Í Fréttablaðinu (23.02.2012) segir: Honum var bjargað úr bílnum sem hafði snjóað inni á fáförnum vegi. Þetta er út úr kú. Bíllinn var fastur í snjó. Það er ekki einu sinni hægt að segja að þetta sé úr ensku, – kannski þó óbeint. Á ensku er snowed in yfirleitt notað um það að komast ekki út úr húsi vegna fannfergis.
Í Morgunblaðinu (23.02.2012) er fjallað um hugsanlega afturköllun landsdómsákæru á hendur Geir H. Haarde. Þar er haft eftir saksóknara Alþingis: … og talsvert virðingarleysi við vinnu allra ef það yrði gert alveg á hinsta degi. Molaskrifari er ekki sáttur við að hér sé sagt á hinsta degi. Það orðalag er í hans huga einkum notað þegar rætt er um lokadaginn í lífi einhvers.
Ekki getur Molaskrifari sagt að hann fyllist tilhlökkun þau kvöld þegar Ríkissjónvarpið vikulega býður upp á þáttaröð þar sem varúlfur, blóðsuga og draugur koma við sögu. Það höfðar sjálfsagt til einhverra. Einkum kannski þeirra sem ráða efnisinnkaupum Ríkissjónvarpsins.
Sagt er á mbl.is (23.02.2012): Hugsanlegt er að fordæmisgildi nýfallins gengislánadóms sé ekki það mikið. Ekki það mikið að hvað? Hér hefur hálf hugsun ratað inn í setningu. Botninn er suður í Borgarfirði.
Lesandi sendi Molum þessa fyrirsögn af visir.is: Heimsmarkaðsverð á olíu aldrei dýrara fyrir Íslendinga. Og bætir við: Um þetta er ekkert meira að segja. – Fyrirsögnin var seinna lagfærð á visir.is
Úr dv.is (24.02.2012) En að mati greinarhöfundar svífa yfir vötnum ýmsar áhættur sem geri Ísland viðkvæmt fyrir skakkaföllum. Áhætta er eintöluorð. Ekki til í fleirtölu.
Úr frétt á visir.is (24.02.2012); Rabbíinn Abraham Cooper, aðstoðarforseti hjá Simon Wiesenthal stofnuninni í Los Angeles, … Hér er líklega verið að þýða enska starfsheitið vice-president. Nær væri að tala um framkvæmdastjóra, eða sviðsstjóra ekki aðstoðarforseta !
Allt bendir til að tölva Molaskrifara verði í meiriháttar endurhæfingu um helgina og því óvíst um Molaskrif um sinn.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
25/02/2012 at 17:19 (UTC 0)
Ýmislegt er gott í dagskrá Ríkissjónvarpsins, en ruslið er því miður í meirihluta. það er til glás af gömlu góðu sjónvarpsefni, en ekki virðist neinn vilji til að sýna slíkt. Kannski er það afleiðing af því aðí Efsteliti man of fátt fólk lengra en fáein ár aftur í tímann. Varðandi erlendar kvikmyndir er ég hjartanlega sammála þér. Það eru til þúsundir gamalla mynda sem eru betri en draslið sem verið er að sýna okkur. Lítum bara á kvikmyndavalið í norrænu stöðvunum. Þar starfar fólk sem hefur betri útsýn til margra átta en þeir sem starfa í Efstaleiti þótt það standi hátt og þaðan væri vissulega hægt að horfa vítt og breitt og velja vandaðra efni. Það er bara ekki gert. Það er miður.
Stefán Friðrik Stefánsson skrifar:
25/02/2012 at 10:50 (UTC 0)
Þátturinn um varúlfinn, blóðsuguna og drauginn er því miður einn af of mörgum miður lélegum á dagskrá RÚV á hverju ári, myndirnar því miður of margar í lélegum gæðum. Það er of mikið keypt af annars og þriðja flokks efni. Má vera að þetta sé aukreitis efni í innkaupum en það er þá of mikið af því. Væri gaman að menn hefðu smekk á þessari stöð og sýndu okkur gamlar perlur íslensks efnis eða erlendar stórmyndir með alvöru leikurum í staðinn fyrir þessar vellur.