«

»

Diplómatavegabréfið og Útvarp Saga

Stjórnendum Útvarps Sögu, útvarpsstjóranum og stjórnarformanninum, er í nöp við utanríkisráðuneytið og starfsmenn þess. Hvert tækifæri er notað til að reiða til höggs gagnvart ráðuneytinu og starfsfólki þess.

Þrástagast er á því í Útvarpi Sögu að utanríkisráðuneytið hafi gefið út diplómatavegabréf til handa Björgólfi Thor Björgólfssyni útrásarvíkingi sem síðan valsi um veröldina veifandi slíku vegabréfi og þurfti hvergi að sæta tollskoðun og geti farið með hvað sem hann kýs milli landa án þess að farangur hans sé skoðaður eins og hjá öðrum ferðamönnum. Hjúin sem stýra þessum fjölmiðli fullyrða að þau hafi í sinni vörslu ljósrit af vegabréfinu.

Skemmst er frá því að segja að hvergi eru finnanlegar heimildir fyrir því að Björgólfur Thor hafi fengið diplómatavegabréf frá íslenska utanríkisráðuneytinu. Hvergi. Hann var kjörræðismaður íslands í St. Pétursborg um skeið og hafði þá svokallað þjónustuvegabréf, sem er allt annað en diplómatavegabréf. Þjónustuvegabréf hafa sumir ræðismenn, séu þeir íslenskir ríkisborgarar og allmargir íslenskir embættismenn, – til skamms tíma, að minnsta kosti, var það svo að þingmenn höfðu eða gátu fengið þannig vegabréf. Þjónustuvegabréf Björgólfs Thors er löngu útrunnið og var ekki endurnýjað. Sá sem þetta ritar veit með vissu að hann hafði þjónustuvegabréf í maí 2005, – ekki diplómatavegabréf. Ef Sögufólkið er svona visst í sinni sök þá er rétt að biðja þau að birta ljósritið af þessu diplómatavegabréfi á vef Útvarps Sögu fullyrðingum sínum til staðfestingar. Það er ekki flókið mál. Þannig geta þau sannað mál sit, – ella standa þau uppi sem ósannindafólk.

Fullyrðingin um að handahafar diplómatavegabréfa þurfi ekki að gangast undir tollskoðun er bara bull og ósannindi. Þeir sem eru með diplómatavegabréf þurfa að sæta öryggisleit, gegnumlýsingu farangurs og leit í farangri rétt eins og allir aðrir flugfarþegar.

Þessvegna skal hér sagt að lokum: Trúið varlega því sem þið heyrið í Útvarpi Sögu.

10 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Sæll Helgi, – ég á erfitt með að taka undir að það sé gott fólk, sem ítrekað segir hlustendum ósatt. Til dæmis með þetta diplómatavegabréf. Arnþrúður Karlsdóttir hefur margsagt ósatt , hrienlega logið, um lífeyrismál mín, – það hefur bakað mér óþægindi. Nú gefur hún ítrekað í skyn að ég sé leigupenni einhvers sem hún ekki tilgreinir. Það er ekki gott fólk , Helgi sem dreifir ósannindum um aðra. Finnst þér það?

  2. Helgi Steingrímsson skrifar:

    Man sem aðrir fyrrum Eið sem góðann dreng.Krati en kom vel fyrir.
    TV stjarna,Alþingi í há embætti,diplómat,þróunarstörf o.s.frv..
    Í dag eru Íslendingar ekki hamingjusöm,rík…en samt falleg þjóð.
    Sá okkar er minnst má sín fær tækifæri að tjá sig á útvarpi Sögu.
    Annarsstaðar kemst hann ekki að,-nema með ærinni fyrirhöfn.
    Gott fólk stendur að þeirri stöð.Ekki bara starfsfólk,þjóðinn öll.
    Eiður.Fullvalda,sjálfstæð ættir þú að leggja okkur lið með alla
    þína reynzlu og stuðla að frelsi og sátt.Sumt er rétt,annað ekki.

  3. Brynjar skrifar:

    …enda ertu bara með friðhelgi í gistiríki. Íslendingar með íslensk diplómatavegabréf eru ekki undanskildir tollskoðun á Keflavíkurflugvelli.

    En ég dreg stórlega í efa að Björgólfur hafi nokkurn tíma haft diplómatapassa!

