«

»

Molar um málfar og miðla 739

Glöggur hlustandi benti Molaskrifara á að í tíufréttum Ríkisútvarps á sunnudagsmorgni (09.101.2011) hefði verið sagt frá skemmdarverkum í grafreit kristinna manna í kirkjugarði múslíma í Jaffa í Ísrael. Fréttamaður hefði ýmist talað um sprellvirkja eða spellvirkja og bar þá ellin tvö fram eins og í ávarpsorðinu halló. Engu líkara en þetta tiltölulega algenga orð spellvirki væri fréttamanninum framandi. Spellvirkjar eru engir sprellikarlar.
Úr mbl.is (10.10.2011): Ögmundur benti enn fremur á að þeir sem dæmdir hefðu verið til skammrar fangelsisvistar væri í auknum mæli gefi tækifæri til að taka út refsingu í formi samfélagsþjónustu. Það eru hið minnsta tvær villur í þessari setningu.
Ríkisútvarpið sagði í hádegisfréttum (11.10.2011) að þing Sameinuðu þjóðanna hefði í gær gagnrýnt stöðu fangelsismála á Íslandi. Þetta las fréttastjórinn fyrir okkur hlustendur. Þetta var svo endurtekið í sexfréttum. Þar var aftur talað um þing. Var þing Sameinuðu þjóðanna að fjalla um fangelsismál á Íslandi? Nei. Þarna var um að ræða vinnuhóp á vegum Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf. ( 12th session of the WorkingGroup of the Universal Periodic Review) Þessi vinnuhópur metur og fer yfir stöðu aðildarríkjanna í mannréttindamálum. Mbl.is var með þetta á hreinu. Ríkisútvarpið á að fara rétt með. Það á að vera hægt að treysta því sem sagt er í fréttum Ríkisútvarpsins.
Stórfrétt var á bls. 6 í Morgunblaðinu. Þar kemur fram að 1500 milljón króna framlag úr ríkissjóði til Háskóla Íslands muni auka halla ríkissjóðs. Nema hvað? Varla tíðindi. En hefði fyrirsögnin verið á aðra lund, ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði haldið um stjórnartauma. Hver veit?
Þeir sem stjórna þætti sem kallaður er Virkir morgnar á Rás tvö í Ríkisútvarpinu og er mikill ambögusjóður hafa nú brugðið á það ráð að fá hina og þessa til að vitna um að þeir hlusti á þáttinn. Vafasamt er hvort það séu allt sérstök meðmæli með þættinum.
Hvað ertu búinn að missa margar vinnur ? Svona spurði fréttamaður Ríkissjónvarps í fréttatímanum (10.10.2011) Það var og. Tveir hlustendur bentu Molaskrifara á þess ambögu.
Frétt á visir.is (10.10.2011) Ein manneskja drukknaði eftir að skúta hvolfdi út fyrir ströndum Flórída í gær. Hverju hvolfdi skútan? Skútunni hvolfdi, skútan hvolfdi ekki.
Ofbeldisteymið situr nú í ríkisstjórn við litla hrifningu hins almenna borgara, segir hógvær og hæversk Sjálfstæðiskona í grein í Fréttablaðinu (11.10.2011) í dag. Svona er hin pólitíska umræða á Íslandi. Ríkistjórn Íslands er ofbeldisteymi !
Richard Quest fréttamaður CNN hefur greinilega lúmskt gaman af Ólafi Ragnari Grímssyni. Hann veit að forsetinn fellur alltaf kylliflatur þegar erlendir fjölmiðlar hringja. Quest ræddi við Ólaf Ragnar í síma á CNN á mánudag (10.10.2011). Ekki heyrði Molaskrifari betur en forsetinn segði að hrun bankanna hefði ekki komið við pyngju íslenskra skattgreiðenda, – þeir hefðu ekkert þurft að borga vegna falls bankanna Hvað voru það aftur háar upphæðir sem Seðlabankinn sólundaði í bankabjörgun sem bar engan árangur ? Hvaðan kom það fé ? Frá íslenskum skattgreiðendum.

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Réttmæt athugasemd, Hrafnhildur.

  2. Hrafnhildur skrifar:

    kirkjugarður múslima???

  3. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Stefán.

  4. Stefán Böðvarsson skrifar:

    „Það á að vera hægt að treysta því sem sagt er í fréttum Ríkisútvarpsins.“ Þetta finnst mér eiga að vera eitt af grunnmarkmiðum Ríkisútvarpsins og vil þakka þér fyrir þessa þörfu ábendingu. Eins finnst mér óásættanlegt hversu óundirbúinn fréttalestur ýmissa starfsmanna „útvarps allra landsmanna“ virðist alltof oft vera, nefni til dæmis lestur miðnæturfrétta. Síðast en ekki síst finnst mér, að fyllsta ástæða sé fyrir stjórnendur/starfsmenn stofnunarinnar að funda af og til um „molana“ þína og bæta vinnubrögðin. Vissulega vinna margir mjög vel, en um það þarf gott og reglulegt aðhald, öllum til handa.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>