Þegar Ögmundur Jónasson ráðherra í ríkisstjórn Íslands skrifar grein í víðlesið blað undir fyrirsögninni Gotcha sem er amerískt slanguryrði, er ástæða til að staldra við. Svo læra börnin málið sem það er fyrir þeim haft. Molaskrifari er á því að þetta sé ráðherranum heldur til minnkunar, en í greininni ber hann það af sér hafa sagt ósatt í sjónvarpsviðtali.
Reyndur fréttaþulur las án þess að hika í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins (11.02.2012): Upplýsingar ungrar konu sem sá mann og bíl ….. varð mjög til þess að auðvelda rannsókn málsins. Þrautreyndir þulir mega ekki láta það henda sig að lesa svona ambögu. Hér hefði átt að segja : Upplýsingar ungrar konu… urðu til þess að auðvelda mjög rannsókn málsins. Þetta var leiðrétt í næstu fréttatímum. Þulir sem hlusta ekki á eigin lestur þurf að hugsa sinn gang og bæta um betur.
Jón Þórarinsson tónskáld var einn af máttarstólpum menningarlífs á Íslandi á seinni helmingi liðinnar aldar. Hann var alla ævi nátengdur Ríkisútvarpinu þar sem hann fyrst hóf störf 1938, starfaði seinna á tónlistardeild, var dagskrárstjóri lista- og skemmtideildar Sjónvarpsins og sat í útvarpsráði. Hann var afkastamikið tónskáld, yfirkennari við Tónlistarskólann í Reykjavík um langt árabil. Ritaði bækur og greinar. Skrifaði m.a. ævisögu Sveinbjörns Sveinbjörnssonar og hljómsveitarútsetning þjóðsöngsins er hans verk. Molaskrifara þótti Ríkisútvarpið minnast fráfalls hans með heldur snautlegum hætti. Í átta fréttum (13.02.2012) olli tækniklúður því að fréttinni um lát hans var frestað til seinni frétta. Þá var sagt að Jón hefði meðal annars samið lag við Íslenskt vögguljóð á Hörpu við texta Halldórs Laxness. Hvenær hætta fréttamenn að kalla ljóð höfuðskálda okkar texta ? Minning Jóns Þórarinssonar á betra skilið af hálfu Ríkisútvarpsins. En svona fer þegar þekking á sögunni er hornreka innan menningarstofnana og söguleg vitund á ekki upp á pallborðið. Það er líka til marks um þennan skort á sögulegri vitund að ekki heyrði Molaskrifari (14.02.2012) í upplestri úr dagblöðum né í sjö eða áttafréttum Ríkisútvarpsins minnst á andlát Jónasar H. Haralz, hagfræðings, sem var mikill áhrifamaður í efnahagsmálum á Íslandi um áratugaskeið á síðustu öld. Andláti söngkonunnar Whitney (eða Whitneyjar eins og Ríkisútvarpið segir) Houston hafa hinsvegar verið gerð góð skil í Ríkisútvarpi og sjónvarpi.
Í morgunþætti Sirrýjar á Rás tvö (12.02.2012) var rætt við málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins. Ágætisspjall. Málfarsráðunautur hefur verk að vinna. Gæti til dæmis leiðbeint konunni sem kynnir dagskrána í sjónvarpinu um hvernig hún ætti að segja hér á Rúv sem dynur tilgerðarlega í eyrum okkar svona tíu sinnum hvert kvöld. Karlmaður sem kynnir dagskrána stöku sinnum segir hér á Rúv með eðlilegum framburði. Annars á að sleppa þessu hér á Rúv bulli því auðvitað er verið að kynna dagsrá Ríkissjónvarpsins , ekki Stöðvar tvö eða Skjásins. Skammstöfunin RÚV getur átt heima í erlendum samskiptum og á skjánum, en það á ekki að gera orðið Ríkisútvarp útlægt í þessari grónu stofnun eins og greinilega hefur verið gert. Málfarsráðunautur gæti svona í leiðinni gaukað því að konunni að það að rugla saman reitum þýðir ekki að spjalla saman, það þýðir að hefja búskap, hefja sambúð , ganga í hjónaband (12.02.2012).
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (12.02.2012) var sagt frá því að bandaríska söngkonan Whitney Houston hefði fundist látin á hótelherbergi í Los Angeles. Í fréttinni var sagt: Ekki er þó talið að andlátið hafi borið að með voveiflegum hætti. Hér telur Molaskrifari að ekki hefði átt að nota orðið voveiflega. Orðið voveiflega þýðir, skyndilega eða hræðilega eða hörmulega. Hér hefði til dæmis mátt segja: … ekki er talið að andlátið hafi borið að með saknæmum eða grunsamlegum hætti.
Bjarni Sigtryggsson skrifaði á vegg Molaskrifara á fésbókinni: Stöð2 fjallar ítrekað í fréttum um íslenzku konfjúsíusarstofnunina. –
,,Makes me confused.“ Ekki hissa þótt þetta rugli þig í ríminu, Bjarni!
Blár ópal sigraði símakosninguna, sagði í fyrirsögn á dv.is (12.02.2012). Skyldi símakosningin hafa verið erfiður andstæðingur? Sigraði ekki Blár ópal í símakosningunni? Öllu líklegra.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
15/02/2012 at 16:12 (UTC 0)
Þar sem athugasemd þín var skrifuð í vinnutíma hélt ég kannski að þú væri að skrifa þetta fyrir hönd Ríkisútvarpsins.
Eiður skrifar:
15/02/2012 at 14:34 (UTC 0)
Þessi kurteislega ábending frá sjálfum dagskrárritstjóra Ríkisútvarpsins er auðvitað vel þegin. Hann talar hér fyrir hönd þessarar stofnunar okkar allra. Molaskrifari mætir svo mikilli kurteisi úr Efstaleitinu að honum verður eiginlega orðfall. En rétt er það, – þarna var stafsetningarvilla á ferð.
Gunnar Þorsteinsson skrifar:
15/02/2012 at 13:46 (UTC 0)
Orðið „reytur“ er skrifað með ypsíloni og það er með ólíkindum að virðulegur vandlætari með meiru skuli ekki hafa hugmynd um það. Fáheyrt! Og hefur DV enga sómakennd? Er það hlutverk þess að vera vettvangur slíkra ritsóða? Hneyksli! Skandall!