«

»

Molar um málfar og miðla 740

Gamall samstarfsmaður rifjaði það upp við Molaskrifara á dögunum að séra Emil Björnsson fyrsti fréttastjóri Sjónvarpsins hefði stundum sagt við okkur fréttamennina: ,,Fréttamenn eiga ekki að velta sér upp úr ógæfu fólks”. Nú er búið að snúa þessu við, sagði hann. Annar fyrrum fréttamaður rifjaði upp að Jón Magnússon fréttastjóri útvarpsins hefði sagt: ,,Engar sensasjónir”. Andi þeirra séra Emils og Jóns Magnússonar svífur ekki lengur yfir vötnum fréttastofunnar í Efstaleiti.

Glöggur lesandi sendi eftirfarandi (12.10.2011): ,, Í Viðskiptablaðinu í grein um SAAB-gjaldþrot er talað um að einhver, hafi gengið milli Pontíusar og Pílatusar Það hefur verið sérkennileg gönguferð” . Molaskrifari tekur undir það og rifjar upp að það kom einu sinni fyrir þrautreyndan blaðamann, sem sestur var í helgan stein að mestu en skrifaði stöku greinar í blöð að taka svona til orða. Þá ákvað hann að hætta að skrifa í blöð og stóð við það. Biblíufræga gönguferðin var reyndar frá Heródesi til Pílatusar og er þetta orðalag gjarnan notað þegar einhver er sendur úr einum staðnum í annan án þess að fá úrlausn sinna mála. Sjá annars t.d. bls. 335 , Mergur málsins eftir dr. Jón G. Friðjónsson.

Það var svolítið skrítið að ekki skyldi á það minnst í tíu fréttum Ríkissjónvarps (12.10.2011) að fyrr um kvöldið var Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra á grillinu hjá Stephen Sackur í þættinum Hard Talk á BBC World. Sackur var harður að vanda en Steingrímur stóð sig með prýði. Einna helst komst hann í vandræði með að útskýra setu flokks sín í ríkisstjórn sem sæktist eftir ESB aðild, sem flokkurinn væri algjörlega andsnúinn. Það er erfitt að skýra það út fyrir Íslendingum, hvað þá útlendingum.

Í fréttum Stöðvar tvö sagði fréttamaður (12.10.2011): … áður en nýja deildin opnar. Hvað á nýja deildin að opna ? Ekki neitt. Hún verður opnuð.

Í sexfréttum Ríkisútvarpsins (12.10.2011) var talað um slys á höfninni á Djúpavogi. Eðlilegra hefði verið að segja að slys hefði orðið við höfnina á Djúpavogi. Í sama fréttatíma var talað um fyrsta þingmann Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Þingmaðurinn sem um var rætt er fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis og þingmaður Samfylkingar.

Í fréttum af (skr)umræðum um skuldavanda heimilanna á Alþingi (12.10.2011) var höfuðáhersla lögð á skrum stjórnrandstæðinga í fréttum Ríkissjónvarpsins. Stöð tvö skynjaði hinsvegar kjarna málsins,sem var þegar Árni Páll ráðherra sagði skýrt og skorinort að hann mundi ekki standa að almennri niðurfærslu lána þeirra sem skuldsettu sig úr hófi. Hann mundi ekki bera ábyrgð á því að þessum skuldum væri velt yfir á eignalaust fólk sem ætti ekkert nema lífeyrisréttindin sín. Þetta fór algjörlega framhjá fréttastofu Ríkissjónvarpsins.

Molavin sendi þetta: ,,Bókamessan er að vísu iðnaðarsýning… sagði fréttamaður RUV um bókahátíðina í Frankfurt. Hér er tilefnislaus sletta á ferð, því átt er við að bókamessan sé fagsýning fyrir bókaútgefendur, en við þurfum að gæta þess að innleiða ekki þá enskuslettu að tala um útgáfuiðnað og ferðaiðnað – eða jafnvel skemmtiiðnað eins og heyrzt hefur.” Molaskrifari sendi einnig þetta: ,,Þjóðkirkjan Biskupsstofa sendi frá sér yfirlýsingu í gær… Svona, orðrétt, hefst frétt á visir.is í dag, miðvikudag. Ekki vissi ég að hin íslenska þjóðkirkja væri búin að fá nafnið Biskupsstofa, og giska því á að hér fari saman þrennt; ókunnugleiki blaðamanns og óvandvirkni, ásamt því að enginn lesi yfir fréttir. Molaskrifari þakkar sendingarnar.” Og hér er svo meira frá sama: ,,Fyrirsögn úr sama miðli: ,,Slys í Fagradal. Misminnir mig að málvenja sé að tala um ,,á Fagradal“ þegar átt er við veginn um Fagradal, milli Egilsstaða og Reyðarfjarðar?” Nei, ágæti Molavin. Þig misminnir ekki. Það er ævinlega sagt á Fagradal, þegar talað er um þennan fjallveg. Á vef Ríkisútvarpsins er líka sagt í Fagradal. Kannski þeir Ríkisútvarpsmenn hafi verið að lesa fréttir á visir.is.

Í fréttum Stöðvar tvö (11.10.2011) var sagt: … hvernig á því stóð að nafn Önnu var lekið til fjölmiðla. Nafn var ekki lekið. Nafni var lekið. Ekki flókið, en samt var hægt að klúðra orðalaginu.

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Sverrir skrifar:

    Hvað merkir orðið „sensasjónir“? Tengist það orðinu ofsjónir á einhvern hátt?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>