«

»

Molar um málfar og miðla 744

Stjórnin gat fallið þegar Þráinn féll. Þó líklega nægir aðrir til að verja hana. Þessi snilldarfyrirsögn var á eyjan.is (15.10.2011)Seinni setningin hefði til dæmis getað verið á þessa leið: Líklega hefðu verið nægir aðrir til að verja hana. Klúðurslegt samt.

Egill sendi eftirfarandi (15.10.2011): ,,Hefur gaman af því að gert sé grín af henni, ritar Valgeir Örn Ragnarsson á dv.is um Vigdísi Hauksdóttur. Hér hefði verið betra að skrifa: „Hefur gaman af því að gert sé grín að sér“. Grundvallarkrafa lesenda að blaðamenn séu skrifandi og ekki síður hugsandi. Annars er greinin afskaplega illa skrifuð, ekki aðeins fyrirsögnin.” Egill vísar til viðtals við Vigdísi Hauksdóttur í DV.

Gamall vinur Molaskrifara sem lengi hefur dvalist og starfað erlendis sendi eftirfarandi línur:
,,Mér varð hugsað til þín um daginn þegar fréttir fóru að birtast með byrjandi vetri af færð á fjallvegum. Þá skaut enn upp kollinum orðskrípi sem ég hef aldrei skilið, nefnilega snjóþekja. Allir fjölmiðlarnir eru sífellt að tönnlast á þessu orði sem ég held að þýði einfaldlega snjór. En kannski hef ég misst af einhverju á þessu útlandaflakki. Er kominn snjór með nýja eiginleika, kannski sérstakur vegasnjór sem passar betur fyrir bundið slitslag sem er raunar annað leiðinlegt hugtak sem þarf að losna við? Mér datt þetta svona rétt í hug.”
Molaskrifari þakkar sendinguna. Þegar fjölmiðlamenn tala um snjóþekju eru þeir sennilega að reyna að segja að snjór sé á veginum, ekki að snjóþak sé á veginum. Þekja þýðir nefnilega þak. En líklega eru menn bara úti á þekju. Nema auðvitað þeir sem eru úti að aka á snjóþekju.

Í frétt á pressan.is (16.10.2011) segir: Tilefni fundarins eru skjálftahrinur síðustu vikna sem raktar eru til niðurdælingar á jarðhitavökva frá Hellisheiðarvirkjun. Molaskrifari er ekki tæknifróður, en man ekki betur en hann hafi lesið að verið væri að dæla vatni frá Hellisheiðarvirkjun niður í jörðina. Jarðhitavökvi, er kannski nýtt nafn á vatni sem er Molaskrifara framandi.

Á tólfta tímanum á sunnudagsmorgni hlustaði Molaskrifari á prýðilegt samtal í þætti Sirrýjar 2 tvö. Þar var fjallað um bók Sigríðar J. Víðis, Ríkisfang ekkert. Þar var Þórir Guðmundsson frá Rauða krossinum auk Sigríðar J. Víðis og Sigríðar sem stjórnaði þættinum. Þetta voru vitrænar umræður fólks sem var ágætlega máli farið. Eitthvað annað en ambögur og bull sem hellt er hlustendur Rásar tvö í Virkum morgnum fimm daga vikunnar. Umburðarlyndi gagnvart símadónanum, sem kallaði flóttamenn pakk og múslimadót var of mikið. Það á að kveðja svona kumpána kurteislega. Kannski benda þeim á að hringja í Útvarp Sögu þar sem þeir mundu passa í kramið, eins og stundum er sagt!

Ein leið til að bæta texta og málfar er að lesa það sem vel hefur verið skrifað: ,, Þarna á sléttunni þar sem brotsjóir riddaraliðs höfðu geisað fram hver á fætur öðrum, – því að Ásbirningar voru ávallt á hestbaki milli bardaganna, – þar lá nú hinn eilífi friður yfir sverðinum. Upp af tjörnum og ám stigu langir stólpar af þoku , þegar viðraði til þess. Næturkyrrðin lá annars yfir öllu meðan náttúran dottaði , og ekkert hreyfði sig nema hinar sírennandi ár og hin óstöðvandi Héraðsvötn, sem aldrei sofa og aldrei hvílast. Í flóðum á vorin glitti víðsvegar í þau heiman frá mér. Þau depluðu bláskærum augum til mín langt að”. Hér lýsir Indriði Einarsson bernskustöðvum sínum í Skagafirði þegar hann vakti yfir túninu á nóttunni – og tengir þær sögunni. Þetta er úr endurminningum hans Séð og lifað, (Almennna bókafélagið 1972) – fágætlega vel skrifuð og skemmtileg bók. Lærdómsrík að auki.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>