Það var gott hjá fréttastofu Ríkisútvarpsins þegar birt voru brot úr ræðum fyrri forseta, Ásgeirs Ásgeirssonar, Kristjáns Eldjárns og Vigdísar Finnabogadóttur þar sem þau sögðu skýrt og skorinort þannig að engin leið var að misskilja eitt eða neitt að þau ætluðu ekki að gefa kost á sér til endurkjörs. Fréttamaður Ríkissjónvarps gerði enn eina tilraun til að fá Ólaf Ragnar Grímsson til að tala skýrt um þetta efni (06.01.2012). Það tókst ekki. Óalfur Ragnar vill ekki gefa skýr svör. Hann er ekki hreinn og beinn eins og okkar fyrri forsetar.
Þeir æskuvinirnir Jón Baldvin og Styrmir Gunnarssonar eru aldeilis ekki sammála um hvernig túlka beri orð Ólafs Ragnars. Styrmir segir Ólaf hafa talað skýrt. Hann muni hætta. Jón Baldvin segir Ólaf Ragnar ekki hafa talað skýrt. Andstæðingar ESB aðildar eiga enga ósk heitari en að fá Ólaf Ragnar af fullum krafti í sína sveit. Þeir krjúpa nú þegar nokkrir við fótskör hans, fyrrum leiðtogar Sjálfstæðisflokksins. Molaskrifari tekur undir með Jóni Baldvin. Ólafur Ragnar talaði óskýrt. Hann tvísté. Það er dónaskapur við þjóðina og þá sem hafa hug á að bjóða sig fram í næstu forsetakosningum.
Af vef Ríkisútvarpsins (07.01.20121) : Innanríkisráðuneyti Sýrlands hefur heitið því að berja til baka það sem opinberir aðilar kallar stigvaxandi hryðjuverkaárásir á ríkisstjórnina. Alltaf heyrir maður eitthvað nýtt. Berja til baka ! Vonandi er þetta bara innsláttarvilla.
Molaskrifari mælir eindregið með Tungutakspistli Þórðar Helgasonar Af orðaleppum í Sunnudagsmogga, 8. janúar. Þeir sem skrifa fréttir ættu að lesa þennan ágæta pistil og tileinka sér það sem þar er sagt.
Hver stóð á hægri hönd Guðmundar …? Var spurt í ágætum Útsvarsþætti (06.01.2012) í Ríkissjónvarpinu. Sem betur fer (fyrir Guðmund) stóð enginn á hægri hönd hans. Hinsvegar hefði mátt spyrja: Hver stóð Guðmundi á hægri hönd, – hver stóð hægra megin við Guðmund ? Þau Sigmar og Þóra sem stjórna Útsvari eru annars prýðilega máli farin.
Úr mbl.is. (08.01.2012) Klukkan 09:00 var tilkynnt um innbrot og eignarspjöll að Lónsbraut í Hafnarfirði. Þar hafði plast í bílskúrshurðarglugga verið kýldur inn. Ljóst að ekki var farið inn. Innbrot og ekki brotist inn. Eignarspjöll ætti að vera eignaspjöll og dálítið er undarlegt að tala um hann plastið !
Gott hefði verið ef einhver hefði lesið yfir fréttirnar klukkan sjö á sunnudagsmorgni (08.01.2012) áður en þær voru lesnar fyrir okkur. Þar var meðal annars sagt um hættu á hryðjuverkum í Kenýa: Breska utanríkisráðuneytið segir … og hafa gefið út viðvörun. Ráðuneytið hefur gefið út viðvörun. … fundust í síðasta mánuði… Hversvegna ekki í desember? Flutningaskip sem fyrir nokkru strandaði á rifi undan strönd Nýja Sjálands hefur nú brotnað í tvennt. Gámar hafa fallið í sjóinn og varningur úr þeim rekur á fjörur…. Þetta er ótrúlega algeng villa. Margir fréttamenn ráða ekki við að nota áhrifslausu sögnina að reka. Varning úr gámunum rekur á fjörur, ekki varningur. Svo var sagt frá mikilli snjókomu sem valdið hefði usla í Austurríki. Usli er skaði eða tjón. Notkun orðsins usli í þessu samhengi er kannski ekki beinlínis röng, en orkar þó tvímælis. Ótrúlegt var hinsvegar að heyra að snjódýptin frá því á fimmtudag væri tólf hundruð sentimetrar eða tólf metrar ! Líklega er hætt að kenna nemendum á metrakerfið í grunnskólum !
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Þorvaldur S skrifar:
09/01/2012 at 16:18 (UTC 0)
Hver ætli sé munur á áhrifslausri sögn og ópersónulegri?