  4. Tollari skrifar:

    Handhafi diplómatapassa getur ekki neitað því að gangast undir tollskoðun í Keflavík. Úrlendisréttur sá sem handhafar slíkra vegabréfa njóta á ekki við hér á landi.

  5. Eiður skrifar:

    Allt þetta vissi ég, Þorvaldur.

  6. Þorvaldur S skrifar:

    Í lögum nr. 4 frá 1978 um aðild Íslands að alþjóðasamningi um ræðissamband segir m.a:
    „50. gr. Tollfrelsi og undanþága frá tollskoðun.
    1. Í samræmi við lög þau og reglur sem viðtökuríkið kann að setja skal það heimila innflutning á og veita undanþágur frá öllum tollum, sköttum og skyldum gjöldum, að undanteknum gjöldum fyrir geymslu, akstur og svipaða þjónustu, að því er varðar:
    a. muni sem ætlaðir eru til opinberra nota ræðisstofnunarinnar;
    b. muni sem ætlaðir eru til persónulegra nota ræðiserindreka eða þeirra úr fjölskyldu hans sem teljast til heimilisfólks hans, þar á meðal muni sem ætlaðir eru til bústofnunar hans. Neysluvarningur skal ekki vera meiri en nauðsynlegur getur talist til beinna þarfa viðkomandi einstaklinga.
    2. Ræðisstarfsmenn skulu njóta þeirra forréttinda og undanþága sem greindar eru í 1. mgr. greinar þessarar að því er við kemur munum sem fluttir eru inn þegar þeir fyrst setjast að í viðtökuríkinu.
    3. Persónulegur farangur sem ræðiserindrekar og þeir úr fjölskyldum þeirra sem teljast til heimilisfólks þeirra hafa meðferðis skal undanþeginn skoðun. Þó má skoða hann ef gildar ástæður eru til að ætla að í honum séu aðrir munir en þeir sem greint er frá í b-lið 1. mgr. greinar þessarar, munir sem samkvæmt lögum og reglum viðtökuríkisins er bannað að flytja inn í landið eða út úr því eða munir sem lúta lögum og reglum þess um sóttvarnir. Slík skoðun skal fara fram í viðurvist ræðiserindrekans eða þess úr fjölskyldu hans sem hlut á að máli.“
    Sem sagt; undanþeginn skoðun. Jamm.
    Það verður þó að taka fram að Björgólfur hefur ekki þessa heimild og hefur tæplaga haft.

  7. Eiður skrifar:

    Geri fastlega ráð fyrir því.

  8. Benedikt Sveinsson skrifar:

    „Það þýðir ekkert að veifa diplómatavegabréfi framan í tollvörð í Keflavík og segjast vera með fimm ginflöskur og ætla sér að sleppa í gegn.“

    en, ef þú segist ekki vera með neitt (ert hugsanlega með 5 ginflöskur) – og þú veifar diplómatavegabréfinu í tollvörðinn, má hann þá krefjast þess að þú opnir töskurnar ?

    kv
    Benedikt

  9. Eiður skrifar:

    Hér er ekki verið að rugla neinu saman, Brynjar. Þeir sem eru með diplómatavegabréf mega t.d. ekki hafa meira magn af áfengi eða tóbaki í farangri sínum en aðrir ferðamenn og mega heldur ekki koma með hrátt kjðt frá úitlönmdum, svo nokkuð sé nefnt. Sendiherrar og sendiráð verða að greiða í stöðumæla og fylgja umferðarlögum í einu og öllu. Þetta veit ég. Það þýðir ekkert að veifa diplómatavegabréfi framan í tollvörð í Keflavík og segjast vera með fimm ginflöskur og ætla sér að sleppa í gegn.

  10. Brynjar skrifar:

    Öryggisleit og gegnumlýsing farangurs áður en farið er inn á transit svæði alþjóðaflugvalla er ekki tollskoðun, heldur öryggisleit sem allir farþegar, starfsmenn og áhafnir þurfa að fara í gegnum. Alveg merkilegt hvað þessu er ruglað saman.

    Handhafar diplómatavegabréfa eru undanþegnir tollskoðun í gistiríki. Þetta ættir þú að vita vel sigldur maðurinn og fyrrverandi sendiherra…

    Dæmi: Sendiherra erlends ríki á Íslandi þarf að fara í öryggisskoðun við brottför í Leifsstöð eins og allir aðrir farþegar. Við komu hinsvegar getur hann framvísað diplómatavegabréfi og er þá undanþeginn tollskoðun.

    Góðar stundir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>