«

»

Molar um málfar og miðla 801

Vefur Ríkisútvarpsins er um margt alveg prýðilegur, þótt Molaskrifari hafi ekki verið alls kostar hrifinn þegar vefnum var breytt nýlega, hefur hann að mestu sætt sig við nýtt útlit. Molaskrifari notar vefinn talsvert, – meðal annars til að sannreyna að hann hafi heyrt rétt, þegar hann hefur þóst heyra einhverja amböguna í fréttum og hefur yfirleitt ekki nefnt villur á nafn nema geta sannreynt þær með því að hlusta á þær að nýju á vefnum.
En stundum er erfitt að átta sig á vefnum. Í tíufréttum (29.12.2011) þóttist Molaskrifari heyra fréttaþul láta út úr sér eina ef ekki tvær ambögur. Þegar hann nokkru seinna hugðist hlusta á þennan fréttatíma að nýju var hann ekki að finna í Sarpinum svokallaða þar sem allir fréttatímar útvarps og sjónvarps eiga að vera. Þar voru fréttatímarnir klukkan níu og klukkan ellefu. Ekki tíufréttirnar. Væri hinsvegar farið í þann glugga vefsins þar sem sjá má alla dagskrá dagsins var tíu fréttatíminn merktur með bláu þannig að hann væri aðgengilegur til hlustunar. En þegar það var reynt birtist aðeins hvítur skjár og ekkert hljóð. Fréttímarnir á undan og eftir voru hinsvegar aðgengilegir. Svolítið er þetta einkennilegt. Þannig var þetta enn að kveldi föstudags 30. des.
Einhver skýring hlýtur að vera á þessu. Það eiga allir fréttatímar að vera aðgengilegir á vefnum. Hvað veldur? Hversvegna er þessi fréttatími ekki aðgengilegur?

Aðeins meira um vefinn. Þar stóð 29.12.201: Oddvitar ríkisstjórnarflokkanna leituðu ekki til annarra stjórnarandstöðuflokka en Hreyfingarinnar og Guðmunds Steingrímssonar eftir stuðningi. Þótt eignarfallið Guðmunds sé að öllu jöfnu notað til dæmis í Guðmundsdóttir og Guðmundsson , þá má heita föst málvenja að nota eignarfallið Guðmundar í öðrum samböndum. Ég fór til Guðmundar bróður míns. Þetta er bíllinn hans Guðmundar.

Egill sendi þetta (29.12.2011): ,,Margrét Erla Maack féll í þá gildru, í Kastljósi gærdagsins, að segja að Flugbjörgunarsveitin sé hluti af Landsbjörgu. Það er ekki rétt. Hún er hluti af Landsbjörg. Sjá:” http://bin.arnastofnun.is/leit.php?q=landsbjörg

Það ber að þakka DV fyrir að halda áfram að fletta ofan af fjármálaumsvifum sjálfkjörnu Framsóknarforkólfanna sem sólunduðu öllu fé ,,dánarbús” Samvinnutrygginga. Molaskrifari veit ekki betur en Samvinnutryggingar hafi kallað sig ,,gagnkvæmt tryggingafélag”. Tugir þúsunda Íslendinga sem skipt höfðu við félagið árum eða áratugum saman áttu þar inneign. Öllum þeim fjármunum sóaði fólk með vafasamt umboð, að ekki sé meira sagt til ýmissa fjármálagerninga sem gerðir voru og tengdust um sumt því sjálfu. . Ekki er vitað til að neinn hinna sjálfkjörnu hafi verið yfirheyrður, hvað þá meira – eða hvað?

Molavin vísar á stofnanamál á vef Ríkisútvarpsinsins en þar var sagt (22.12.2011): …var konan flutt á slysadeild með skerta meðvitund. Gott að vita að búið er að finna upp stofnanaútgáfu af hinu óskýra hugtaki ,,rænulítill.“

Það var eitthvað á reiki í gær (29.12.2011) hjá fréttastofu Ríkisútvarpsins hvort fundur ráðherra á Bessastöðum á gamlársdag væri ríkisstjórnarfundur eða ríkisráðsfundur. Oftar var þó réttilega talað um ríkisráðsfund. Þegar ríkisstjórnin fundar á Bessastöðum og forseti Íslands stýrir fundinum er það ríkisráðsfundur. Þetta eru umræðulausir afgreiðslu- og staðfestingarfundir í hefðbundnu formi. Hreint formsatriði. Ríkisstjórnarfundi er hægt að halda hvar sem er. Þeim stýrir forsætisráðherra. Þar fara fram umræður og ákvarðanir eru teknar. Þetta ættu allir fréttamenn að vita.

Margt góðra liðsmanna starfar við fréttaflutning og dagskrárgerð í Ríkisútvarpinu þótt hér sé margvísleg gagnrýni höfð uppi. Af nýlegum liðsmönnum fréttastofu þykir Molaskrifara Gunnar Hrafn Jónsson standa sig með prýði. Hann er vel máli farinn og áheyrilegur og naskur á að finna og flytja áhugaverðar fréttir. Þegar kemur að vali nýrra starfsmanna sem kynna dagskrá útvarpsins er betra að ganga úr skugga um að þeir sem ráðnir eru kunni að beygja orð eins og dóttir, – það er ekkert óskaplega flókið eða erfitt að tileinka sér þetta.

Molaskrifari óskar lesendum sínum öllum árs og friðar og þakkar ánægjuleg samskipti, stuðning og hvatningarorð á árinu sem nú er að kveðja.
Gleðilegt ár!

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Nafnlausar athugasemdir verða ekki birtar. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli og nafnlausar athugasemdir. ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>