorugur ökumaður tveggja bifreiða sem lentu í árekstri á Miklubraut við Ártúnsbrekku nú fyrir stundu er ómeiddur en miklar tafir hafa verið á umferð í austurátt í kjölfar slyssins.Að sögn lögreglu virðist áreksturinn hafa verið afleiðing glæfraakstur annars ökumannsins sem lenti aftan á hinum en sá fór nokkra hringi áður en hann lenti síðan á ljósastaur.Sjúkrabílar voru kallaðir á staðinn en hvorugur ökumaður reyndist þurfa á aðhlynningu að halda. Þessi Mogga frétt er óttalegt rugl. Hvorugur ökumaður er ómeiddur ! Þeir eru sem sagt báðir meiddir. Í lok fréttarinnar kemur fram að ökumennirnir voru báðir ómeiddir og þurftu ekki á neinni aðhlynningu að halda. Þá er sagt að annar ökumaðurinn hafi lent aftan á hinum og sá hafi farið nokkra hringi. – Þetta dæmalausa rugl var leiðrétt síðar.
Þegar þarna var komið við sögu, sagði íþróttafréttamaður Ríkissjónvarps í tíufréttum (27.09.201). Þetta orðalag er út í hött. betur hefði verið sagt: Þegar þarna var komið sögu. Málfarsráðunautur kom greinilega ekki við sögu við undirbúning þessarar fréttar. Merkilegt er að ráðið skuli fólk til flytja fréttir sem á í erfiðleikum með að koma svona einföldum hlutum óbrenglað frá sér.
Enn eitt dæmið um beygingafælni, mbl.is (27.09.2011) Neytendur sem eiga vöruna er bent á að skila henni til framleiðanda … Neytendur er ekki bent á. Neytendum er bent á.
Í áttafréttum Ríkisútvarpsins (27.09.2011) var sagt frá fellibyl sem valdið hafði usla á Filippseyjum: Mikil röskun er á öllu athafnalífi í höfuðborginni þar sem loka hefur þurft kauphöll Filippseyja og bandaríska sendiráðinu. Eru kauphöllin og bandaríska sendiráðið burðarásar athafnalífsins í höfuðborginni Manilla? Heldur er það ósennilegt.
Egill sendi eftirfarandi (27.09.2011): „Hverjum vantar svoleiðis?“ sagði Andri Freyr á Rás 2 í morgun. Svo sagði hann: „Ég opna hurðina“ en vitaskuld opnar Andri dyrnar með hurðinni. Þá kom þessi fjóla: „Svo choppaði hann niður,“ er hann átti við að saxa niður. Einnig er óþolandi hvað Andri grípur sífellt frammí fyrir viðmælendum sínum og reynir jafnvel að klára setningarnar fyrir þá, oftar en ekki eitthvað annað en þeir ætla segja.
Lísa Pálsdóttir kom og sagði: „Okkur vantar þrjár – eða þrennar hvítar skyrtur.“ En auðvitað átti hún ekki að leiðrétta sig. Skyrturnar eru þrjár. Aftur á móti væru buxurnar þrennar. Arnar Eggert Thoroddsen talaði um tvo tónleika, ekki tvenna tónleika … og svona mætti lengi telja. Vefst fleirtalan svona mikið fyrir fólki? – Já þetta vefst fyrir mörgum. Það leynir sér ekki, Egill.
Verð á hlutabréfum héldu áfram að hækka, var sagt í sexfréttum Ríkisútvarpsins (27.09.2011). Hér hefði Molaskrifari kunnað betur við að sagt hefði verið: Verð á hlutabréfum hélt áfram að hækka.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>